Andvari - 01.01.2016, Qupperneq 147
ANDVARI
HIN EILÍFA SAMÞÆTTA LÍFSHEILD
145
Hugmynd Sigurðar um vanann fellur að kenningum Bergsons sem taldi
hann veita manninum rótfestu í hversdagsleikanum. En um leið þurfti að
vinna gegn honum, halda honum í hæfilegum skefjum svo tryggja mætti
útrás þeirra tilfinninga sem að öðrum kosti voru bældar niður. Það hlutverk
ætlaði Bergson listunum:
Hvort heldur því er málaralist, myndasmíð, skáldskapur eða sönglist, þá er mark-
mið listarinnar það eitt, að bægja á braut hinum handhægu táknum, hversdags-
blæjunni, sem vaninn og félagslífið hefir löghelgað, í stuttu máli öllu því, er hylur
oss veruleikann sýn, svo að vér getum séð veruleikann sjálfan augliti til auglitis.25
Að sama skapi sá Sigurður listirnar sem marglynt mótvægi gegn of ríku ein-
lyndi: „Ég er nú sannfærður um, að listin er eitt af þeim vafalausu gildum
mannkynsins, sem ekki verður mælt á neinn annan mælikvarða, í listinni nær
viss hæfileiki sálarinnar hæsta þroska sínum [.. ,],“26 ritaði hann um samband
listar og siðferðis. Listamenn voru skaparar sem stóðu nær uppsprettum lífs-
ins sjálfs en annað fólk: „Skáldin eru altaf góðum áfanga á undan lífinu,
lífið drattar á eftir.“27 En hlutskipti þeirra var samt ekki öfundsvert þar sem
þeir þrifust á ofríki marglyndiseiginleika og voru þannig þjakaðir af ójafn-
vægi sálarlífsins. Sönn hamingja var þeim fjarlæg, sem og því heildstæða
samfélagi þar sem niðurrifsöfl (á borð við byltingarsinna) urðu allsráðandi.
Sem dæmi hafði stétt manna litla þýðingu því að velsæld hvers einstaklings,
hvar sem hann stóð í þjóðfélagsstiganum, fólst í að gegna skyldum sínum
gagnvart mannfélaginu sem hann tilheyrði. Þar sem öfgarnar urðu ráðandi
fjarlægðist heildin sem slík meðalhófsmörkin, neikvæðum þáttum þar innan-
borðs óx ásmegin og jafnvægi raskaðist. Því átti hver maður að einbeita sér
að því að komast yfir mundangs-þröskuldinn, átta sig á eigin takmörkunum
í lífinu, og einbeita sér að eigin sérhæfingu. Þannig varð hann hinni berg-
sonsku heild að gagni því að sigrar einstaklings skiluðu hinu stærra sam-
hengi hagnaði, þá ekki síst þjóðinni, og runnu saman við reynslubrunn kyn-
slóðanna, hinnar lífrænu heildar.
Þjóð og einstaklingur
í menningarpólitískum greinum Sigurðar og fleiri menntamanna á þriðja
áratugnum kom fram sú vítalíska afstaða að eðlilegt væri að skrifa um þjóð
líkt og einstakling sem með auknum þroska og andlegum framförum yrði
smám saman heilsteyptari.28 Að mati Sigurðar veitti þjóðerni hverri persónu
ákveðnar rætur í heiminum þar sem við skilgreindum okkur út frá menningu