Borgfirðingabók - 01.12.2010, Page 10
10 Borgfirðingabók 2010
fyrir Stafholtstungnahrepp sem var M 4. Alltaf þótti mér hornalyktin góð
því að hún minnti mig alltaf á blítt vorveður. Þegar sauðburði var lokið
þurfti að marka (eyrnamarka) unglömbin og rýja fullorðnu kindurnar
áður en rekið var á afrétt. Aðalmark heimilisins, mark húsbændanna,
var tvírifað í stúf hægra og gagnfjaðrað vinstra. En systkinin áttu
líka skrásett fjármörk. Þegar markað var eða rúið (rúningin var alltaf
nefnd „að taka af“) var féð „rekið að“ í Hraunstekknum sem er
gamall fráfærustekkur með lambakró, hlaðinn úr hraungrýti,við jaðar
Grábrókarhrauns, skammt frá ármótum Hraunár og Norðurár. Talsverður
spenningur fylgdi þessum dögum, hlaup, hróp, hávaði og hundgá.Þetta
var oftast gert í tveimur atrennum, fyrst var markað og nokkru seinna
var „tekið af“ en þá þurftu ærnar að vera orðnar vel „fildar“, þ.e. nýja
ullin vel sprottin fram svo að reyfið væri farið að losna. Það fór eftir
vetrarfóðrun og vorbata. Sagt var að ærnar væru „björnfildar“ ef þetta
var í góðu lagi en „mannsberar“ ef það var á hinn veginn. Aldrei voru
notaðar sauðaklippur, heldur skæri og hnífar ef ullin lá ekki alveg laus
og reyndi þá mikið á lagvirkni rúningsmanns. Krakkar höfðu það verk að
halda í hornin á þeirri kind sem verið var að rýja og gat verið erfitt fyrir
kraftalitla ef ærnar voru ókyrrar. Stundum en sjaldnar voru þær bundnar
„sauðabandi“ helst ef þær voru kollóttar. Þá voru bundnir saman fram-
og afturfætur, svo að skepnan gat sig hvergi hrært.
Örsjaldan sáust færilýs í ullinni, enda var sauðfjárböðun alltaf ræki-
lega framfylgt heima. Steinsteypt baðker var fremst í garða í einu af
fjárhúsunum og var fénu dýft þar niður í volgt vatn blandað Coopers
baðdufti. Böðunin var fyrirskipuð af yfirvöldum til að koma í veg fyrir
óþrif svo sem lús og fjárkláða sem áður fyrr gerði mikinn usla í landinu.
Oft var baðað milli jóla og nýárs eða um það leyti og þótti betra að þá
væri ekki mjög kalt í veðri.
Ullin af fénu á Laxfossi var oft fremur léleg markaðsvara vegna þess
að það hafði gengið í kjarrlendi, var „skógdregið“ og ullin því oft fremur
rytjuleg og reyfin ekki heilleg.
Venjulega var rekið á fjall strax að kvöldi rúningsdags. Rekið var
inn í „Snoppu“ í Staðarmúla (Miðdalsmúla) innarlega á Bjarnardal.
Þegar þangað kom þurfti að halda utan að rekstrinum meðan ærnar voru
að finna lömbin sín, „lemba sig“ sem kallað var. Þetta var oftast um
Jónsmessuleytið og þegar vel viðraði er varla hægt að hugsa sér neitt
hugþekkara en þessar björtu vornætur.