Borgfirðingabók - 01.12.2010, Page 212
212 Borgfirðingabók 2010
Hver er ábyrgð sumarhúsaeigenda og landeigenda?
Nú eru yfir 11 þúsund sumarhús á Íslandi.9 Mörg þeirra eru umlukin
gróskumiklum skógi eða öðrum gróðri og svo illa merkt að sjúkra- og
slökkvilið á í erfiðleikum með að finna þau komi til útkalls. Við þetta
bætist að oft eru vegir innan frístundasvæða alls ekki gerðir til að
bera 20 tonna slökkvibíla þar sem þrengsli eru mikil og undirbygging
veganna léleg. Þá er víða mjög erfitt um vatnstöku og þar að auki
illmögulegt að beita öflugum tækjum eins og haugsugum bænda sem
reyndust mikilvirkar í baráttunni gegn Mýraeldunum vorið 2006.10
Við upptalningu þessara áhættuþátta hlýtur spurningin um öryggi
fólks á frístundasvæðum að verða áleitin. Hver ber mestu ábyrgðina
á að„öryggið“ sé fullnægjandi? Samkvæmt skipulagslögunum mætti
e.t.v. segja að það sé sveitarfélagið eða ráðherra sem staðfestir
skipulag á viðkomandi frístundasvæði. En hvað með fólkið sjálft?
Gera sumarhúsaeigendur sér almennt grein fyrir því að með dvöl á
frístundasvæði við ákveðin skilyrði er verið að leggja fjölskylduna í
lífshættu? Hvað gera sumarhúsaeigendur til að lágmarka hættuna á
íkveikju í og við húsin sín? Því miður er oft þannig um að litast undir
veröndinni að þar er búið að safna saman talsverðum eldsmat, gas- og
bensínbrúsum, málningarfötum, þynni, fúavarnarefni og afgöngum
af ýmiskonar byggingarefnum, svo eitthvað sé nefnt. Í þessu birtist
hugsunarleysi sem ríkir allt of víða gagnvart hættunni á eldsvoða í
frístundabyggðum.
Í þessum efnum þarf því að huga sérstaklega að forvörnum og þá
er ýmislegt hægt að gera. Þannig hyggst Skorradalshreppur í samvinnu
við slökkviliðsstjóra svæðisins og landeigendur senda út sérstök
varnaðarorð eða grunnreglur til allra sumarhúsaeigenda í dalnum þar
sem bent er á nokkur nauðsynleg atriði sem huga þarf sérstaklega að
til að koma í veg fyrir eldsvoða á sumarhúsasvæðum. Auk þess verða
útbúnar sérstakar möppur í slökkvibíla þar sem staðsetning (gps) og
öryggisnúmer hvers sumarhúss, ásamt upplýsingum um vegakerfið
innan viðkomandi svæðis koma fram á loftmynd. Segja má að þetta séu
fyrstu sýnilegu aðgerðirnar í vinnu hreppsins að viðbragðsáætlun vegna
hugsanlegra gróður- og skógarelda í dalnum.
9 Fjöldinn miðast við árslok 2008, skv. upplýsingum hjá Fasteignaskrá Íslands.
10 Þröstur Þorsteinsson, Borgþór Magnússon, Guðmundur Guðmundsson. Sinueldarnir miklu
á Mýrum 2006. Náttúrufræðingurinn, 76(3-4): 109 - 119, 2008; http://is.wikipedia.org/wiki/
Mýraeldar