Ljósmæðrablaðið - 01.12.2021, Blaðsíða 39
39LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2021
sama hvers konar vanda, líffræðilegum, andlegum, félagslegum
eða tengdum vímuefnum, verði barnshafandi. Okkur ber að taka
öllum konum opnum örmum og veita þeim þjónustu án fordóma.
Sumar ljósmæður eiga auðveldara með að sinna konum til dæmis
með sykursýki meðan aðrar konum með fíknivandamál. Ég legg
hug minn allan í að sinna konum með geð- og eða fíknivanda en
langoftast er um hvoru tveggja að ræða.
Hvar og hvenær kviknaði hugmyndin að stofnun Urðar-
brunns? Og hvers vegna ákvaðst þú að ráðast í þetta verkefni?
Ég hef í gegnum starfið mitt upplifað mikið úrræðaleysi fyrir
marga af skjólstæðingum mínum, þá hvað varðar búsetuúrræði
með möguleika á undirbúningi fyrir foreldrahlutverkið og þjálfun
í færni til að sinna nýburanum og heimilishaldi, og þetta hefur
mér þótt mjög miður að horfa upp á. Í íslensku samfélagi hefur
fram að þessu ekki verið til úrræði sem gerir þessum litla hópi
kvenna kleift að eiga möguleika á slíkri þjálfun og þá möguleik-
ann að geta sannað sig í móðurhlutverkinu.
Þegar ég starfaði sem hjúkrunarfræðingur í Danmörku kynntist
ég úrræðum eða heimilum sem bjóða upp á þessa þjónustu. Svona
heimili eru til á öllum Norðurlöndunum og eru að skila mjög
góðum árangri. Ég fór því út í smá rannsóknarvinnu og fór að afla
mér frekari upplýsinga um hugmyndafræðina sem liggur að baki
slíku úrræði. Það varð að endingu til þess að ég ákvað að taka
málin í eigin hendur og stofna sjálf slíkt heimili. Ég horfði aðal-
lega til tveggja svona heimila í Danmörku sem mér leist best á og
tók mér til fyrirmyndar uppbyggingu og hugmyndarfæði þeirra og
þannig varð Urðarbrunnur til.
Hver er hugmyndin á bak við nafn heimilisins: Urðarbrunnur?
Þegar kom að því að velja nafn á úrræðið fannst mér Urðar-
brunnur henta fullkomlega og vera lýsandi. Urðarbrunnur kemur
úr norrænni goðafræði og er brunnur sem liggur fyrir neðan eina
af þremur rótum Asks Yggdrasils og er heimili örlaganornanna
Urðar, Verðandi og Skuldar. Urður er norn fortíðar og merkir
nafn hennar „það sem orðið er“, Verðandi, „hin líðandi stund“,
er norn nútímans og Skuld, „það sem skal gerast“ er norn fram-
tíðar. Þær stýra örlögum manna og hafa til þess langa þræði sem
þær hugsa um af ítrustu varfærni. Einnig vökva þær Askinn með
hvítri leðju úr brunninum til að viðhalda lífskrafti hans. Þetta
finnst mér eiga vel við því konurnar sem Urðarbrunnur er ætlaður
hafa því miður flestar átt miður góða fortíð, þær eru á ákveðnum
stað í núinu og eru í Urðarbrunni að fá tækifæri til þess að hafa
áhrif á framtíðina.
Hvernig hefur starfsemi heimilisins verið háttað og hverjir
geta óskað eftir þjónustu Urðarbrunns?
Urðarbrunnur er sólarhringsvaktað úrræði fyrir viðkvæmar
fjölskyldur í félagslegum vanda sem eiga von á barni eða eru með
nýbura. Vandamál og þarfir fjölskyldna geta verið af mismunandi
toga hverju sinni. Við leggjum okkur fram við að reyna að sinna
öllum þeim fjölskyldum sem barnaverndarnefnd og/eða félags-
þjónusta telur að þurfi á aðstoð að halda til þess að sinna ófæddu
barni eða nýbura með það að markmiði að koma í veg fyrir
hvers konar vanrækslu. Þetta geta verið seinfærar konur, konur
sem hafa sjálfar orðið fyrir tengslaröskun og erfiðleikum í sínu
uppeldi og ef til vill orðið fyrir áföllum á lífsleiðinni, jaðarsettir
hópar í samfélaginu eins og heimilislausar konur sem eru verð-
andi foreldrar og konur sem eiga við vímuefnavanda að stríða.
Að þessu sögðu þá tekur Urðarbrunnur einnig vel á móti feðrum
í viðlíka aðstæðum ef barnaverndarnefnd óskar þess. Að sjálf-
sögðu eru þetta einnig börn, fædd eða ófædd, sem eiga í hættu á
að verða fyrir vanrækslu af hálfu foreldra og/eða hættu á að verða
sett í varanlega vistun til fósturforeldra, þá án þess að fjölskyldan
hafi fengið fullreynt tækifæri að koma í veg fyrir slíkt. Auðvitað
getur það komið upp að foreldri/ar standist ekki markmið og telj-
ist ekki hæfir til þess að sinna barninu og í þeim tilfellum býður
Urðarbrunnur upp á fósturaðlögun inni á heimilinu.
Dvöl eða vistun á Urðarbrunni er ávallt að beiðni félagsþjónustu
og/eða barnaverndarnefndar frá því sveitarfélagi sem viðkomandi
fjölskylda kemur frá og er sveitarfélagið þannig verkkaupinn á
þjónustunni. Þá gerir verkkaupinn með sér samning um vistunina
á Urðarbrunni þá ef til vill sem hluta af meðferðaráætlun milli
hans og foreldra. Urðarbrunnur gerir svo árangursmælingar, mat
og skýrslur um markmið og framgang dvalarinnar. Urðarbrunnur
hefur látið lögfræðistofu útbúa sniðmát af þjónustusamningi og
gera Urðarbrunnur og verkkaupi því með sér samning um dvöl
fyrir fjölskyldu. Samninginn má aðlaga hverju tilfelli fyrir sig
hverju sinni enda geta verið um mismunandi þarfir að ræða og
getur dvalartími þjónustuþega verið áætlaður og mislangur eftir
þörfum hvers þjónustuþega.
Elísabet Ósk Vigfúsdóttir í íbúðinni sem hún leigði fyrir Urðarbrunn.