Íslenska þjóðfélagið - 23.12.2021, Síða 36
Mannekla lögreglu og mjúk löggæsla í dreifbýli
36 ..
við samfélagið krefst þess jafnframt að viðkomandi lögreglumenn skilji menningu byggðarlagsins
og taki að sér leiðtogahlutverk. Áskoranirnar koma einnig að stórum hluta til vegna nálægðar við
íbúana og þess að mörg viðfangsefna dreifbýlislögreglumanna flokkast ekki til hefðbundinnar lög-
gæslu. Því er nauðsynlegt að viðkomandi hafi djúpan skilning á sérstökum kröfum dreifbýlislög-
gæslu (Fenwick o.fl., 2012; Ruddell og Jones, 2020; Wooff, 2017).
Dreifbýli er hins vegar fjölbreytilegt innan og milli landa (Cordner, 2011). Í ljósi þessa er mikil-
vægt að hafa í huga að flestar rannsóknir á dreifbýlislöggæslu byggja á reynslu Ástrala, Bandaríkja-
manna og Breta (Ceccato og Dolmen, 2011). Þessi þjóðfélög eru fjölmenn og fjölbreytt ójafnaðar-
samfélög með tiltölulega gisin velferðarkerfi. Þörf er á rannsóknum frá annars konar þjóðfélögum,
s.s. Norðurlöndunum, sem eru í samanburði einsleit jafnaðarsamfélög með þéttriðin velferðarkerfi
(Esping-Andersen, 1990). Í tilfelli Norðurlandanna ýta jöfnuður og félagsleg samþætting – stofn-
anabundin með öflugu velferðarkerfi – undir traust til lögreglunnar og stuðla þar með að mjúkri
löggæslu, sem löngum hefur einkennt norræn lögreglulið (Balvig og Holmberg, 2005; Høigard,
2011). Í alþjóðlegum samanburði ríkir mest traust til lögreglunnar á Norðurlöndunum (Kääriäinen,
2016; Tómas Bjarnason, 2014) og norræn réttarvörslukerfi, þ.m.t. löggæsla, þykja mannúðlegri en
víðast annars staðar (Pratt og Eriksson, 2013; Ugelvik, 2016). Norrænum rannsóknum á lögreglunni
hefur fjölgað sl. 15–20 ár (Høigard, 2011), en rannsóknir á dreifbýlislöggæslu hafa setið á hakanum
(sjá þó Lindström, 2015; Rantatalo o.fl., 2020). Íslenskum rannsóknum hefur fjölgað samhliða (t.d.
Finnborg Salóme Steinþórsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir, 2018; Guðmundur Oddsson o.fl.,
2020; Ólafur Örn Bragason, 2006).
Markmið þessarar rannsóknar er að kortleggja þróun mannafla íslensku lögreglunnar frá árinu
2007, skoða lögregluna í evrópskum samanburði og greina upplifun dreifbýlislögreglumanna af
helstu áskorunum þeirra og bjargráðum. Notast er við fyrirliggjandi gögn og viðtöl við 23 lögreglu-
menn með starfsreynslu í dreifbýli. Spurt er: Hver er staða íslensku lögreglunnar á alþjóðavísu er
kemur að mönnun? Hvað upplifa dreifbýlislögreglumenn sem helstu áskoranir sínar og bjargráð?
Næsti kafli fjallar um þróun mannafla íslensku lögreglunnar í ljósi almennrar þjóðfélagsþróunar
og evrópsks samanburðar. Einnig er fjallað um mikilvægi dreifbýlislöggæslu fyrir íslenskt sam-
félag. Kaflinn á eftir fjallar um viðtalsgögnin og -aðferðir og loks verða niðurstöður viðtalsrann-
sóknarinnar reifaðar.
Íslenska lögreglan: Staða, þróun og evrópskur samanburður
Vestræn þjóðfélög umbreyttust á 19. og 20. öld úr strjálbýlum landbúnaðarsamfélögum í þéttbýl
(síð)iðnaðar- og þjónustusamfélög. Iðn- og þéttbýlisvæðing og síðar ör markaðs- og hnattvæðing
hafa aukið hraða og flækjustig samfélaga og gert lögreglustarfið erfiðara (Bayley, 2016). Þróunin
hefur kallað á breytingar á skipulagi lögreglu. Kröfur um hagræðingu, skilvirkni og sérhæfingu hafa
t.d. leitt til aukinnar miðstýringar. Á Norðurlöndunum hefur t.d. lögregluumdæmum verið fækkað
og hlutverk ríkislögreglustjóra sem yfirmanns lögreglu styrkt (Greiningardeild ríkislögreglustjóra,
2019; Lindström, 2015).
Tilgangur miðstýringar er að bæta árangur og skilvirkni. Fækkun og stækkun lögregluumdæma
á jafnframt að samhæfa þau með því að gera þau líkari innbyrðis (Ríkislögreglustjóri, 2019). Fræði-
menn segja þó að aukin miðstýring bitni á dreifbýlislöggæslu, s.s. með lokun smærri stöðva og
minni sýnileika lögreglu í fámennari byggðarlögum (Lindström, 2015; Yarwood og Mawby, 2011).
Þetta hefur torveldað störf dreifbýlislögreglunnar, sem hefur jafnan fáa lögreglumenn miðað við
höfðatölu og ferkílómetra og hærra hlutfall afleysingafólks en þéttbýlislögreglan. Þá er hætta á að
mýkra yfirbragð dreifbýlislöggæslu herðist með aukinni miðstýringu (Smith og Somerville, 2013),
en dreifbýli býður alla jafna upp á betri aðstæður fyrir mjúka löggæslu en borgir og stærra þéttbýli í
ljósi fámennisins, nálægðarinnar og mikils trausts manna á milli (Wooff, 2017).