Tímarit lögfræðinga - 01.12.2013, Blaðsíða 59
405
skýringu nánar svo að með henni sé „efni ákvæðis rýmkað með lög-
skýringu út fyrir þau vébönd, sem orð ákvæðis marka …“. Einstök
orð kunni að vera tvíræð og oft sé völ tveggja kosta, rýmri og
þrengri. Ef valinn er rýmri kosturinn sé um rúma ákvarðandi skýr-
ingu að ræða en ekki rýmkandi lögskýringu. Að lokum tekur Ár-
mann fram að skilin milli rýmkandi lögskýringar og lögjöfnunar
séu ekki hnitmiðuð. Ef efni ákvæðis er rýmkað með stoð í gögnum
sem sýna að túlkunin sé í samræmi við viðhorf löggjafans eða til-
gang ákvæðisins sé um að ræða rýmkandi lögskýringu en ekki lög-
jöfnun. Hið sama eigi við um tilvik sem ekki er getið í ákvæði en
hljóti að rúmast þar af rökbundinni nauðsyn, t.d. með vísan til sam-
ræmisskýringar.7 Kallar hann rýmkandi lögskýringu og lögjöfnun
„nánast lögfræðileg frændsystkini“.8
Í sama anda er umfjöllun Davíðs Þórs Björgvinssonar. Með rýmk-
andi og þrengjandi lögskýringu sé átt við að efni settrar lagareglu sé
ákvarðað rýmra eða þrengra en orðalag hennar gefur til kynna.9
Róbert R. Spanó segir um tengsl lögskýringarleiða og lögskýringar-
aðferða/-sjónarmiða að heildarmat á samhengi lagaákvæðis leiði að
lokum til ályktunar um val á milli tækra túlkunarkosta. Val „á
endanlegum túlkunarkosti [sé] byggt á lögskýringarleið sem er niður-
staða lögskýringar“.10 Fellst hann á nálgun Lárusar H. Bjarnasonar að
„[rýmri] og þrengri lögskýring [sé] úrlausn slíkra vafaspurninga
kölluð, eftir því, hvort hallast er að rýmri eða þrengri merkingu
orðanna“;11 rýmkandi og þrengjandi lögskýring feli í sér aðferðir til
að leysa úr vafatilvikum. Almenn lögskýring sé þá sú leið, sem val-
in er, þegar ekki er fyrir hendi vafi að loknu heildarmati á samhengi
lagaákvæðis.12 Dregur hann þá ályktun að sá greinarmunur sé á
viðhorfum hans og Lárusar annars vegar og Ármanns og Davíðs
6 Ármann Snævarr: Almenn lögfræði, bls. 525.
7 Ármann Snævarr: Almenn lögfræði, bls. 528-529.
8 Ármann Snævarr: Almenn lögfræði, bls. 535.
9 Davíð Þór Björgvinsson: Lögskýringar. Reykjavík 1996, bls. 97 og 108. Sjá einnig Davíð
Þór Björgvinsson: Lögskýringar. Kenningar, aðferðir og sjónarmið við skýringu og beitingu laga.
Reykjavík 2008, bls. 23-24, en þar segir: „Með almennri lögskýringu er átt við að efni laga-
ákvæðis sé ákvarðað í samræmi við orðalag þess og efnið því hvorki þrengt né rýmkað, miðað
við það sem eðlilegur skilningur (almennur, sérfræðilegur og lögfræðilegur) á orðalagi
þess gefur tilefni til.“ Síðan segir hann að með þrengjandi lögskýringu sé átt við að efni
lagaákvæðis sé orðað þrengra en orð þess gefa til kynna og færri tilvik falli undir ákvæðið
en ætla mætti eftir orðanna hljóðan. Rýmkandi lögskýring er þá andstæðan við þrengjandi
lögskýringu. Sjá einnig sömu heimild, bls. 160-184, fyrir nánari umfjöllun um lögskýring-
arleiðirnar.
10 Róbert R. Spanó: Túlkun lagaákvæða. Reykjavík 2007, bls. 277.
11 Lárus H. Bjarnason: Lög og lögskýring. Reykjavík 1916-1917, bls. 49.
12 Róbert R. Spanó: Túlkun lagaákvæða, bls. 280-283.