Bændablaðið - 23.06.2022, Page 1

Bændablaðið - 23.06.2022, Page 1
36 Loksins Landsmót 50–51 12. tölublað 2022 ▯ Fimmtudagur 23. júní ▯ Blað nr. 613 ▯ 28. árg. ▯ Upplag 32.000 ▯ Vefur: bbl.is Margrét Helga Guðmundsdóttir við dúntínslu á Flötuflögu í Skáleyjum á Breiðafirði. Skálanes í baksýn. Samkvæmt skráningu Æðarræktarfélags Íslands eru æðarbændur á landinu rúmlega 380 og staðsettir um allt land, að söndunum á Suðurlandi undanskildum. Ekki er annað að heyra á æðarbændum en að fuglinn hafi skilað sér vel í vor og að útlitið í greininni sé gott, enda verð fyrir dún að hækka eftir samdrátt í sölu og verðlækkanir undanfarinna ára. – Sjá nánar bls. 28–30. Mynd / Helga María Jóhannesdóttir Alvarleg staða í matvælaframleiðslu á Íslandi: Fæðuöryggi að veði Meira þarf til en boðaðan stuðning ríkisins til að afkoma í sauðfjárrækt verði viðunandi og ekki verði hrun í greininni á komandi hausti, að mati Trausta Hjálmarssonar, formanns Deildar sauðfjárbænda. Miðað við uppreiknaðar rekstrar­ niðurstöður ársins 2021 batnar afkoma sauðfjárbænda ekki á milli ára. „Við áætlum að breytilegur kostnaður sé að hækka um 40% milli ára, sem gerir 15% hækkun á heildarkostnaði. Í raun er framlegð að lækka á milli ára, þar sem aukinn stuðningur stjórnvalda og boðuð hækkun afurðaverðs nær ekki að vega upp kostnaðarhækkun ársins,“ segir Trausti. Viðbrögð fimm formanna búgreina við skýrslu spretthóps matvælaráðherra er heilt yfir jákvæð. Samkvæmt henni munu allir bændur sem hljóta jarðræktarstyrki og landgreiðslur fá 65% álag. „Á síðasta ári voru framleidd 9.244 tonn af alifuglakjöti í landinu. Það þarf 2 tonn af fóðri til að framleiða 1 tonn af kjöti og því má gefa sér að það hafi þurft um 18.500 tonn fóðurs til framleiðslunnar. Skýrslan segir fóðurverð hafa hækkað um 30% undanfarna mánuði. Sú hækkun hefur í för með sér u.þ.b. 630 milljóna kr. hækkun á fóðurreikning alifuglaræktarinnar á ársgrundvelli,“ segir Guðmundur Svavarsson, formaður Deildar kjúklingabænda, en sá stuðningur sem lagt er til alifuglaræktar verður 25% af þeim kostnaðarauka sem búgreinin hefur orðið fyrir vegna fóðurverðshækkunar. Ingvi Stefánsson, formaður Deildar svínaræktar, tekur í sama streng og gleðst yfir að grein hans hafi ekki gleymst. „Þær fjárhæðir sem spretthópurinn leggur til að fari til svínaræktarinnar mun bæta okkur um fjórðung af því fjárhagstjóni sem greinin hefur orðið fyrir á undanförnum misserum og munar vissulega um minna.“ Hann fagnar enn fremur að auknum fjámunum verði varið í jarðræktarstyrki, enda sé það lykillinn í því að efla fæðuöryggi. Axel Sæland, formaður garðyrkju ­deildar BÍ, segir tillögur spretthóps vera að uppfylla þau skilyrði sem garðyrkjubændur náðu að koma inn í stjórnarsáttmálann. „Sem er vel, en þetta eru samt kröfur sem við erum búin að vera að berjast fyrir í mörg ár og því smáskrítið að þessi aðferð verði notuð til að ná því markmiði. Þetta er einskiptisaðgerð og þarf því aftur að fara að berjast fyrir þessu réttlætismáli.