Borgfirðingabók - 01.12.2010, Side 48
48 Borgfirðingabók 2010
færði hann okk ur systrunum bækur við heimkomuna og gaf okkur
að smakka brjóst sykur eða súkkulaði, en af slíkum munaði keypti
hann dálitlar byrgð ir og geymdi í kistu sinni. Hafði hann sama hátt á
þegar hann fór í Borgar nes. Vorum við eldri systurnar vanar að plata
Valborgu, yngstu systur okkar, sem var í sérstöku uppáhaldi hjá gamla
manninum, til að fara til hans og spyrja hvort hann ætti eitthvað gott
í gogginn. Brást Jón alltaf vel við, lauk upp kistunni og deildi út
molum, en alltaf var það gert af hófsemi. Það er kannski dæmi um
hve Jón hafði gaman af ferðalögum að þegar hann var kominn um
sjötugt tók hann sig til og heimsótti Elísabetu systur sína vestur í
Dali. Þau systkinin höfðu aldrei sést, en hún hafði alist upp í Dölunum
og átt þar ævistarf sitt sem kennari. Hún var þá komin um áttrætt
og var til heimilis að Sauðhúsum í Laxárdal. Fór Jón þangað vestur
nokkrar kynnisferðir. Hafði hann mjög gaman af að kynnast fólkinu
á Sauðhúsum, en svo skemmtilega vildi til að húsmóðirin Pálína, sem
var færeysk að uppruna, hafði verið vinnukona í Þverárhlíðinni og
hjálparstúlka á Lundi þegar Valborg systir mín fæddist.
Hér hefur komið fram að Jón var um margt sérkennilegur. Hann
var mjög frændrækinn en þótti misjafnlega mikið til ættingja sinna
koma, hafði á sumum mikið dálæti en fannst minna til um aðra. Þá
tók hann miklu ástfóstri við nokkra einstaklinga, bæði börn sem
hann var samtíða og fullorðið fólk. Á sama öfgafulla hátt var honum
lítið um einstaka persónur gefið. Ekki kom það fram í illu umtali,
frekar hnussi og lítilsvirðingu ef viðkomandi manneskja barst í tal.
Okkur systrunum var hann alltaf mjög góður þó sú yngsta, Valborg,
væri „elskan hans litla“. Sömu elskusemi sýndi hann börnum okkar
þegar þau fóru að koma í heiminn en hafði eðlilega mest dálæti á syni
Valborgar, nafna sínum Jóni Borgfjörð.
Þrjár svipmyndir frá liðnum dögum
Þegar hugurinn leitar til bernsku- og æskuára er myndin af Jóni aldrei
langt undan. Einhvern tímann snemma á æviskeiðinu erum við Tolla
systir mín staddar hjá honum í „gamla herberginu“ . Þar hefur hann
komið fyrir jarðneskum eigum sínum sem eru sundurdraganlegt
rúm með sængurfatnaði, lítið borð, vegghilla, þrjú koffort og kista.
Undirsængin hefur mótast af bognu bakinu og þegar rúmið er
óumbúið lítur það út eins og gleitt V. Jón hefur gaman af að sýna
okkur dótið sitt sem alltaf er í röð og reglu. Við skoðum fullar að-