Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2021, Blaðsíða 29

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2021, Blaðsíða 29
29LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2021 kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni (World Health Organization, 2017). Ef horft er til einhverfra einstaklinga þykir líklegt að tíðnin sé mun hærri en það (World Health Organization, 2019). Það að vera ekki með rétta greiningu getur mögulega haft áhrif á barneignarferlið og þar með skilning og umönnun heilbrigðisstarfs- fólks (Kitson-Reynolds, Kitson & Humphrys, 2015). Markmið greinarinnar sem byggir á lokaverkefni til kandídatsprófs í ljósmóðurfræði vorið 2020, er að leita svara við eftirfarandi spurn- ingum: Hver er reynsla einhverfra kvenna af barneignarferlinu og hverjar eru umönnunarþarfir þeirra? Í þeim heimildum sem notaðar eru í samantektinni er leitast við að fá innsýn í reynslu einhverfra kvenna í gegnum allt barneignarferlið AÐFERÐAFRÆÐI – FRÆÐILEG SAMANTEKT Til þess að svara þessum spurningum var gerð fræðileg saman- tekt. Þar sem engar íslenskar rannsóknir liggja fyrir um einhverfar konur sem verða barnshafandi voru erlendar rannsóknir skoð- aðar. Gerð var heimildaleit í gagnagrunnunum Pubmed, Scopus og Google Scholar. Leitarorð sem notuð voru: Autistic disorder, qualiative study, perception, experience, postpartum period, birth og pregnancy. Þar sem markmið samantektarinnar var að draga fram reynslu einhverfra kvenna af barneignarferlinu var lögð áhersla á að finna eigindlegar rannsóknir sem gætu dýpkað skilning á upplifun og reynslu þeirra. Leitað var eftir greinum sem höfðu verið útgefnar á síðustu tíu árum og útilokaðar voru rannsóknir sem flokkuðu einhverfar konur í hóp kvenna með þroskahamlanir nema þær væru með báðar greiningar. Frumheimildir voru skoðaðar. NIÐURSTÖÐUR Leitin skilaði átta niðurstöðum sem bæði fjölluðu beint um einhverfar konur og barneignarferlið. Þær heimildir sem greinin byggir að mestu á eru greinar frá árunum 2014-2020. Þær voru aðallega frá Bretlandi og Ástralíu en einnig voru notaðar greinar frá Japan og Kanada. Þetta eru allt lönd sem hafa verið með skil- virkt og það sem má kallast gott heilbrigðiskerfi í gegnum tíðina rétt eins og Ísland (World Health Organization, e.d.b). Einnig voru bæði íslenskar og erlendar vefsíður hagsmunasamtaka einhverfra einstaklinga skoðaðar. Þar var rýnt í og notað fræðsluefni um einhverfu til að dýpka skilning á efninu auk rannsókna. Enn fremur var vefsíða Alþjóðaheilbrigðissamtakanna WHO skoðuð með tilliti til viðfangsefnis. Þegar þessari úrvinnslu var lokið voru leitarorðin postpartum depression, violence against women og violence and autism notuð til að dýpka betur skilning á ákveðnu viðfangsefni tengt fyrrnefndum niðurstöðum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að einhverfar konur mæti mun stærri hindrunum þegar kemur að heilbrigðiskerfinu en aðrar konur. Þessar hindranir geta tengst þeirra eigin skynúrvinnslu, samskiptum þeirra við heilbrigðisstarfsfólk, skorti á stuðningi eða þær geta verið af tilfinningalegum toga (Lum, Garnett & O’Connor, 2014). MEÐGANGAN Meðgangan sjálf getur átt það til að ýta undir þætti þar sem konur eru viðkvæmar fyrir. Eitt af því sem virðist vera mikilvægt í þessu samhengi er skynúrvinnsla. Skynúrvinnsla er það hvernig einstak- lingur vinnur úr þeim áreitum sem hafa áhrif á skynfæri hans en skynáreiti geta verið lýsing, hljóð, snerting, lykt, bragð eða annað sem hefur áhrif á skynfærin. Skynúrvinnsla einhverfra virðist vera ólík skynúrvinnslu annarra. Áreiti sem fólk tekur jafnan ekki eftir getur verið yfirþyrmandi fyrir einhverfan einstakling (Australian Autism Alliance, 2017). Áreiti og skynúrvinnsla einhverfra kvenna getur haft gríðarleg áhrif á líðan þeirra í gegnum barneignarferlið og hefur verið lýst sem hver skynúrvinnsluáskorunin á fætur annarri (Rogers, Lepherd, Ganguly & Jacob-Rogers, 2016). Einhverfar konur geta upplifað það sem mikla þolinmæðisraun þegar kemur að skorti á þekkingu heilbrigðisstarfsfólks sem sinnir þeim og getur það reynst þeim mjög erfitt (Lum, o.fl., 2014). Mikilvægt er að hafa í huga að einhverfar konur hafa oft ekki góða upplifun af heilbrigð- iskerfinu í heild og margar þeirra hafa jafnvel fundið