Bændablaðið - 20.07.2023, Síða 2

Bændablaðið - 20.07.2023, Síða 2
2 Bændablaðið | Fimmtudagur 20. júlí 2023 FRÉTTIR Búrekstrarvörur, hestavörur, gæludýravörur og útivistar- fatnaður í miklu úrvali Erum á 6 stöðum á landinu. Akureyri - Blönduós - Borgarnes Hvolsvöllur - Reykjavík - Selfoss fyrir lífið í landinu Veiðar: Veruleg stytting veiðitíma á grágæs – Stjórnvöld vilja aðgerðir vegna fækkunar í stofninum. Veiðimenn ósáttir. Til stendur að stytta veiðitímabil á grágæs verulega og banna sölu afurða af henni, gangi fyrstu tillögur stjórnvalda eftir. Grágæsastofninn stendur völtum fótum vegna fækkunar. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið boðaði hagsmunaaðila til kynningarfundar 7. júlí og var efnið að kynna mögulegar aðgerðir vegna stöðu grágæsastofnsins. Til fundarins komu m.a. fulltrúar Bændasamtaka Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, SKOTVÍS og Fuglaverndar. Veiðitímabilið stytt í báða enda Samkvæmt upplýsingum Bænda- blaðsins var á kynningarfundinum til umræðu að stytta veiðitímabilið í 10. september til októberloka og setja algert bann við sölu afurða af grágæsum. Veiðitímabilið hefur fram til þessa verið 20. ágúst til 15. mars, á bæði grágæs og heiðagæs. Sigurður Ármann Þráinsson, deildarstjóri stefnumótunar og innleiðingar hjá ráðuneytinu, segir til skoðunar mögulegt sölubann á grágæs og breytingu á veiðitíma. Nokkrar dagsetningar hafi verið til athugunar en ekki sé ljóst hver niðurstaðan verði. Tillaga þar um fari í samráðsgátt stjórnvalda, til kynningar í allt að hálfan mánuð. „Þegar þetta er komið úr samráðsgáttinni þurfum við að fara yfir athugasemdir og taka ákvörðun um hvort og hvað verður gert,“ segir hann. Má því líklega búast við lokaniðurstöðu um aðgerðir ráðuneytisins fljótlega í ágúst, eða aðeins nokkrum dögum áður en veiðitímabilið átti að hefjast. Sölubann sem fyrsta aðgerð Viðbrögð SKOTVÍS við hugmyndum ráðuneytisins um aðgerðir eru að sölubann ætti að vera nægjanlegt sem fyrsta skref. „Í ljósi þess að fjölgun var í talningum 2021 í Bretlandi og að veiðin hafi dregist saman úr 45.000 fuglum í 26.000 árið 2022, ætti sölubann eitt og sér að duga sem fyrsta skref,“ segir Áki Ármann Jónsson, formaður SKOTVÍS. „Veiðarnar í dag valda ekki stórfelldri fækkun en sjálfsagt að setja á sölubann til að hjálpa stofninum að ná sér á strik.“ Félagið telur að það að fara í margar aðgerðir í einu geri ómögulegt að meta árangurinn af hverri aðgerð fyrir sig. „Við höfum reynslu af því vegna veiðistjórnunar á rjúpu,“ segir Áki. Einnig þurfi sterk rök að liggja fyrir um styttingu veiðitíma og af hverju sölubann eitt og sér ætti ekki að duga. Margir veiðimenn hafi þegar skipulagt veiðitíma í haust og breyting á honum kæmi illa við marga veiðimenn. „Það væri ákjósanlegt að slík aðgerð ætti sér lengri aðdraganda og betri kynningu,“ segir Áki. Hann bendir jafnframt á að uppstoppun fugla ætti að vera undanskilin sem afurð, þar sé um að ræða fullnýtingu bráðar og auki ekki veiðiálag. Eigi þetta líka við um rjúpu. Grágæs fækkað um 40% á 11 árum Bændasamtök Íslands hyggjast bíða átekta og sjá hver niðurstaða ráðuneytisins verður áður en brugðist verður við af þeirra hálfu. Stytting veiðitíma, einkum fram á haust, gæti þó augljóslega reynst bændum óþægur ljár í þúfu vegna ásóknar grágæsar í akra. