Strandapósturinn - 01.06.2010, Blaðsíða 102
100
Sveinn Kristinsson
Skólagangan
Það er morgunn í byrjun nóvember 1956. Landpósturinn,
hann Einar á Munaðarnesi kom í gær. Það er alltaf eftirvænting
þegar pósturinn kemur. Ekki sérstaklega vegna þess að fólk eigi
von á skemmtilegri póstsendingu, heldur vegna þess að koma
landpóstsins rýfur einangrunina, hann kemur með nýjar fréttir
úr sveitinni og segir okkur sögur af mönnum og málefnum.
Einar talar þó ekki af sér, hann er varfærinn í orðum og talar
ekki illa um fólk. Hann hefur alltaf varann á sér, vill ekki styggja
neinn. Hann er ekki maður sem fullyrðir hluti.
Ég á að fara í skólann og fylgja Einari fram eftir. Ég þarf að
vera þar næstu fjórar vikurnar. Ég kvíði því dálítið, en hlakka líka
til að vera með öðrum krökkum, læra og leika mér. Það er hvíld
frá því að stússa við kindurnar og búverkin, fara á beitarhúsin og
gefa og hreinsa grindurnar. En leiðin er löng. Ég verð tvo daga
á leiðinni ef veðrið helst gott. Ég á að ganga með landpóstinum
honum Einari fram í sveit og við erum að leggja af stað í birtingu,
því dagurinn er skammur.
Systkini mín eru sofandi, en pabbi og mamma sem sefur minnst
af öllum eru komin niður og það er kaffiilmur í eldhúsinu. Einar
drekkur kaffið hægt, hann hellir því á undirskálina, blæs á það til
að kæla ofurlítið og sötrar svo af skálarbrúninni. Pabbi drekkur
kaffið líka af undirskálarbrún. Það er sötursinfónía í eldhúsinu.
Úti er enn myrkur. Mamma er búin að setja fötin mín og
skólabækurnar í hvítan léreftspoka og pabbi bindur bandspotta í
annað hornið og hinn endann fyrir opið, en mátulega þannig að
ég geti smeygt bandinu yfir mig og haft pokann á bakinu. Hann
er ekki þungur, hef bara föt til skiptanna.