“ Hann bendir enn fremur á að betra hefði verið að setja fjármagn beint til bænda í lífrænni ræktun í stað þess að auka fjármagn til aðlögunar að lífrænni framleiðslu þar sem fjármagnið sem sett var í aðlögun gekk ekki út á síðasta ári. Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður búgreinadeildar kúabænda, NautBÍ, fagnar tillögum spretthóps en bendir á hnökra í útfærsluatriðum. „Nautakjötsframleiðslan stóð mjög veik fyrir umræddar aðfanga hækkanir, nautgripabændur hafa gengið svo langt í hagræðingu í eigin rekstri að þeir hafa gengið á eigin launalið.“ Hún segir að horfa þurfi til varanlegra lausna til að skjóta tryggari stoðum undir allar greinar landbúnaðarins. – Sjá nánar bls. 2 og 4. Hvert er umfang hestamennsku? Útflutningstekjur vegna sölu íslenskra reiðhrossa eru á pari við útflutningstekjur annarra útflutningsafurða hrossa, þ.e. þegar tekin eru saman verðmæti hins umdeilda PMSG og kjöts. Tekjur vegna útflutnings 3.256 hrossa árið 2021 voru rúmir 2,25 milljarðar króna. Á meðan voru útflutningstekjur vegna afurða hrossa, sem ekki eru nýtt sem reiðhross, 2 milljarðar króna. Hins vegar er starfsemi í kringum reiðhross gríðarstór og í henni felast ótvíræð verðmæti. Starfsemin felur m.a. í sér ræktun hrossa, útgerð stóðhesta, tamningu og þjálfun hrossa, hrossasölu innanlands sem utan, hestaferðamennsku og reiðkennslu. Einnig er þá ótalið afleidd starfsemi, s.s. framleiðsla reiðtygja og annars búnaðar, hestasýningar, íþróttamót og aðrir viðburðir, dýralæknaþjónusta, hestaflutningar og ótal margt fleira. Heildræn yfirsýn á umfangi greinarinnar er hins vegar ekki til staðar. Vægi atvinnugreinar byggir á upplýsingum um áhrif og arðsemi hennar og því er hagsmunaaðilum í hestamennsku vandi búinn þegar vinna á að framgangi starfseminnar á einn eða annan hátt. – Sjá nánar á bls. 20. Misræmis gætir í innflutningstölum Árin 2020 og 2021 voru flutt inn yfir 1.000 tonn af unnum kjötvörum, hvort ár, frá ESB inn til Íslands. Aftur á móti nam innflutningur samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands 430,5 tonnum árið 2020 og 534 tonnum árið 2021. Það er meðal þess sem kemur fram í aðsendri grein Ernu Bjarnadóttur, hagfræðings Mjólkursamsölunnar. „Tollfrjáls kvóti fyrir unnar kjötvörur í tollskrárnúmeri 1602 samkvæmt viðskiptasamningi milli Íslands og ESB nemur 400 tonnum fyrir þennan vöruflokk. Á þetta misræmi var reyndar þegar bent árið 2020 en árið 2019 sást viðlíka munur á þessum upplýsingum, eða 645 tonnum meira flutt út frá ESB en inn til Íslands af unnum kjötvörum,“ segir Erna meðal annars. Í greininni kemur fram að á síðustu þremur árum hafa tollayfirvöld gefið út 114 bindandi álit um tollflokkun vara úr landbúnaðarköflum tollskrár, sem höfundur hefur fengið aðgang að. Vinna að greiningu þeirra beinist fyrst og fremst að mjólkurafurðum. Nýlegur dómur Landsréttar staðfestir þó að pottur sé víðar brotinn varðandi tollflokkun landbúnaðarvara. – Sjá nánar á bls. 54. Eldpipar í Heiðmörk 26 Áskoranir skapa tækifæri

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.