Borgfirðingabók - 01.12.2010, Page 67
67Borgfirðingabók 2010
yfir Hvítá hefir oft verið háð heljar stríð. Þar hefir oft orðið að tefla
djarft, þar hefir oft verið teflt taflið lífs og dauða. Við vitum minnst
um þær hetjudáðir, forsjálni og hreystimennsku sem lífið hefir krafist
af horfnum kynslóðum. Því miður hefir þessi ójafni leikur oft haft
sorglegan endi.
Nú verða athugaðar þær leiðir sem helst var um að ræða. Það er
aðallega þrennt. Í fyrsta lagi brýr, en um brýrnar var rætt í sérstökum
þætti. (Sjá Borgfirðingabók 2009 bls 121). Í öðru lagi eru það vöð og
hið þriðja ferjur og skal nú um það rætt hvert fyrir sig.
Ferjur
Fátt er skrásett um ferjur á Hvítá svo vitað sé. Hjá mörgum bæjum
hafa bátar verið og notaðir sem heimilisbátar og að sjálfsögðu einnig
til að hjálpa nauðstöddum vegfarendum eftir því sem við varð komið.
Þannig er það jafnvel enn í dag, til dæmis á Háafelli og Bjarnastöðum
í Hvítársíðu (Sjá Borgfirðingabók 2006 bls. 33). Þeir eru ótaldir en
all fáir menn sem enn eru ferjaðir árlega yfir Hvítá á þessum tveimur
stöðum, enda er þar langt á milli brúa. Aldrei veit ég dæmi til að
ferjutollur hafi verið krafinn eða greiddur fyrir þetta á þessum bæjum
og er það þó bæði tímafrekt og erfitt verk.
Allt þar til brúin var byggð á Hvítá hjá Ferjukoti var ferjað yfir
ána á öllum bæjum neðantil með henni, allt upp að Stafholtsey,
en lögferja mun aðeins hafa verið í Ferjukoti og Hamraendum í
Stafholtstungum. Langmest var þó umferðin í Ferjukoti og þar hafði
verið lögferja frá 1866 eða í 62 ár.
Með lögferju er átt við það að skylda sé að ferja ferðamenn yfir á
ef óskað er. Um lögferjur var og er enn sérstakt lagaákvæði. Sýslu-
nefndir geta ákveðið lögferjur hvor á sínu svæði ef þurfa þykir, og
ber þeim einnig að setja sérstakar reglur fyrir hverja einstaka ferju.
Sýslunefnd ber skylda til að sjá um að ferja sé jafnan í forsvaranlegu
ástandi. Hún ákveður ferjutoll, en ef ekki verður samkomulag um
hann má skjóta ágreiningi undir gerðardóm og honum ber að hlíta.
Ferjumaður getur krafið um bát í byrjun en ber að halda honum við
á sinn kostnað og svara álagi ef ábúendaskipti verða á ferjubænum.
Lögferju fylgdi sú kvöð að hafa jafnan við hendina bát í fullkomnu
ástandi og ferjumann viðlátinn, nær sem vegfarandi óskaði eftir
fyrirgreiðslu.