Ljósmæðrablaðið - 01.12.2021, Blaðsíða 4
4 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2021
Undanfarið hefur ritstjórn Ljósmæðrablaðsins
haft að markmiði að fjalla um ólíka hópa
sem ljósmæður sinna og skoða fjölbreyttan
bakgrunn og viðhorf. Í þessu blaði er víða
komið við og fjallað um ljósmóðurfræði og
grunninn sem við byggjum á, nýja þekkingu,
tengsl við konur, foreldra, börn og fjölskyldur.
Lögð er áhersla á brjóstagjöfina og sagt er
frá norrænni ráðstefnu brjóstagjafaráðgjafa
hér á landi, reynslusögur eru einnig sagðar af
brjóstagjöf, frá sjónarhóli mæðra, ljósmæðra,
brjóstagjafaráðgjafa og ljósmóðurnema.
Við viljum standa vörð um val konunnar
um upphaf brjóstagjafar, þróa með okkur
sérhæfða þekkingu um brjóstagjöf og aðferðir
til lausna þegar vandamál koma upp.
Barnshafandi konur þurfa stundum sérs-
taka aðstoð til dæmis þær sem eiga við geð-
og/eða vímuvanda að stríða, eins og þær
segja okkur frá ljósmæðurnar Valgerður Lísa
Sigurðardóttir og Elísabet Ósk Vigfúsdóttir.
Í fræðslugrein Rutar Vestmann sem byggir á lokaverkefni hennar til
embættisprófs í ljósmóðurfræði er fjallað um þarfir einhverfra kvenna
og mikilvægi þess að ljósmæður hafi þekkingu og kunnáttu til að koma
til móts við þær í gegnum öll stig barneignarferlis.
Við fögnum tímamótum þegar 25 ár eru liðin frá því að nám ljós-
mæðra fluttist á háskólastig inn í Háskóla Íslands. Afmælishátíð var
haldin og athöfn þar sem Íslandsvini ljósmæðra, Lesley Page, var
af þessu tilefni veitt heiðursdoktorsgráða við Háskólann. Í blaðinu
er samtal Lesley og undirritaðrar um stöðuna á Íslandi og í alþjóð-
legu samhengi. Lesley talar meðal annars um þær þær umbreytingar
sem verða í lífi fólks við barnsburð og hvernig mannúðleg, samfelld
umönnun getur skipt sköpum fyrir lífið fram undan sem tengist einnig
verndun umhverfisins.
Það er ljóst að ljósmæður víða um heim búa við ýmsar áskoranir í
starfi þar sem heilsu kvenna og barna er ógnað. Kröfur eru gerðar um
að taka frumkvæði, nota rannsóknir og gagnreynda ljósmóðurþekkingu
og stuðla að nauðsynlegum breytingum á skipulagi kynheilbrigðis- og
barneignarþjónustu.
Mörg viðfangsefni eru þau sömu nú og fyrir 25 árum, eða jafnvel
250 árum. Ein af fyrstu ljósmæðrunum sem útskrifuðust frá Háskóla
Íslands, Guðlaug Einarsdóttir skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu,
bendir á að þó það séu aðrir tímar eru stefin þau sömu. „Rauði þráður-
inn er alltaf stuðningur við konur og réttur þeirra - konumiðuð nálgun -
ljósmæður mæta konum og fjölskyldum þeirra þar sem þær eru staddar
á hverjum tíma“. Þá er hollt að líta til baka og velta fyrir sér þekkingu
fyrri alda og lesa hér í blaðinu um fyrstu kennslubækurnar, óvenjulega
fæðingarstaði og aðbúnað þegar tekið var á móti börnum í torfbæjum.
Ritrýndar greinar eru á sínum stað og eru tvær lýðgrundaðar feril-
rannsóknir kynntar. Annars vegar er það rannsókn um heimaþjónustu
ljósmæðra sem lýsir vitjunum til mæðra í sængurlegu á árabilinu 2012-
2019 og áhrifum heilsufarsflokkunar á áhættuna fyrir bráðavitjun eða
brjóstagjafaráðgjöf. Hins vegar er hér rannsókn um fæðingarstellingar
kvenna á Íslandi árin 2012-2018, í hvaða stellingum konur fæða og
tengsl við bakgrunn kvenna, fæðingarstað og notkun utanbastsdeyf-
inga.
