Borgfirðingabók - 01.12.2010, Page 134
134 Borgfirðingabók 2010
honum við. Ekki eru skráðar mótbárur við slíkum tilmælum, en þó
svaraði Einar Sigmundsson eitt sinn slíkri umkvörtun og taldi „bækur
ekki ver geymdar í heimahúsum heldur en í bókaskápnum og mönnum
eigi ofgott að líta í bækur þann litla tíma sem maður hefir afgangs á
sumrin“.29 Hér hafa þá líklega ekki tíðkast svokölluð bókakoffort,
sem víða á landinu voru látin ganga á milli bæja á þessum tíma, meðal
annars í nágrannasveitunum. Viljinn til að bjóða félögum sem best
úrval bóka kallaði snemma á samvinnu við aðra. Þann 11. febrúar 1911
gerði félagið samning við Búnaðarfélag Reykdæla um sameiginleg
kaup á tímaritum og hagfræðiritum.30 Félagar búnaðarfélagsins fengu
að lesa ritin án endurgjalds þó þeir væru ekki í ungmennafélaginu,
en að öðru leyti urðu ritin eign ungmennafélagsins þó nafn beggja
félaganna væru skráð á bækurnar og bókaverðinum skylt að halda
sérstaka skrá um þær. Ekki er víða getið um þátt sýslubókasafns, sem
stofnsett mun hafa verið upp úr aldamótum og naut styrks frá ríkinu.31
Sýslusöfnum var ætlað að lána bækur til almennings, sem litlu
lestrarfélögin gátu ekki keypt. Þegar til tals kom þann 11. nóvember
1923 að hefja bókaskipti við Ungmennafélagið Brúna í Hvítársíðu
var þó vitnað í bækur sýslubókasafnsins, sem lánaðar væru hrepp úr
hrepp og „litu samt vel út“. Það var eitt helsta áhyggjuefni á fundinum
að ef til bókaskiptanna kæmi færu ungmennafélagar hér svo illa
með bækur að það gæti leitt til ósamkomulags milli félaganna. Ekki
lognaðist málið alfarið út af þó það hlyti ekki brautargengi það árið.
Þann 24. maí 1925 var samþykkt að hefja bókaskipti við Brúna og
Vilhjálmur E. Einarsson og Þorsteinn Jósepsson fengnir til að ræða
við Hvítsíðinga. Seinna sama ár er ljóst að af þessum bókaskiptum
varð, fólk beðið um að fara vel með bækur, sérstaklega Brúarmanna,
„því þeir færu mjög vel með bækur“.32 Á aðalfundi í janúar 1926
var Einari Sigmundssyni falið að hafa eftirlit með bókum Brúarinnar
og bókaskiptanna getið öðru hverju. Eftir 1927 er ekki lengur að
finna tilvísanir í þau. Þá ber einnig að geta þess að héraðsbókasafnið
í Borgarnesi, sem einnig var nefnt sýslusafn, bauð félaginu 20-30
29 168. fundur 11. nóvember 1923
30 Samningur U.M.F. Reykdæla og Búnaðarfélags Reykdæla 11. febrúar 1911, í kaflanum
Lög og samningar
31 Friðrik G. Olgeirsson (2004) Á leið til upplýsingar, 19
32 192. fundur 8. nóvember 1925