Bændablaðið - 06.10.2022, Síða 30

Bændablaðið - 06.10.2022, Síða 30
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. október 2022 Þá lék lúðrasveit en því næst tók til máls forsætis- og landbúnaðarráðherra. Í máli sínu taldi hann vel til fallið að efna til þessarar sýningar og benti á að margar helstu framfarir í búnaðarmálum Suðurlands mætti rekja til giftudrjúgrar forystu Búnaðarsambands Suðurlands. Ráðherrann sagði að vormönnum Íslands hefði verið það ljóst að stórum steinum yrði ekki velt nema með sameiginlegu átaki. Sterk og þroskuð félagshyggja hefði verið nauðsynleg til að hrinda áleiðis þeim verkefnum er lágu fyrir. Fór ráðherrann nokkrum orðum um þessa félagshyggju, taldi henni margt til gildis og sagði að megininntak hennar hefði verið að vera trúr sínu þjóðfélagi og vinna því allt sem menn máttu. Þá sagði hann að nú væri margt unnið gegn hagsmunum þjóðarinnar undir yfirskini félagshyggju. Ráðherrann lauk máli sínu með því að segja Landbúnaðarsýninguna á Selfossi opnaða. Í umfjöllun Morgunblaðsins um sýninguna segir: „Margar konur stöldruðu við í eldhúsi sýningarinnar, sem er búið öllum fullkomnustu vélum. Sýning tækja frá aldamótaárunum vakti óskipta athygli margra svo og handavinnusýning kvenfélaganna. Garðyrkju- og blómasýninguna skoðuðu menn yfir rjúkandi kaffibollum og gripasýningin dró til sín margt forvitinna áhorfenda.“ Vegvísir inn í framtíðina Við setningu Landbúnaðar- sýningarinnar á Selfossi 1978, sem haldin var í tilefni af 70 ára afmæli Búnaðarsambands Suðurlands, flutti Stefán Jasonarson í Vorsabæ, formaður Búnaðarsambands Suðurlands, ávarp. Hann sagði meðal annars að með þessari sýningu vildi Búnaðarsamband Suðurlands minna á þátt landbúnaðarins í íslensku þjóðlífi og minna á liðna tíð. Stefán sagðist einnig vona að sýningin mætti verða vegvísir inn í framtíðina. Kristján Eldjárn, forseti Íslands, segir í upphafi ávarps síns í sýningarskránni að: „Ein helsta nauðsyn íslensku þjóðarinnar og skylda flestum æðri í nútíð og framtíð er að hafa gott samkomulag við landið sem hún byggir.“ Sýningin var haldin í Gagnfræða- skólanum á Selfossi og nærliggjandi útisvæðum og voru sýnendur 106 og þar á meðal Vélprjónasamband Íslands, Samband sunnlenskra kvenna og Samband vestur-skaftfellskra kvenna sem kynntu heimilisiðnað. Afurðasalar kynntu framleiðslu sína og kynnt var garðyrkja og skógrækt. Búfjárræktendur sýndu gripi og vélasalar kynntu tæki og tól. Dagblaðið Vísir gaf út veglegt sérblað um sýninguna þar sem blaðamenn blaðsins fóru á staðinn og ræddu við sýnendur og gesti. Máttur lífs og moldar Árið 1987 var haldin landbúnaðar- sýning í Reiðhöllinni í Víðidal sem kallaðist Bú 87. Bændablaðið gaf út 32 síðna aukablað vegna sýningarinnar þar sem fjallað er um sýnendur og það sem þótti áhugaverðast á henni. Ólafur H. Torfason, sem þá starfaði hjá Upplýsingaþjónustu landbúnaðarins, sagði í inngangi að blaðinu í grein sem hann titlar Landbúnaðurinn er siðmenningin: „Landbúnaðurinn er lífið sjálft. Þess vegna finnst borgarbúanum svo endurnærandi að koma í sveitina. Bóndinn er lifandi afl, sem ræktar og kemur lífverum til þroska. En hann varðveitir á sama hátt leyniþráð menningarsögunnar á jörðinni. Hlutverk hans er göfugt og stórbrotið. Landbúnaður er upphaf menningarinnar á þessari jarðkúlu. Sjálft orðið menning á alþjóðatungum: CULTURE, – KULTUR o.s.frv., – þýðir ekkert nema RÆKTUN. Og þar voru árstíðasveiflur sem komu syngjandi ræktendum og búfjáreigendum á sporið við Níl, Indus, Jangtsekíang, Efrat og Tígris. Þarna upplaukst stjörnufræðin og tímareikningurinn – og þar með allur reikningur. Seinna dröttuðust á eftir siglingar, bókmenntir og myndlist.