Íslenska þjóðfélagið - 23.12.2021, Page 57
Ómar Hjalti Sölvason, Þorlákur Axel Jónsson og Markus Hermann Meckl
57 ..
Búsetuáform: Í könnuninni hjá innflytjendum voru búsetuáform á Íslandi mæld á raðkvarða með
spurningunni: „Hversu lengi hyggst þú búa á Íslandi?“ Mælt var á sex punkta kvarða með svar-
möguleikunum: 1=Minna en 1 ár; 2 = 1–2 ár; 3=3–5 ár; 4=6–10 ár; 5=11–20 ár og 6=Lengur en
20 ár. Í ljósi þess hvernig svörin dreifðust var ákveðið að sameina svör 1, 2, 3 og 4 og gera tveggja
kosta breytu. Eftir það voru búsetuáform á Íslandi flokkuð með eftirfarandi hætti: 1=Til áratugar eða
skemmri tíma og 2=Til lengri tíma.
Reynsla af búsetu erlendis: Í könnuninni á meðal Íslendinga var reynsla af búsetu erlendis mæld á
sjö punkta raðkvarða þar sem gefnir voru upp svarmöguleikarnir: 1=Aldrei; 2=Minna en 1 ár; 3=1–2
ár; 4=3–5 ár; 5=6–10 ár; 6=11–20 ár og 7=Meira en 20 ár. Hér voru svör dregin saman í tvo flokka, þar
sem svarmöguleikar 2 til 7 voru sameinaðir. Í svarmöguleika 1 voru þá þeir sem enga reynslu höfðu af
því að vera innflytjendur sjálfir og í svarmöguleika 2 þeir sem höfðu reynslu af því að búa í útlöndum.
Væntingar: Til að mæla hugmyndir innflytjenda og væntingar Íslendinga til aðlögunar innflytjenda
út frá grundvelli fyrirliggjandi gagna úr rannsóknarverkefninu „Samfélög án aðgreiningar?“ var
búinn til kvarði sem mældi annars vegar viðhorf til aðlögunar innflytjenda hjá Íslendingum og hins
vegar hugmyndir um aðlögun hjá innflytjendum. Við samsetningu kvarðans voru valdar spurningar
sem komu fyrir í báðum könnununum. Í ljósi þess að notuð voru gögn sem þá þegar hafði verið safn-
að var ekki hægt að breyta spurningum þannig að þær féllu að fyrirframgefnum mælikvarða fyrir
samlögunar- eða samþættingarvæntingar. Þess í stað voru valdar fullyrðingar sem féllu að einhverju
marki að hugmyndum Bourhis og fleiri (1997) um mælikvarða á aðlögunarhugmyndum. Væntingar
Íslendinga og hugmyndir innflytjenda um aðlögun voru því mældar með því að leggja saman gildi
viðbragða við þremur staðhæfingum:
Ertu sammála eða ósammála eftirfarandi fullyrðingum um útlendinga sem koma til að búa í sam-
félaginu þar sem þú býrð núna:
• Útlendingar sem koma til að búa í sveitarfélaginu okkar verða að læra íslensku.
• Útlendingar sem koma til að búa í sveitarfélaginu okkar verða að taka upp siði og venjur
þeirra sem búa hér.
• Útlendingar ættu að tala íslensku við börnin sín.
Gefnir voru upp svarmöguleikarnir:
1=Mjög ósammála; 2=Frekar ósammála; 3=Hvorki ósammála né sammála; 4=Frekar sammála;
5=Mjög sammála.
Til að gera niðurstöður læsilegri var skalanum snúið við og gildi dregin saman á 13 punkta kvarða.
Það þýðir að eftir því sem gildið á kvarðanum lækkar, þeim mun meira vísar það í átt til samlög-
unarhugmynda. Sé hins vegar gildið á kvarðanum hærra vísar það í átt til samþættingarhugmynda.
Áreiðanleiki kvarðans sem mældi væntingar Íslendinga um aðlögun innflytjenda reyndist miðlungs-
góður eða Cronbach alfa = 0,61 og mean inter-item correlation var 0,35. Áreiðanleiki kvarðans
fyrir innflytjendur reyndist lágur eða Cronbach alfa = 0,48 en mean inter-item correlation náði
viðmiði og var 0,24 (Field, 2015). Þó áreiðanleiki skalanna sé einungis miðlungsgóður og lágur
hafa þeir þó þann styrk að vera byggðir á fáum breytum og er styrkur skalanna því ekki orsakaður
af miklum fjölda breyta. Krafa um áreiðanleika fer eftir því hvaða ályktanir á að draga af skalanum;
því minni mun sem stefnt er að því að álykta um, því meiri þarf áreiðanleikinn að vera (Cortina,
1993; Field, 2015). Í þessari rannsókn er verið að álykta um stefnu fremur en magn og því teljum við
viðmiðunarmörkin vera viðunandi.
Athugað var vegna aðhvarfsgreiningar hvort sjálffylgni væri á milli bakgrunnsbreyta og ekki
reyndist vera um mikla fylgni að ræða á milli villuliða (Durbin-Watson=2). Þá voru gerðar athuganir
á því hvort vandamál væri til staðar sökum samfylgni frumbreyta (e. multicollinearity) eða hvort
línuleg fylgni væri á milli bakgrunnsbreyta. Hægt er að leggja mat á það með því að skoða mæli-