Strandapósturinn - 01.06.2011, Síða 70
68
hlerar, tágakörfur – plastið var ekki komið þá. Tómar flöskur hirt-
um við – gott var að hafa þær undir berjasaftina og jafnvel undir
mjólkina og kaffið, sem ég reiddi oft með mér á engjarnar í ull-
arsokk til þess að halda á því hita, svo það kæmi ekki kalt til þeirra,
sem voru að vinna á engjunum.
Já, það rak margt á fjörur á þessum árum norður á Ströndum
– björgunarhringar og meira að segja heilir björgunarflekar, sem
vöktu forvitni um það, hvort þar væri eitthvað grunsamlegt á ferð
eða spennandi að sjá. Ég man eftir einum slíkum fleka sem rak
upp á sandinn í Fauskavík – opinn tréfleki mikill með flotholtum
og góðri aðstöðu fyrir menn að hafast við í – og í lokuðum málm-
kassa var fullt af súkkulaði og annarri næringu sem steypt var í
plötur líkt og súkkulaði, en bragðaðist allt öðruvísi – en var þó
tiltölulega gott á bragðið – því auðvitað smökkuðum við á þessu
þó við vissum ekki hvað þetta væri – og okkur varð öllum gott af
þessu – hefur áreiðanlega verið fullt af vítamínum.
Svo voru það bannsett tundurduflin. Þau rak mörg á land í vík-
inni en flest þeirra heppnaðist að gera óvirk utan eitt, sem sprakk
og ég segi nánar frá á eftir. Til að gera duflin óvirk komu menn
frá Landhelgisgæslunni eða frá Ísafirði eða aðrir, sem höfðu
nægilega þekkingu á þessu sviði, og þeir aftengdu sprengibún-
aðinn og kveiktu í púðrinu. Man ég eftir því tví- eða þrívegis að
hafa horft á – í hæfilegri fjarlægð – þegar dufl voru gerð óvirk –
kom þá hár hvellur og reyk mikinn lagði frá er kveikt var í púðr-
inu.
Það skolaði sem sé ýmsu upp á land – enda víkin fyrir opnu hafi
– og skipaleiðir fyrir framan allmiklar, til dæmis man ég eftir því,
að á síldarárunum gátum við oft séð mergð skipa við veiðar langt
fram undan – og flutningaskip áttu þarna tíðum leið um.
En svona dagsdaglega fór ég oft með pokaskjatta og tíndi smá-
sprek og spýtnaspækjur fyrir ömmu til þess að safna í eldiviðar-
hlaðann í skemmunni. Sérstaklega var hún ánægð ef ég fann
„næfra“ handa henni, því það var svo gott að kveikja upp með
þeim í eldavélinni á morgnana. Næfrar voru trjábörkur sem rúll-
aðist saman í litlar smárúllur og var sérlega gott til uppkveikju, því
eldavélin var kynnt með rekaspýtum og mó – og stundum var
maður að höggva í eldinn ef spýturnar voru of langar til að kom-
ast ofan í eldhólfið.