Borgfirðingabók - 01.12.2010, Page 157
157Borgfirðingabók 2010
Mar grét Aðalheiður Kristófersdóttir frá Litlu-Borg í Vestur-Húna-
vatnssýslu og Þorgrímur Jónsson, en hann var fæddur og alinn upp á
Akranesi. Þau bjuggu á Kúludalsá frá 1945 til 1996. Á ríflega hálfrar
aldar búskap ólu þau upp sex börn, ræktuðu jörðina, byggðu upp
húsakostinn og sinntu vel félagslífi sveitarinnar. Það munaði um þau
hvar sem þau komu að verki.
Hjá foreldrum mínum ólst ég upp við virðingu fyrir hestum, en
þau höfðu mikinn áhuga á hestamennsku og áttu bæði góða reiðhesta
og talsvert hrossastóð. Frá því ég man eftir mér hafa hestar höfðað
mjög sterkt til mín og sem barn dreymdi mig um að eignast eigin
reiðhest. Sá draumur rættist þó ekki fyrr en ég var orðin stálpuð.
Fyrsti reiðhesturinn var bæði lipur og gangmikill en óttalegur
prakkari, enda kallaði ég hann Hrapp. Óknyttir hans náðu ekki að
bæla áhugann á hestum. Þeir hafa verið mér gleðigjafar og jafnvel
eins konar „sálusorgarar“ um dagana. Sem krakki leitaði ég til þeirra
ef eitthvað bjátaði á. Á fullorðinsárum hef ég haft fyrir reglu að
skreppa til kláranna ef eitthvað þyngir hugann og ævinlega komið
hressari til baka. „Ef inni er þröngt tak hnakk þinn og hest...“ kvað
Einar Benediktsson í ljóðinu Fákar. Og þetta er gott ráð. Þeir gefa
svo góða orku frá sér, klárarnir, og það án nokkurra skilyrða um
endurgjald. Sumir segja að orka þeirra sé mjög heilandi. Ég tel víst
að ég hafi fundið það strax sem barn. Hestarnir eru svo heilsteyptir
í eðli sínu þó þeir séu ekki endilega alltaf eins og hugur manns og
geti fundið upp á ýmsu sem er manni til óhagræðis þá stundina, enda
hugsa þeir eins og hestar en ekki eins og menn!
Ég gekk menntaveginn eins það var kallað áður fyrr. Varð stúdent
frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1970 og lauk BA gráðu
í almennum þjóðfélagsfræðum árið 1975. Þegar hér var komið
sögu hafði ég eignast dótturina Eddu Kristrúnu. Þrátt fyrir það var
útþráin mjög sterk. Haustið eftir útskriftina úr HÍ fór ég utan til
framhaldsnáms með Eddu litlu í farteskinu, en hún var þá á fimmta
ári. Við hreiðruðum um okkur í hópi lífsglaðra námsmanna í Osló og
undum hag okkar vel. En heimahagarnir toguðu æ sterkar í mig eftir
því sem á dvölina leið og heim snerum við vorið 1978. Hafði ég þá
lokið cand. mag. gráðu í félagsfræði og hugmyndasögu og fengið
nokkra útrás fyrir flökkuþrána. Ég held að dvölin í Noregi hafi sýnt
mér fram á hversu mikilvægt það er að eiga rætur einhversstaðar, að
tilheyra stað sem maður á góðar endurminningar frá og getur leitað