Andvari - 01.01.2016, Qupperneq 51
ANDVARI
ÓLAFUR BJÖRNSSON
49
því, þegar synirnir þrír voru allir fæddir, en mjög ungir. Guðrún fór
þá eitt kvöldið í saumaklúbb og bað Olaf að sjá um að koma drengjun-
um í háttinn. Um kvöldið hringdi hún heim og spurði, hvernig barna-
gæslan hefði gengið. „Jú, jú, þetta gekk ágætlega, nema hvað ég lenti
í smáerfiðleikum með þann fjórða,“ svaraði Ólafur. „En Ólafur, við
eigum bara þrjá!“ sagði Guðrún. Þá hafði Vilmundur Gylfason, sonur
nágrannahjónanna Gylfa Þ. Gíslasonar og Guðrúnar Vilmundardóttur,
verið að leika sér með þeim, en hann var á líku reki og miðsonurinn,
Björn, og Ólafur skipað honum í rúmið með þeim gegn nokkrum and-
mælum Vilmundar.166 Ein sagan af Ólafi var líka, að hann hefði aug-
lýst til sölu á heimili sínu lítið notað hjónarúm! Var þá sagt á móti, að
Ólafur „segði áreiðanlega satt og rétt frá ástandi og notagildi, ef hann
þyrfti að skipta um einhvern hlut í búi sínu og losa sig því við mun úr
eigu sinni“.167
Alþingismaður: 1956-1971
Eftir þingkosningarnar 1953 myndaði Ólafur Thors samstjórn Sjálf-
stæðisflokks og Framsóknarflokks, sem lagði niður Fjárhagsráð og
dró nokkuð úr höftunum, sérstaklega höftum á fjárfestingu. Hermann
Jónasson, formaður Framsóknarflokksins, var utan stjórnar og undi
sínum hlut illa. Eftir þrjú ár fékk hann því ráðið, að framsóknarmenn
slitu stjórnarsamstarfinu, svo að rjúfa varð þing og efna til nýrra
kosninga sumarið 1956. Gerðu Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur
kosningabandalag og stefndu að þingmeirihluta. Hétu þeir því að slíta
varnarsamstarfinu við Bandaríkin, sem tekist hafði 1951, og bæta
kjör alþýðu með opinberum ráðstöfunum. Eins og fyrri daginn skip-
aði Ólafur Björnsson sjötta sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í
Reykjavík. Eina breytingin í efstu sætum listans var, að Ragnhildur
Helgadóttir, þá laganemi, var í fimmta sæti í stað Kristínar L.
Sigurðardóttur. Ólafur útskýrði framboð sitt í Morgunblaðinu. Hann
kvaðst hafa átt því láni að fagna að hljóta embætti við vísindastofn-
un, og væri sú sannleiksleit, sem þar ætti að stunda, vissulega ólík
venjulegri kosningabaráttu, þar sem brigsl gengju á víxl, jafnframt því
sem frambjóðendur kepptust við að lofa kjósendum öllu fögru. En vís-
indamenn yrðu samt að láta sig stjórnmál varða af ýmsum ástæðum.
Skoðanafrelsi væri skilyrði fyrir framförum í vísindum, en víðtæk rík-
isafskipti væru því hættuleg, þar á meðal haftalöggjöfin á íslandi: