Borgfirðingabók - 01.12.2010, Side 15
15Borgfirðingabók 2010
meira við að ofhitna en mýrarheyi. Hey sem hafði bakast nokkuð, var
„ornað“, ilmaði vel og var lystugt fyrir skepnur. Öðru máli gegndi ef
það ofhitnaði, kolaðist. Þá var það lélegt fóður. Sjaldan kom fyrir heima
að hitnaði í heyi til skaða. Þó man ég einu sinni eftir því í óþurrkasumri
að hitnaði svo í heygarðinum við fjósið að þurfti að rífa geilar í heyið.
Fjölbreyttur orðaforði var um heyþurrk: flæsa, híma, brakandi þurrkur,
og um þurrkstig heysins: grasþurrt, visað, liskrótt, brukþurrt og þannig
mætti lengi telja.
Þegar búið var að sæta allt sem flatt var kom að því að „hirða“, þ.e.
flytja heyið heim. Oft hafði safnast nokkuð mikið fyrir „í sæti“þegar
ákveðið var að binda og reiða heim. Það þurfti nokkurn undirbúning,
sækja hestana, leggja á þá reiðingana og hafa reipin tiltæk. Allir tamdir
hestar voru hafðir undir heyband og venjulega reitt heim á 6-8 hestum.
Meðan bræðurnir voru allir heima var verkaskipting þeirra þannig að
Þorsteinn „batt“, Jón „ fór á milli“ en Magnús „lét niður“. Þetta breyttist
þegar Þorsteinn fór að búa. Þá fór Magnús að binda en Jón lét niður.
Unglingar fóru þá á milli og þurftu að gæta vel að því að ekki „snaraðist
af“. Þurfti þess vegna að fylgjast með því að reiðingarnir væru nógu
fast gyrtir. Þeir voru venjulega þrígyrtir og trésylgjur á gjarðarendunum
en ekki gataðar ólar eins og á hnakk- og söðulgjörðum. Aldrei var það
tíðkað heima að karl og kona byndu saman eins og tíðkaðist sums staðar
á landinu. Aftur á móti var alltaf kvenmaður „í bandinu“, sem lagði
reipin og setti á þau mátulega mikið í bagga. Hún þurfti líka að raka
upp „baggarökin“, slæðinginn sem eftir varð þegar búið var að fjarlægja
baggana. Það voru krakkar oft látnir gera. Eftir að Magnús var alfarinn
var ekki öðrum til að dreifa við bindinguna en Jóni og fór ég þá að fara á
milli og seinna að láta niður. Kepptist ég þá við að leysa úr og gera upp
reipin til að eiga smáfrí milli ferða. Hafði ég þá oft bók til að lesa og las
þannig margar góðar bækur. Þetta var einfalt mál þegar látið var niður
í hlöðu en málið vandaðist þegar þurfti að láta niður í galtana sem áttu
að standa úti. Þegar heyið fór að hækka þurfti að axla baggana og bera
þá upp í stiga. Þóttist ég maður með mönnum þegar farið var að treysta
mér til þess, því að töluvert þurfti að vanda verkið við að byggja heyið
upp, „mæna“ það vel og hafa sem lögulegast. Hey sem stóðu undir beru
lofti þurfti að verja fyrir vindi og vatni svo að ekki fyki úr þeim eða þau
„dræpi“ í vætutíð. Þau voru yfirleitt ekki tyrfð fyrr en að hausti þegar
þau voru fullsigin og ekki von á viðbót. Farið var að breiða yfir þau milli
þess sem bætt var á þau og til þess notaðar yfirbreiðslur úr hessian-striga
eða gamlar botnvörpudræsur. Oft voru líka notaðar striga-yfirbreiðslur