Borgfirðingabók - 01.12.2010, Page 128
128 Borgfirðingabók 2010
bókavörðurinn, kallaði eftir lista yfir bækur, sem keyptar hefðu verið12
og bað um reikning frá „bókasölumanninum“ svo þeir sem kaupi
bækurnar þurfi ekki að búa hann til. Bjarni svaraði því til að „aldrei
hefðu fengist reikningar frá bóksalanum, en verðið verið skrifað á
hverja bók og eftir því hefði reikningurinn verið búinn til“. Fyrsta
tilraun til að leggja fram reikninga og skýrslur bókasafnsins þótti
ekki fyllilega formleg og ekki borin undir atkvæði. Fleiri ófullburða
tilraunir safnsins finnast ekki í gerðabókum eða ósamkomulag um
reikninga þess. Af og til komu fram tillögur um að breyta fyrirkomulagi
á afnotagjaldi félaganna þannig að þeir greiddu ákveðið gjald til
safnsins, jafnvel að heimilin greiddu gjald og væru í bókasafninu
án þess að þar væru félagar. Þessar tillögur voru ævinlega kveðnar
í kútinn og upphaflega fyrirkomulagið hélt velli til ársins 1957. Á
meðan rekstur safnsins var alfarið á herðum ungmennafélagsins fór
ekki mikið fyrir áhyggjum af fjármálum þess í fundargerðum. Þó má
glöggt lesa í þeim að ekki hefur alltaf verið til fé til að kaupa bækur og
höfð voru uppi hvatningarorð til að láta ekki deigan síga. Árið 1924
var getið um sérstakar ráðstafanir til að rétta af fjárhaginn til dæmis
með samskotum og bögglauppboði ef þörf krefði. Seinna sama ár, 4.
maí, var það tillaga Þorsteins Jósepssonar að farið yrði á opinberan
hreppsfund til að semja við bændur um að styrkja bókasafnið um
2-3 krónur á heimili. Ekki fylgir sögunni hvort þetta bar árangur eða
var gert, og það var ekki fyrr en 18. október 1936 að slíkt bar aftur á
góma. Þá vildi Ásmundur Jónsson að sótt yrði um styrk til hreppsins
til eflingar bókasafninu og kvað félagið það eina hér um slóðir sem
ekki nyti styrks frá hreppi. Ekki var eindreginn stuðningur við þessa
tillögu og taldi Björn Jónsson að hreppurinn gæti við það lagt skyldur
á safnið, fengið íhlutun í vali á bókum og allir mættu nota það. Þrátt
fyrir þessi varnaðarorð var tillagan samþykkt og næstu ár var getið
um framlag hreppsins til safnsins. Einnig var á þessum sama áratugi
getið um styrki frá UMSB til bókakaupa, þetta sama ár nam hann 20
krónum. Félagið áætlaði þá 150 krónur til að kaupa bækur fyrir13.
Árið 1937 voru sett lög í landinu um lestrarfélög14 og með þeim
opnaðist möguleiki á að sækja um styrki til ríkisins. Lestrarfélögin
12 302. fundur 18. október 1936
13 Friðrik G. Olgeirsson (2004) Á leið til upplýsingar, 25
14 Friðrik G. Olgeirsson (2004) Á leið til upplýsingar, 28