Borgfirðingabók - 01.12.2010, Page 49
49Borgfirðingabók 2010
dá unar silfurbúinn staf sem hann notar þegar hann fer til kirkju
og fáum að kíkja í koffortið þar sem hann geymir sparihattinn og
í kistuna þar sem oft leynist kramarhús með beiskum brjóstsykri,
apótekaralakkrís, brennivínspeli og þegar best lætur hákarlsbiti.
Mesta aðdáun vekja þó myndirnar sem ýmist hanga á veggjunum
eða standa í röð á hillunni. Þar er gamla Norðtungukirkja með sínum
svörtu þiljum og margar myndir í fallegum römmum af fólki sem
Jón hefur kynnst á lífsleiðinni. Best líst okkur á mynd af ungri og
glaðlegri stúlku. Sú mynd er af Elínu Ebbu, einkadóttur Runólfs og
Guðrúnar í Norðtungu. Á Ebbu hefur Jón haft mikið dálæti alveg frá
því að hún var lítil telpa. En lífið er hverfult. Dag einn í sól og blíðu
kemur Andrés Eyjólfsson í Síðumúla óvænt í heimsókn og tekur Jón
á eintal út undir vegg . Ég skynja að eitthvað alvarlegt hefur gerst og
það er eins og dimmi í lofti. Þegar Andrés er farinn brýnir mamma
það fyrir okkur systrunum að vera nú góðar og þægar við Jón, því
hún Ebba hans sé dáin. Eftir þetta verður hún í munni hans Ebba
sáluga og er aldrei nefnd öðruvísi en klökkvi komi í röddina.
Þegar Jón kom að Lundi átti hann hestinn Skugga. Ekki minnist
ég þess að hann færi oft á hestbak en man þó eftir því að hann fór
einu sinni að sumarlagi ríðandi niður að Norðtungu til messu. Það
fór ekki á milli mála að þarna var meðhjálpari að búa sig til ferðar.
Snemma morguns var hann kominn ofan, sléttrakaður í betri fötunum
og bækur tilheyrandi embættinu komnar ofan í hnakktöskuna. Sömu
leið fór líka rímnakver, ef svo færi að hann yrði beðinn um að kveða.
úti á hlaði stóð Skuggi söðlaður og beið húsbónda síns. Í þann tíma
var ekki búið að finna upp stressið, en ég hygg að nú hefði Jón verið
greindur með ferðakvíða. Honum gekk illa að koma hnakktöskunni
fyrir og fór ekki hjá því að í kringum það skapaðist dálítill æsingur. Á
hlaðinu var hálfstálpaður hvolpur sem fylgdist með og velti vöngum,
greinilega spenntur fyrir ferðalaginu. Sendi Jón honum tóninn öðru
hvoru og kallaði hann ýmist heimsósóma eða heimseyðu. Þess á
milli átti hann í einræðum við sjálfan sig og tuldraði: „Hvurslags
er þetta? Hver stjórnar þessu eiginlega?“ Orðaleppar sem heyrðust
oft þegar eitthvað bjátaði á. Loksins var gamli maðurinn ferðbúinn,
leiddi Skugga að bakþúfu og steig á bak. Þá var bara eftir að rétta
honum kirkjuhattinn og svipuna. Þegar hér var komið sögu heyrðu
öll vandræði sögunni til og Skuggi sem hafði staðið eins og stytta
á meðan á öllu þessu stóð lallaði af stað. Ég stóð eftir á hlaðinu og
fylgdist með þeim félögum eins lengi og ég sá til þeirra og reyndi