Andvari - 01.01.2016, Page 140
138
HJALTI ÞORLEIFSSON
ANDVARI
er þó rétt að skýra hugtakið sjálft nánar og greina lítillega frá þeirri heim-
speki sem það hvílir á.
Rætur og skilgreining lífhyggjunnar
Sú lífhyggja sem ruddi sér til rúms í bókmenntum og listum um aldamótin
átti rætur sínar í aldagamalli lífheimspekilegri hefð. Allt frá því í fornöld
höfðu menn með ólíkum hætti velt fyrir sér sambandinu á milli efnisheims-
ins og hins huglæga og reynt að skýra þann kraft sem talinn var þar á bak
við. Lengi vel var það viðtekin skoðun að einhvers konar lífsafl stýrði til-
verunni og tryggði vöxt og viðgang lífsins í allri sinni mynd. Gengið var út
frá því sem vísu að þessi máttur rynni um æðar lífvera, stórra sem smárra,
og legði þeim til lífsandann. Aherslur breyttust eftir því sem tíminn leið en
hornsteinn vítalískrar hugsunar var ávallt bundinn sannfæringunni um að
þessi torskildi kraftur væri sannarlega til staðar. í kjölfar upplýsingarinnar
undir lok 18. aldar beindist athygli líf- og náttúrufræðinga að því að finna
efnislegri skýringar á forsendum lífsins og voru margar tilraunir gerðar til
að sanna eða afsanna tilvist umrædds afls. Náttúruvísindin helguðu sér þó
ekki efnið algjörlega og má rekja uppgang lífhyggju í Þýskalandi við lok 18.
aldar að verulegu leyti til þýsku hughyggjunnar sem höfðaði til forsvars-
manna rómantísku stefnunnar, manna á borð við Johann Gottfried Herder
(1744-1803) og Friedrich Schiller (1759-1805).4
Sú heimspeki sem mótaðist upp úr miðri 19. öld tók aukið mið af nýjum
uppgötvunum náttúruvísinda og þá ekki síst þróunarkenningu Charles
Darwins (1809-1882) og tóm- og efahyggju óx fiskur um hrygg. Hin vítal-
ísku viðhorf virtust ætla að bíða skipbrot og voru margir á því að ný þekking
gerði dulræðan lífskraft einfaldlega óþarfan. Lífhyggjan endurnýjaðist þó
samfara breyttum viðmiðum um aldamót og á fyrri helmingi 20. aldar náði
hún mikilli útbreiðslu, einkum fyrir tilstilli franska heimspekingsins Henris
Bergsons (1859-1941) og þýska líffræðingsins Hans Driesch (1867-1941).
Ahugi á vísindastarfi var almennur og sjást þess merki í því hve rannsóknir
Driesch á fjölgun ígulkera, þar sem hann reyndi að sýna fram á að lífið
lyti sjálfstæðum lögmálum sem aðeins giltu um það en ekki hið efnislega,
vöktu mikla eftirtekt og voru mikið ræddar í háskólum.5 Athuganir Driesch
voru raunvísindalegs eðlis og áhrif hans á listir og hugvísindi takmarkaðri
en raunin varð með Bergson.
Hugtakið „lífheimspeki“ (á þ. Lebensphilosophie), sem oft hefur verið
notað jafnhliða „vítalisma“, kom fyrst fram í Þýskalandi snemma á 19. öld
sem eins konar svar við uppgangi raunspekinnar, pósitífismans. í menning-