Íslenska þjóðfélagið - 23.12.2021, Síða 74
Fatlað fólk í hamförum
74 ..
namma, o.fl., 2013; Ben-Moshe og Magaña, 2014; Everelles, 2014; Goodley o.fl., 2019; Meekosha
og Shuttleworth, 2009) Samtvinnunarkenningar (e. intersectional theory) eiga rætur að rekja til
verka bandarísku fræðikonunnar Kimerlé Crenshaw (1991) sem skoðaði hvernig svartar konur eru
jaðarsettar í bandarísku samfélagi vegna kyngervis og hörundslitar. Hugmyndir Crenshaw hafa
þróast síðan þá í þverfaglega og gagnrýna nálgun sem gerir okkur kleift að greina samfélagslega
mismunun og forréttindi sökum hörundslitar, uppruna, stéttar, fötlunar, aldurs, kynverundar og kyn-
gervis sem hverfist um mismun og félagslegt réttlæti (Harris og Patton, 2019). Samtvinnun er fræði-
legt verkfæri sem greinir valdamismunun í samfélaginu og skoðar hvernig mismunabreytur á borð
við kyngervi, fötlun og hörundslit tengjast og í sameiningu stuðla að því að skapa og viðhalda fé-
lagslegu misrétti (Lykke, 2010).
Ableismi er hugtak sem lýsir fordómum og mismunun sem beinist gegn fötluðu fólki. Ableismi
byggir á þeirri viðteknu hugmynd, gildum og venjum að samfélagið sé fyrst og fremst ætlað ófötl-
uðu fólki og að ófötlun sé hið fullkomna líkamlega ástand (Campbell, 2009). Ableismi felur þar af
leiðandi í sér þá hugmynd að fatlað fólk sé óæðra ófötluðu fólki og að skerðingin skilgreini fatlað
fólk á neikvæðan hátt (Linton, 1998).
Ableismi er samofinn samfélaginu og stofnunum þess á borð við fjölmiðla, skólakerfi og heil-
brigðiskerfi sem taka þátt í að skapa hann og viðhalda honum. Dan Goodley (2014) heldur fram að
ableismi sé alltumlykjandi þannig að þegnar samfélagsins andi honum að sér óafvitandi, meðal ann-
ars í gegnum fjölmiðla. Þeir birti oft á tíðum óraunsæja mynd af lífi og reynslu fatlaðs fólks byggða
á klisjum og staðalímyndum. Í skólakerfinu má greina ableískar hugmyndir, til að mynda að það sé
betra fyrir fatlaða nemendur að ganga heldur en að nota hjólastól, lesa prentstafi í stað punktaleturs;
með öðrum orðum er gerð krafa um að þeir aðlagi sig skólastarfinu og líkist sem mest ófötluðum
nemendum (Hehir, 2002). Ableismi birtist einnig í heilbrigðiskerfinu þar sem heilbrigðisstarfsfólk
metur lífsgæði fatlaðs fólks lakari en það gerir sjálft sem getur haft áhrif á ákvarðanatöku um með-
ferð og þá þjónustu sem veitt er af hálfu heilbrigðisstarfsmanna (Peña-Guzmán og Reynolds, 2019).
Ableismi er ósýnilegur hluti af ríkjandi hugmyndafræðilegu kerfi (Goodley, 2014) en Embla Guð-
rúnar Ágústsdóttir og Freyja Haraldsdóttir (2014) hafa dregið upp skýra mynd af því hvernig able-
ismi gerir ráð fyrir að fatlað fólk sé gallað og að það þurfi að laga sig að samfélaginu:
Ableismi einkennist af þeim hugmyndum að fatlað fólk sé gallað og því sé m.a.
í lagi að eyða fötluðum fóstrum lengur en ófötluðum fóstrum og að aðgreina
fatlað fólk í sérúrræðum, t.d. á vernduðum vinnustöðum þar sem það fær oft lítil
sem engin laun fyrir vinnu sína. Til þess að fatlað fólk megi vera til eða taka þátt
í samfélaginu er ofuráhersla á að hæfa það, t.d. með sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun
og talþjálfun eða framkvæma aðgerðir til þess að draga úr því að líkaminn líti
öðruvísi út en líkamar fólks sem er ekki fatlað. Með þessu er ekki átt við að öll
þjálfun eða læknisfræðileg inngrip séu slæm heldur að sé hún notuð til þess eins
að aðlaga fatlað fólk að samfélaginu og ófötluðu fólki, sé um ableisma að ræða.
(Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Freyja Haraldsdóttir, 2014)
Þetta sýnir hvernig félagslegri stöðu fatlaðs fólks í almannarými er háttað, hvernig hið ófatlaða
augnaráð markar útlínur ableismans og metur verðleika líkamans og manneskjunnar út frá kapít-
alísku notagildi hans (Embla Guðrúnar Ágústsdóttir o.fl., 2020). Kapítalískt notagildi líkamans er
ríkjandi í vestrænum samfélögum sem hafa mótast af hugmyndafræði nýfrjálshyggju. Brown (2006)
útskýrir hvernig nýfrjálshyggjan felur í sér framleiðslu þegna þar sem siðferðilegt gildi þeirra mælist
í því hvernig þeir geta séð um sig sjálfir. Kapítalískar hugmyndir um sjálfstæði og einstaklings-
hyggju má gagnrýna fyrir að vera óraunhæfar og útilokandi fyrir fólk almennt en sérstaklega fyrir
fatlað fólk. Þetta birtist meðal annars í því hvernig samfélagið er skipulagt en ýmsar manngerðar
hindranir, eins og til dæmis tröppur og þröng rými, koma í veg fyrir fulla þátttöku fatlaðs fólks, svo
og fordómar og neikvæð viðhorf. Óaðgengilegt umhverfi í samfélaginu kallar á síðbúnar lausnir sem