Borgfirðingabók - 01.12.2010, Side 14
14 Borgfirðingabók 2010
trésköftin, en þoldu ekki mikið átak. Hrífutindarnir voru oft úr brúnspæni
sem var harðviður upprunninn í Mið-Ameríku.
Krakkar voru snemma látnir fara að hjálpa til við heyskap, sérstaklega
að snúa í flekk þegar þurrkur var, með sérstökum krakkahrífum með minni
haus og styttri sköftum. Ég var svo stálheppinn að Þorsteinn Klemensson
á Hvassafelli, sem bjó þar um tíma á móti Þorsteini Snorrasyni, smíðaði
handa mér orf við mitt hæfi þegar ég var ellefu ára. Ég var einn vetur
í Norðurárdalsskóla með Aðalheiði dóttur hans. Þorsteinn var seinna
bóndi á Hreimsstöðum í Norðurárdal og Aðalheiður bjó þar eftir föður
sinn. Hún er nú látin fyrir nokkrum árum. Ég var mjög montinn þegar
ég fékk afmarkaðan skika í túninu heima þar sem ég mátti æfa mig að
hjakka. Þetta kom sér vel, því að ég átti eftir að standa mörg sumur við
slátt á Laxfossi. Þótti mér það skemmtilegt verk ef tíðin var ekki þeim
mun verri. Ljánni var rakað í flekki og hyllst til að velja þurrustu flekk-
stæðin þar sem votlent var. Heyþurrkunin var eitt mesta vandamálið
við heyskapinn fyrir daga súgþurrkunar. Votheysverkunin leysti ekki
vandann nema að litlu leyti, enda kom hún seint til á Laxfossi og náði
ekki til nema lítils hluta af heyfengnum. Erfitt er að gera ókunnugum
grein fyrir þeim reginmun sem var á heyskap í rigningasumrum eða
góðri þurrkatíð. Í rigningatíð var nýtt hver stund þegar eitthvað létti upp
eða „tók af steini“ eins og sagt var og var stundum gripið til þess að
raka heyinu í föng ef ekki náðist að þurrka það viðunanlega. Síðan voru
föngin breidd ef aðra flæsu gerði og reynt þá að fullþurrka heyið. Þegar
verst gegndi lágu flekkirnir óhreyfðir langtímum saman og rigndu niður.
Síðan voru þeir rifnir upp þegar þerrirútlit var.Var heyið þá oft farið að
gulna og orðið lélegt fóður. Var þá kallað að heyið væri „hrakið“, jafnvel
„skíthrakið“. Í góðri þurrkatíð og brakandi þurrki dögum saman þornaði
heyið næstum af ljánum eins og sagt var og náðist að hirða það iðjagrænt
og ilmandi. – Þegar heyið taldist viðunanlega þurrt var það „tekið saman“
og „sætt“.Sætin voru tvenns konar: „galtar“ (tvöföld fangbreidd) eða
„lanir“ (einföld fangbreidd), ýmist „krosslanir“ eða „hálflanir“.Sætt var
í galta á túninu, engjunum í Hrauninu og á Desey, í lanir á smærri og
dreifðari slægjublettum. Oft var unnið lengi fram eftir þegar mikið hey
var flatt sem náðst hafði að þurrka, því að skjótt skipast veður í lofti.
Mikið var í húfi að ekki rigndi ofan í þurra flekki.Eina hjálpartækið við
samantekt fyrir daga rakstrarvéla var „ýta“ eða „ýtuborð“ öðru nafni.
Það var breið fjöl, reipi fest í endana og hestur látinn draga. Síðan stýrði
einhver fjölinni til að hún gripi sem mest af heyi. Sérleg aðgát var höfð
við heyhirðingu ef kostur var. Töðu og kraftmiklu valllendisheyi hætti