Í fréttum er sagt frá merkilegri vinnu á
vegum heilbrigðisyfirvalda um stefnumótun og
aðgerðaáætlun í barneignarþjónustu til ársins
2030. Vonandi geta ljósmæður séð hér tæki-
færi til eflingar barneignarþjónustu á landinu
öllu, á breiðum starfsvettvangi innan og utan
heilsugæslu og sjúkrahúsa.
Í tengslum við heimild sem komin er fyrir ljós-
mæður um að ávísa hormónagetnaðarvörnum er
rætt er við Steinu Þóreyju Ragnarsdóttur, eina af
fyrstu ljósmæðrunum sem hefur lokið sérstöku
námskeiði og fengið tilskilið leyfi. Athyglisvert
er að enn eru ýmsar kerfishindranir í veginum til
að það nýtist til fulls og því lítil reynsla komin af
þessari þjónustu fyrir konur.
Fagráð ljósmæðra var stofnað á kvenna- og
barnasviði Landspítala 2008 í kjölfar þess að
gerður var sérstakur samstarfssamningur milli
Háskóla Íslands og Landspítala. Samkvæmt
samkomulagi sem gert var á síðasta ári í fram-
kvæmdastjórn er fagráðið vettvangur til að
þróa og efla ljósmæðraþjónustu, kennslu og rannsóknir á Landspít-
ala í samstarfi við námsbraut í ljósmóðurfræði í Háskóla Íslands. Til
upplýsingar fyrir stéttar- og fagfélaga er ársskýrsla ráðsins 2020-2021
sem nú heitir Fagráð um ljósmæðraþjónustu á Landspítala birt í Ljós-
mæðrablaðinu enda er Landspítalinn stærsti vinnustaður og kennslu-
stofnun ljósmæðra og skýrslan um margt lýsandi fyrir það sem efst er á
baugi á sviði ljósmóðurfræða.
Sérfræðinám og sérfræðileyfi í ljósmóðurfræði er einnig í deiglunni.
Við það að nám ljósmæðra til starfsréttinda breyttist og því ljúki nú
með meistaragráðu þarf að endurskoða sérfræðireglugerð stéttarinnar.
Vinnuhópur sem stofnaður hefur verið kynnir hugmyndir sem eru í
gangi. Hópurinn hvetur til umræðu og leitar til ljósmæðra um þeirra
sýn, hver sé þörfin á sérfræðiþekkingu og hvernig tilhögun sérfræði-
þjálfunar ætti að vera á starfsvettvangi.
Í hugleiðingum ljósmóður, föstum þætti blaðsins, deilir Anna
Guðný Hallgrímsdóttir eigin reynslusögu af brjóstagjöf þriðja barns.
Hún bendir á að vandræði með brjóstagjöf komi ekkert endilega
fram á fyrstu dögunum og á mikilvægi þess að geta leitað aðstoðar
í heilsugæslunni og jafnvel fengið tilvísun til brjóstagjafaráðgjafa.
Eins að ekki sé hægt að gera ráð fyrir því að brjóstagjöf gangi vel þó
þær fyrri hafi gert það. Hver brjóstagjöf er ólík annarri, alveg eins og
fæðingin. Einlæg frásögn Önnu Guðnýjar sýnir einnig nauðsyn þess að
ljósmóðir sem eignast barn fái fyrst og fremst að vera móðir en ekki
ljósmóðir á þeim tímapunkti þegar erfiðleikar koma upp og hversu
ánægjulegt það er þegar ráð brjóstagjafaráðgjafa duga.
Ljósmæðrablöð þessa árs eru 99. árgangurinn. Næsta ár fagnar
blaðið 100 ára afmæli með hátíðarútgáfu, breyttri hönnun og útliti.
Útgáfa blaðsins hefur verið samfelld og er það elsta á Íslandi sem gefið
er út af konum, auk þess að vera eitt það elsta sem fjallar um heilbrigð-
ismál. Ljósmæður geta verið stoltar af blaðinu sem kemur þekkingu á
framfæri um eitt það merkilegasta í lífinu sem við eigum öll sameigin-
legt - að verða til og fæðast.
Ólöf Ásta Ólafsdóttir, ritstjóri.
ÁRGANGUR 99
R I T S T J Ó R N A R P I S T I L L
Ólöf Ásta Ólafsdóttir,
ritstjóri