Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2021, Blaðsíða 51

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2021, Blaðsíða 51
51LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2021 aldrei mjólkuraukandi te eða töflur því brjóstaþokan var svo mikil að ég gleymdi alveg að kaupa slíkt. Ég fór einnig að mæla allt sem ég fékk í mjaltavélinni og viti menn, þegar framleiðslan var komin í 900 ml á sólarhring átti ég allt í einu nóg fyrir drenginn. Ef ég fékk minna þá dugði það ekki til og ef ég fékk mikið meira þá fékk ég stíflur í brjóstin og var á mörkum þess að fá sýkingu. Þegar drengurinn var orðinn 8 vikna gamall ákvað ég að leggja mig fram við að koma honum á brjóst. Ég hafði prófað af og til allar þessar vikur að leggja hann á en sá að hann var ekkert orðinn flinkari en áður svo pelagjöfin hélt áfram. En af einhverri ástæðu var hann tilbúinn til þess að taka brjóst á þessum tímapunkti og það fór svo að í byrjun júlí, þá 9 vikna gamall, var hann kominn á brjóst eingöngu. Þetta var rétt fyrir sumarfrí en það var markmið mitt að vera laus við mjaltavélina fyrir sumarfrí fjölskyldunnar. Því þó svo að mjaltavélin sé algjör snilld og geri manni kleift að gefa barni sínu brjóstamjólk þegar brjóstagjöfin gengur ekki þá fer mjög mikill tími í að gefa pela og að fara í mjaltavél átta sinnum á sólarhring og maður er mjög bundinn vélinni og rafmagni. Það er skemmst frá því að segja drengurinn fór fljótlega að þyngj- ast, enda farinn að fá meiri mjólk hvern dag, en ég fékk lánaða vigt frá heilsugæslunni og vigtaði drenginn daglega til þess að byrja með. Hann þyngdist nokkuð hægt í fyrstu en tók svo vel við sér. Svo fyrir utan nokkra daga á annarri viku í lífi drengsins hefur hann þyngst vel og gerir enn. En hvers vegna er ég að deila þessari sögu með ykkur. Jú, vegna þess að mig langaði til þess að benda á að vandræði með brjóstagjöf koma ekkert endilega fram á fyrstu dögunum. Erfiðleikarnir geta komið fram þegar heimaþjónustuljósmóðirin hefur útskrifað konuna og þá er mjög mikilvægt að hún geti leitað aðstoðar á heilsugæslunni og fengið tilvísun fyrir ráðgjöf hjá brjóstagjafaráðgjafa, ef á þarf að halda. Eins er ekki hægt að gera ráð fyrir því að brjóstagjöf annars, þriðja eða fjórða barns gangi vel þó fyrri brjóstagjafir hafi gengið vel. Ég veit ekki hversu oft ég hef sjálf sagt við barnshafandi konur að hafa ekki áhyggjur af brjóstagjöfinni ef fyrri brjóstagjafir gengu vel. Auðvitað er það oftast þannig en hver brjóstagjöf er ólík annarri, alveg eins og engin fæðing er eins. Jafnframt langar mig að benda á mikilvægi þess að ljósmóðir sem eignast barn er fyrst og fremst móðir en ekki ljósmóðir á þeim tímapunkti. Ég veit ekki hversu oft ég hugsaði með mér að ég sjálf hefði átt að átta mig á því að þetta væri ekki að ganga og að drengurinn væri ekki að þyngjast. Ég skamm- aðist mín fyrir það að hafa ekki tekið eftir þessu. Síðast en ekki síst vil ég benda á að konur sem eru í vanda með brjóstagjöf eru tilbúnar til þess að gera hvað sem er til þess að láta hana ganga. Alla vega þær sem fá til þess stuðning að heiman frá maka og fjölskyldu. Að drekka vondan óáfengan bjór, borða óhóflegt magn af spínati og höfrum, gefa þurrmjólkurábót, gráta í tíma og ótíma og eiga í ástarsambandi við mjaltavél verður manni sjálfsagt þegar erfiðleikar steðja að. Merkilegast af öllu því sem ég tók mér fyrir hendur er þó brjóstaleikfimin. Ég veit enn þann dag í dag ekki alveg hvað brjóstavinding er og hvort það sem ég gerði var nokkuð skylt henni. Ég veit ekki heldur hvort og hvers vegna í ósköpunum hún virkar. Mér er næst að hringja í Huldu Línu og ræða við hana um málið, því hún virðist vita allt upp á hár og gott betur en það. Anna Guðný Hallgrímsdóttir, brjóstmjólkandi móðir og ljósmóðir.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.