“ Rúmlega 70 sýnendur voru á Bú 87 og spönnuðu þeir flest svið landbúnaðarins á bæði inni- og útisvæði. Landbúnaðarsýningin í Laugadalshöllinni 1968 Búnaðarfélag Íslands stóð reglulega fyrir bændaferðum á Smithfield- sýninguna á Bretlandi á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar í gegnum Bændaferðir sem voru reknar af Búnaðarfélaginu. Að sögn þeirra sem til þekkja voru þessar ferðir að vissu leyti skrýtnar. Aldrei var spurt um kostnaðinn á þeim og ferðirnar í fyrstu eingöngu ætlaðar körlum og engar konur fengu að fara með. Bændur áttu það til að vera ansi blautir og slarksamir í þessum ferðum og sýningin uppnefnd Spritfield. Árið 1966 fengu konur í fyrsta sinn að koma með og af 86 þátttakendum voru 30 konur og 12 þeirra mættu á flugvöllinn og á sýninguna í peysufötum. Landbúnaðarsýningin í Laugardals- höllinni var að hluta til haldin vegna vinsælda Smithfield-sýninganna og stóðu Búnaðarfélag Íslands og Framleiðsluráð landbúnaðarins fyrir henni. Markmiðið með sýningunni var að kynna þróun landbúnaðarins og framleiðslu hans. Sýningarsvæðið utandyra var á stóru svæði austan við Laugardalshöllina. Útisvæðið var 3,8 hektarar að stærð og mjög blautt og með opnum skurðum þegar ákveðið var að nota það. Byrjað var á að setja rör í skurðina og fylla þá og því næst voru lagðir vegir um svæðið og það girt, sáð í það eða þökulagt. Sett voru upp þrjú gripahús á svæðinu, fyrir sýningargripina, hross, sauðfé, nautgripi, svín og hænsni. Auk þess sem gerður var dómhringur og hlaupabraut og smíðuð rétt. Kappkostað var við að allir gripir á sýningunni væru úrvalsgripir, hvort sem það voru hestar, nautgripir eða sauðfé. Sýnendur voru 80 og þar af voru 56 með bás innandyra en 34 voru utandyra, mikið vélasalar, og sumir sýnendur bæði innan- og utandyra. Sýnendurnir komu víða að en flestir voru þeir tengdir landbúnaði á einn eða annan hátt. Samband íslenskra samvinnufélaga var stærsti sýnandinn og lagði undir sig allt sviðið í Laugardalshöllinni. Á sýningunni voru kvikmyndasýningar á hverjum degi og á öðrum stað var sýning og lýsing á gömlum munum og bekkirnir voru þéttsetnir alla daga þegar Vigdís Jónsdóttir, skólastjóri Húsmæðrakennaraskólans, og nemendur hennar voru með sýnikennslu í matargerð. Sýningin heppnaðist vel og hana sóttu 94 þúsund manns og var hún langmest sótta sýning hér á landi til þess tíma. Bú 2000 hófst í Laugardalshöllinni Landbúnaðarsýningin Bú 2000 fór fram í Laugardalshöllinni og á útisvæðinu umhverfis hana aldamótaárið 2000. Um 70 fyrirtæki, búgreinafélög og menntastofnanir í landbúnaði voru með kynningu á vörum sínum og þjónustu á sýningunni. Ari Teitsson, þáverandi for- maður Bænda- samtaka Íslands, opnaði sýninguna formlega og sagði að á þessum tímamótum, þegar aldir og árþúsundir mættust, stæði landbúnaður styrkum fótum og að íslenskar búvörur væru vaxandi þáttur í neyslu þjóðarinnar, þrátt fyrir aukinn innflutning búvara síðustu misseri. Hann sagði að sú ákvörðun að halda sýninguna í Reykjavík væri táknræn. „Sagt hefur verið að gjá hafi myndast á milli þéttbýlis og dreifbýlis síðustu ár og að íbúar þessara svæða hafi fjarlægst hver annan. Þessa gjá viljum við brúa því það er bara pláss fyrir eina þjóð í þessu landi. Bú 2000 er framlag landbúnaðarins til Reykjavíkur – menningarborgar Evrópu árið 2000.“ Fjölbreytni íslensks landbúnaðar Í tilefni af 100 ára afmæli Búnaðar- sambands Suðurlands var haldin Landbúnaðarsýning á Gaddstaða- flötum við Hellu árið 2008. Sýningin var, eins og sagði í kynningu um hana, þróunar- og tæknisýning sem jafnframt átti að kynna hlutverk og stöðu íslensks landbúnaðar í þjóðfélaginu. Markmið sýningarinnar var að kynna fjölbreytni íslensks landbúnaðar, hátt tæknistig og þá miklu þekkingu sem er að finna innan greinarinnar. Á sýningunni voru sýnd tæki og vélar, afurðir og búfé auk þess sem kynnt var ýmis þjónusta og vörur tengdar landbúnaði. Samstarfsaðilar Landbúnaðarsýningarinnar á Hellu 2008 voru Mjólkursamsalan, Kaupþing, Bændasamtökin, Slátur- félag Suðurlands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Silfurpeningurinn sem Einar Jónsson mynd- höggvari hannaði fyrir b ú s á h a l d a s ý n i n g u Búnaðarfélags Íslands árið 1921. Aðeins er vitað um tvo slíka peninga í einkaeign hérlendis. Mynd / Myndasafn Bbl. LÍF&STARF Íslenskt fyrirmyndarheimili á Landbúnaðarsýningunni 1947. Mynd / Myndasafn Bændasamtaka Íslands Gaddavír og skilvinda. Sýningarskrá Búsáhaldasýningarinnar 1921. Mynd / Úr sýningarskrá Ýmis fyrirtæki dreifðu sérritum um vörur sínar og þjónustu á Landbúnaðar- sýningunni á Selfossi árið 1958. Mynd / Sérrit Dráttarvéla Dr. Ólafur R. Dýrmundsson var fjár- og geitahirðir á Landbúnaðarsýningunni 1968. Mynd / Einkasafn Þúfnabaninn og fleiri eldri landbúnaðartæki á sýningunni 1947. Mynd / Myndasafn Bændasamtaka Íslands

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.