fyrir vanmætti eftir erfiða reynslu af heilbrigðiskerfinu allt frá barnæsku (Rogers, o.fl., 2016). Þegar horft er til reynslu einhverfra mæðra af þjón- ustunni sem þær fá í gegnum barneignarferlið virðast þær upplifa skilningsleysi og vanþekkingu heilbrigðisstarfsfólks á einhverfu- rófsröskunum (Rogers, o.fl., 2016; Australian Autism Alliance, 2017; Tint & Weiss, 2017). Að auki upplifa þær oft hræðslu við að tjá sig opinskátt við það heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir þeim. Þær eru jafnframt óvissar hverju er viðeigandi að deila með heilbrigðis- starfsfólki. Þetta hefur þau áhrif að þær upplifa meiri kvíða en aðrar mæður í samskiptum sínum (Pohl, o.fl., 2020). Ef horft er til lang- ana einhverfra kvenna eftir stuðningi er meirihluti þeirra fylgjandi því að fá aukinn stuðning. Hins vegar er einungis um 14% þeirra sem upplifa stuðninginn góðan og viðeigandi (Pohl, Crockford, Allison & Baron-Cohen, 2020). Ef tekið er mið af því að einhverfum konum er hættara að verða fyrir ofbeldi en öðrum konum þá gerir það eitt og sér þennan hóp kvenna að viðkvæmum hópi þegar kemur að barneignarferlinu og getur það eitt og sér aukið líkur á meðgönguþunglyndi (Pohl o.fl., 2020). Eins og komið hefur fram er skynúrvinnsla einhverfra ólík því sem flestir aðrir upplifa. Þetta getur magnast upp á meðgöngunni þar sem konur eru almennt viðkvæmari á meðgöngu fyrir áreiti úr umhverfinu. Mikilvægt er að átta sig á að hlutir sem aðrir hugsa mögulega lítið út í eins og blóðþrýstingsmæling, að finna hreyfingar barns síns í móðurkviði, bið á biðstofu eða lýsing í herberginu getur gert skynúrvinnslu þeirra næstum óbærilega og valdið kvíðaein- kennum (Rogers o.fl, 2016; Lum, o.fl, 2014; Gardner, Suplee, Block & Lecks, 2016). Einhverfar konur í meðgönguvernd hafa einnig lýst erfiðleikum í skoðuninni hjá ljósmóður. Margar þeirra finna fyrir miklum óþægindum við létta snertingu. Þær hafa lýst óþægindum þegar ljósmóðir er að snerta kvið þeirra í meðgönguvernd auk þess sem sumar finna einnig fyrir miklum óþægindum við notkun á geli sem sett er á kviðinn við ómskoðun. Þegar horft er til skynúrvinnslu vegna umhverfis þá virðist jafnframt sem þær upplifi mikla truflun vegna lýsingar í skoðunarherbergjum. Flúorljós eru þar einna helst nefnd og skynúrvinnslutilfinningunni er oft lýst sem óþægilegum viðbrögðum sem líkjast einbeitingarskorti og svima (Gardner o.fl, 2016). Ef horft er til samskipta við heilbrigðisstarfsfólk virðist það vera reynsla einhverfra kvenna að þær upplifi aukna erfiðleika við yrta tjáningu í samskiptum sínum við sinn umönnunaraðila hverju sinni. Einnig upplifa þær skort á stuðningi í meðgönguvernd. Ef rýnt er frekar í hvað er átt við með skorti á stuðningi þá virðist sem reynsla þeirra sé sú að gagnsemi upplýsinga sem þær fá í meðgönguvernd er takmörkuð og að heilbrigðisstarfsfólk átti sig ekki á þeirra stuðn- ingsþörfum (Lum, o.fl., 2014; Gardner o.fl, 2016). Þær hafa lýst því að ráðleggingar og fræðsla þurfi að vera hnitmiðuð og skýr (Gardner o.fl. 2016). Hins vegar virðist ekki vera munur á þátttöku í fæðingarfræðslunámskeiðum (Pohl o.fl., 2020). Form upplýs- ingagjafar virðist því skipta miklu máli en greinagóðar upplýsingar þar sem lögð er áhersla á raunverulegar aðstæður auk myndrænnar fræðslu er líklega ákjósanlegri en yrtar upplýsingar á faglegu máli (Gardner o.fl, 2016). Þegar kemur að samskiptum einhverfra kvenna við sinn umönnunaraðila í barneignarferlinu virðast þær líklegri en aðrar konur til að upplifa vanvirðingu í samskiptum sínum við umönnunaraðilann. Þær finna til vanmáttar og finnst umönnunaraðilinn tala niðrandi til sín. Þær upplifa viðmót þeirra einnig dæmandi og eiga af þeim sökum það til að koma sjaldnar í meðgönguvernd (Rogers, o.fl, 2016). FÆÐINGIN Skynáreiti í fæðingu skiptir höfuðmáli þar sem einhverfar konur hafa tjáð að skynáreiti getur jafnvel verið verra en líkamlegur sársauki (Tint & Weiss, 2017). Hafa má í huga að í fæðingunni, rétt eins og í meðgönguvernd, getur mikil lýsing í fæðingarstof- unni reynst þeim erfið. Flúorljós geta verið sérstaklega truflandi og geta þau haft mjög mikil áhrif á líðan konunnar. Auk þessara skynáreita getur lykt og hljóð einnig haft neikvæð áhrif á upplifun-

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.