Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Síða 75
2. tbl. 98. árg. 2022 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 75
Klamydía hefur verið mjög algengur kynsjúkdómur hér á landi undanfarna tvo áratugi einkum
í aldurshópnum 15-25 ára og er nýgengi klamydíusýkingar á Íslandi með því hæsta sem þekkist
í heiminum (Þórólfur Guðnason, o.fl., 2018). Lítið er vitað um smokkanotkun meðal ungra
karlmanna hér á landi. Helstu upplýsingar um þá notkun er um hlutfall þeirra sem nota smokka.
Í íslenskri landskönnun Bender og Kosunen (2005) meðal 17-20 ára ungmenna kom fram að
80% ungra karlmanna sögðust hafa notað smokk við fyrstu samfarir. Samkvæmt evrópsku
HBSC-rannsókninni sem gerð var 2017 og 2018 kom fram að smokkanotkun 15 ára íslenskra
unglingspilta við síðustu samfarir var 65% og hafði lækkað um 7% frá árinu 2014. Þegar
smokkanotkun íslenskra unglingspilta er borin saman við önnur Evrópulönd þá er hlutfallið
hærra (>65%) í 20 löndum (Inchley o.fl., 2020). Bæði foreldrar og jafningjar geta mögulega haft
áhrif á smokkanotkun. Fram kom í rannsókn Hadley og félaga (2009) að unglingar sem höfðu
rætt við foreldra um smokka voru líklegri til að nota þá. Nýlega hefur komið í ljós að þegar áttu
sér stað miklar samræður unglinga við foreldra um kynheilbrigðismál þá var klámáhorf þeirra
ekki tengt við litla smokkanotkun. Hins vegar reyndist vera samband á milli klámáhorfs og
lítillar smokkanotkunar ef þessar samræður voru af skornum skammti (Wright o.fl., 2020). Í
safngreiningu Tokunga og félaga (2020) kom einnig fram að töluvert klámáhorf tengdist meiri
líkum á því að nota ekki smokk við kynmök en þar er ekki tekið mið af samræðum við foreldra.
Þegar kemur að áhrifum vina geta þau verið í báðar áttir, fyrirbyggjandi eða ekki. Fram kom
í rannsókn Henry og félaga (2007) að unglingar notuðu síður smokkinn ef vinir þeirra notuðu
hann ekki. Margir aðrir þættir geta haft áhrif á það að smokkurinn er ekki notaður í kynlífi. Má
þar nefna takmarkaða þekkingu, skert eða erfitt aðgengi, neikvæð viðhorf til smokksins og
takmörkuð tjáskipti um notkun hans. Lítið er til af nýjum rannsóknum í vestrænum heimi á
þekkingu ungra mann á smokkum og notkun þeirra. Rannsókn Crosby og Yarber (2001) meðal
16.677 ungmenna á aldrinum 15-21 árs sýndi að þekkingarskortur var til staðar um hversu
þétt mætti setja smokkinn á getnaðarlim og töldu 40,2% ungra manna sem höfðu reynslu af
smokkanotkun að það ætti ekki að vera neitt rými fremst. Auk þess töldu 33,5% þeirra að það
væri í lagi að nota vaselín með smokk. Eins hefur komið fram í rannsóknum að aðgengi að
smokkum getur verið miserfitt. Í eigindlegri rannsókn Breny og Lombardi (2017) sem gerð var í
Bandaríkjunum meðal framhaldsskólanema kom í ljós að þátttakendur töldu aðgengi í búðum
vera hindrandi þegar smokkar eru staðsettir nálægt kvenkyns vörum og þungunarprófum í
matvörubúðum og apótekum. Í sömu rannsókn komu fram þau viðhorf að margir ungir menn
telja að smokknum fylgi margir ókostir svo sem minni gæði kynlífs og minni ánægju sem þeir
fá út úr kynlífinu. Önnur rannsókn meðal háskólanema var með svipaðar niðurstöður þar sem
þátttakendur lýstu síðustu kynmökum miklu frekar ánægjulegum ef smokkar voru ekki notaðir
(Millhausen o.fl., 2018). Að auki hafa rannsóknir sýnt að samræður um smokkanotkun skipti
miklu máli við notkunina. Þátttakendur í rannsókn Breny og Lombardi (2017) greindu frá því
að þeim fannst vandræðalegt að ræða smokkinn í hita leiksins. Í safngreiningu Noar, Carlyle
og Cole (2006) kom fram að tjáskipti um smokkanotkun hafði sterk tengsl við smokkanotkun.
Einnig virðast sérstakar samningaleiðir vera mikilvægar. Það sýndi sig í rannsókn French og
Holland (2013) að þær samningaleiðir við smokkanotkun sem skiptu mestu máli fólust í því að
neita að hafa kynmök nema smokkur væri notaður og þegar stuðst var við bein tjáskipti. Síðan
þegar kom að því að nota smokkinn þá gátu ungir karlmenn haft áhyggjur af smokkanotkun
því hún gæti eyðilagt „momentið“. Þessu er til dæmis lýst í rannsókn Chernick og félaga (2019)
sem gera grein fyrir aðstæðum þar sem viðkomandi vill ekki skemma stemninguna undir þeim
kringumstæðum þegar stelpan er hrífandi fögur og þegar farið er of geyst í hlutina.
INNGANGUR
SÓLEY S. BENDER
prófessor
Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands
og Kvenna- og barnasvið Landspítala
SNÆFRÍÐUR JÓHANNESDÓTTIR
hjúkrunarfræðingur
Landspítali
SIGURBJÖRG LIND ELLERTSDÓTTIR
hjúkrunarfræðingur
Sjúkrahúsið á Akureyri
„Þetta er ekkert
flókið“ Smokkanotkun
ungra karlmanna
Ritrýnd grein | Peer review
Höfundar