Andvari - 01.01.2016, Qupperneq 45
ANDVARI
ÓLAFUR BJÖRNSSON
43
lagði frumvarp þeirra Benjamíns og Ólafs fyrir Alþingi 25. febrúar
1950, en framsóknarmenn báru upp vantraust á ríkisstjórnina, sem var
samþykkt, og baðst hún þá lausnar. Ólafur Björnsson tók drjúgan þátt
í umræðum um efnahagsráðstafanirnar næstu vikur. Stúdentafélag
Reykjavíkur efndi til fundar í Listamannaskálanum þriðjudagskvöldið
28. febrúar um tillögur þeirra Ólafs og Benjamíns, og voru þeir Ólafur,
Gylfi Þ. Gíslason, Jónas H. Haralz og Klemens Tryggvason framsögu-
menn. Hvert sæti var skipað, og urðu margir að standa. Ólafur kvað
meginorsök ójafnvægis síðustu ára vera fjárfestingu langt umfram
sparifjármyndun. Til þess að koma á jafnvægi væru til ýmsar leiðir, en
sú, sem auðveldust væri og hefði í för með sér minnsta röskun á högum
launþega, væri gengislækkun. Höftin væru mjög óheppileg. Þeir Jónas
og Klemens tóku undir það, að gengislækkun væri nú óhjákvæmileg,
en gagnrýndu ýmislegt í stefnu stjórnvalda síðustu árin. Gylfi var eins
og Alþýðuflokkurinn, sem hann sat á þingi fyrir, andvígur gengis-
lækkun. „Hann kvaðst og mjög vantrúaður á, að hægt væri að koma
hér á algerlega frjálsri verslun, auk þess sem sú skipun hefði marga
galla.“136 Þeir Klemens og Gylfi töldu, að breiðu bökin ættu að bera
þyngri byrðar en allur almenningur, en fyrir því væri ekki nægilega
séð í ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar.137 Voru umræðurnar teknar upp
á stálþráð og þeim útvarpað skömmu síðar.
Eftir lausnarbeiðni Ólafs Thors tók enn við langt samningaþóf. Sýnt
var, að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur yrðu að mynda stjórn,
en Hermann Jónasson gat ekki unnt Ólafi Thors þess að vera forsætis-
ráðherra, þótt hann væri formaður stærri flokks. Loks var sá kostur
tekinn, að forseti sameinaðs þings, framsóknarmaðurinn Steingrímur
Steinþórsson, myndaði stjórnina 14. mars. Var þá frumvarp þeirra
Benjamíns Eiríkssonar og Ólafs Björnssonar samþykkt með smávægi-
legum breytingum. Gengið var fellt um 42,6%. Slakað var talsvert á
höftunum. Ýmis vara var sett „á frílista“, en það merkti, að hana mátti
flytja inn án leyfa. Ólafur Björnsson varði þessar ráðstafanir í ræðu
og riti.138 En ýmsir erfiðleikar steðjuðu að, svo að árangurinn af efna-
hagsráðstöfununum varð ekki eins mikill og þeir Benjamín og Ólafur
höfðu vonað. Árferði var ekki gott árin 1950-1952. Gæftir voru tregar.
Kóreustríðið skall á sumarið 1950, en það olli miklum verðhækkunum
erlendis. Verð á innfluttri vöru hækkaði um þriðjung. Viðskiptakjör
versnuðu því stórlega. Ofan á þetta bættist, að ísfisksmarkaðurinn í
Bretlandi lokaði árið 1952 vegna útfærslu landhelginnar. Enginn gjald-