Strandapósturinn - 01.06.2010, Blaðsíða 93
91
tjöldunum upp á háaloftið. Finnur hafði áður kúldrast við verkið
í alltof lágreistri kytru og hafði eiginlega gefist upp við að ljúka
því. Það leið að frumsýningu og Finnur var kominn í tímahrak.
Hann fékk þá Jón til að hjálpa sér. Þetta var mikill atburður í
mínum augum. Ég hékk yfir þeim löngum stundum við að mála
þúsundir örsmárra laufblaða sem Finnur hafði áður teiknað hvert
fyrir sig með blýanti. Ég tók fullan þátt í kvíða þeirra, að fá ekki
lokið verkinu í tæka tíð. En það tókst og ég held ég hafi ekki notið
annars leikverks betur á Hólmavík en Jeppa á Fjalli í þetta sinn.
Leiktjöld Finns þóttu stórkostleg og voru óspart notuð, a.m.k.
fram til 1950, jafnt við inni- sem útisenur! Þetta er ekkert plat hjá
mér eða tilraun til að vera fyndinn. Það voru engin önnur tjöld til.
Og því þá ekki að breyta einni og einni innisenu í útisenu til að fá
að sjá tjöldin hans Finns ennþá einu sinni. Það var engin hætta á
því að áhorfendur sæju alvarlega í gegnum smávegis brellur, sbr.
að einu sinni féll tjaldið í Skugga-Sveins sýningu í miðju atriði.
Leikararnir nálguðust andleg áföll og sáu fyrst í stað ekki annað
ráð en endurtaka þáttinn frá byrjun! Sáu svo að nóg var að gera
smáhlé. Áhorfendur fögnuðu og höfðu engan grun um að nein
mistök hefðu átt sér stað!
Ég vissi aldrei til að leiktjöld væru gerð á Hólmavík eftir þetta
meðan ég var þar. Vaka taldi sér leiktjöld til eignar í ársreikningi
1939 og voru það Jeppatjöldin, vil ég meina. Hvar skyldu þau
annars vera niðurkomin nú? Kannski þau leynist bakatil í
Bragganum gamla?
Sigmundur Halldórsson, sem lék skósmiðinn í leiknum, var þá
að byggja símstöðina (1935) fyrir Hjálmar bróður sinn. Jeppi var
leikinn af Ormi Samúelssyni. Mér fannst hann skila hlutverkinu
stórkostlega en sá hann aðeins leika í einu leikriti öðru, Ráðskonu
Bakkabræðra. Jeppi er sem kunnugt er hengdur brennivínsdauður
upp í tré og látinn rakna þar við í snörunni. Vildi þá ekki betur til
en svo, að hengibúnaðurinn bilaði og snaran hertist að hálsi hans.
Mótleikarinn sá hvað verða vildi og skar Jeppa niður fyrr en til
stóð, svo að þetta kom ekki að sök. Friðjón Sigurðsson lék kerlingu
Jeppa, Nillu.
Til eru bæði fundargerða- og reikningabækur Vöku. Ég fékk
eitt sinn að líta í þær á hreppsskrifstofunni á Hólmavík. Þar sést
að félagið hefur haldið nokkrar skemmtanir, m.a. sýnt Landabrugg