Íslenska þjóðfélagið - 23.12.2021, Side 73
Kristín Björnsdóttir og Ásta Jóhannsdóttir
73 ..
Inngangur
Ísland hefur verið markaðssett sem eitt af öruggustu löndum heims þar sem kynjajafnrétti er sagt
í hávegum haft, glæpatíðni lág og loftgæði mikil (Ragnheiður Harpa Haraldsdóttir, 2019). Það
gleymist hins vegar oft að minnast á þá vá sem Íslendingar búa við af völdum náttúruhamfara eins
og til dæmis eldgosa, jarðskjálfta, veðurofsa, skriða og snjóflóða. Oft á tíðum er um mannskæðar
hamfarir að ræða sem hafa víðtækar afleiðingar, bæði fyrir einstaklinga og landsvæði.
Til að tryggja sem best öryggi landsmanna starfar almannavarnadeild ríkislögreglustjóra við að
takast á við þær ógnir sem steðja að lífi og heilsu almennings, umhverfi og eignum (Almannavarnir,
2016). Líklega má færa rök fyrir því að starfsemi almannavarna hafi verið óvenju sýnileg á síðast-
liðnum árum í heimsfaraldri vegna COVID-19 og í tengslum við snjóflóð, aurskriður, jarðskjálfta
og eldgos.
Almannavörnum er ætlað að skipuleggja og stýra viðbrögðum sem virkjuð eru á hættustundu.
Þrátt fyrir að vitundarvakning hafi orðið á undanförnum áratugum hvað varðar rétt fatlaðs fólks til
þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra (Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks,
2007) benda rannsóknir til þess að fatlað fólk hafi orðið útundan í allri umræðu um almannavarnir og
hamfarir. Ekki hefur verið markvisst leitað svara við því hvernig styðja þurfi fatlað fólk í hamförum
og neyð, hvernig það geti varið sig, stutt hvert annað eða tekið þátt í að undirbúa viðbragðsáætlanir
(Alexander, 2011). Í íslenskum lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir
(nr. 38/2018) og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er sérstaklega kveðið á
um skyldur stofnana til að eiga í markvissu og virku samráði við fatlað fólk (Gísli Björnsson, o.fl.,
2019). Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ber þar af leiðandi lögum samkvæmt líkt og öðrum
ríkisstofnunum að eiga virkt samráð við fatlað fólk.
Markmið þessarar greinar er tvíþætt. Í fyrsta lagi að gefa yfirlit yfir hamfarir, viðbrögð við þeim
og afleiðingar fyrir fatlað fólk með því að greina hvernig fötlun samtvinnast öðrum félagspólitískum
þáttum sem hafa áhrif á jaðarsetningu fatlaðs fólks. Í öðru lagi að greina viðbragðsáætlanir
almannavarna og leiðbeiningar í hamförum með tilliti til aðstæðna fatlaðs fólks. Notuð var
innihaldsgreining þar sem tekið var mið af umfangi fötlunar í gögnunum og sjónum beint að
félagspólitískum þáttum á borð við stétt, kyngvervi, aldur og fötlun. Feminískum kenningum um
samtvinnun var beitt sem fræðilegu verkfæri til að greina þessa þætti og hvernig þeir verka á sam-
félagið samtímis og samhliða (Lykke, 2010). Ekki hefur verið fjallað um fatlað fólk og hamfarir áður
í íslensku fræðasamfélagi. Er þessi grein liður í því að vekja athygli á sérstökum aðstæðum fatlaðs
fólks þegar ógn steðjar að samfélaginu og hvetja til frekari umfjöllunar á þessu sviði.
Gagnrýnin fötlunarfræði
Fötlunarfræði sem fræðigrein tekur gagnrýna afstöðu til þeirra hugmynda um fötlun sem einkennast
af eðlis- og einstaklingshyggju og skilgreina fatlað fólk sem gallað og í þörf fyrir íhlutun og læknis-
fræðileg inngrip svo það passi betur inn samfélög hinna ófötluðu (Hanna Björg Sigurjónsdóttir, o.fl.,
2013). Þessi grein byggir, nánar tiltekið, á gagnrýninni fötlunarfræði (e. critical disability studies)
sem er þverfagleg fræðileg nálgun þar sem leitast er við að skilja fötlun í menningarlegu, sögulegu
og félagslegu samhengi. Gagnrýnin fötlunarfræði útskýrir hvernig hugmyndir um fötlun verður til
í félagspólitísku samhengi og beinir sjónum að því á hvern hátt slíkar hugmyndir hafa áhrif á fatlað
fólk, undirskipa það og jaðarsetja (Goodley, o.fl., 2017). Meðal viðfangsefna gagnrýninnar fötlunar-
fræði er að greina og afhjúpa valdamismun og félagslegt misrétti. Þau greiningartæki sem við teljum
gagnleg í þessari grein eru samtvinnun og ableismi1.
Samtvinnun hefur verið notuð af mörgum fræðimönnum innan gagnrýnna fötlunarfræða (An-
1 Ýmsir hafa gert tilraunir til að þýða enska hugtakið ableismi án þess að ásættanleg niðurstaða hafi fengist. Hæfishroki,
hæfishyggja og fötlunarfordómar ná merkingu hugtaksins ekki til fullnustu. Þess má geta að grasrótarhreyfing fatlaðs
fólks hefur kosið að nota enska hugtakið ableismi og munum við fylgja þeirra fordæmi (sjá nánar Embla Guðrúnar
Ágústsdóttir og Freyja Haraldsdóttir, 2014).