Andvari - 01.01.2016, Síða 122
120
KRISTJÁN EIRÍKSSON
ANDVARI
sinn þátt í stílsmátanum og trúlega gætir hér einnig áhrifa frá yogafræðum
hans. Má í því sambandi til dæmis vísa til bókarinnar Starfsrækt eftir Svámi
Vivekananda sem út kom á íslensku 1926 í þýðingu Jóns Thoroddsen og
Þórbergs Þórðarsonar. Og það er einmitt í anda karma-yoga, sem Þórbergur
lagði svo mikla rækt við að lifa sig inn í hvert það verk, sem hann vann, og
sálarlíf þeirra persóna sem hann lýsti. Og segja má að hann kappkosti að
fylgja þeirri reglu sem svo er orðuð í Starfsrækt á einum stað:
Þegar þú vinnur verk, skaltu ekki hugsa um neitt annað. Vinn það eins og
guðsdýrkun, eins og æðstu guðsdýrkun, og helgaðu því allt líf þitt meðan á því
stendur.26
Og þar segir einnig:
Þú verður að setja þig á sjónarhæð eplatrésins til þess að dæma það, og til þess að
dæma eikina verðurðu að setja þig á hennar eigin sjónarhæð, og svo er um oss öll.27
Og mikilvægi þess að leita þekkingar og miðla henni er einnig í anda karma-
yoga því
Sá, sem veitir andlega þekking, er mesti velgerðamaður mannkyns, og þeir, er bætt
hafa úr andlegum þörfum manna, hafa verið máttugustu mennirnir, því að það er
undirstaða allra annara verka.28
Þessi sjónarmið hans koma vel fram í Meistarar og lœrisveinar (eftir stóra
ævisögulega handritinu) sem Soffía vitnar í til þess að útskýra nánar hvers
vegna Þórbergur gaf sig ekki að hefðbundinni skáldsagnagerð:
Mitt mikla mein sem rithöfundur var það að ég leit allt af svo á að allar bækur ættu
að hafa þrjá megineiginleika: Þær ættu að vera fræðandi, göfgandi og örvandi.
Þessa eiginleika fann ég að eins í fræðibókum og lestur þeirra hefur mér æfinlega
þótt miklu skemmtilegri en lestur svonefndra fagurra bókmennta. Þess vegna
stritaði ég allt af við að gefa ritum mínum þetta uppbyggilega form. En af því að
ég veit að fólk sækist meira eftir hinu skáldlega formi, þá kryddaði ég ritverk mín
með listrænum setningum eða köflum [. . .]29
Og í Sálminum um blómið hafði Þórbergur komist svo að orði eins og Soffía
tekur fram:
að engin saga væri alveg nógu góð, nema hún hefði þrjár náttúrur. Hún varð að
vera fræðandi, göfgandi og örvandi. Það er að segja: Hún varð að tala við höfuðið
og hjartað og hendurnar.30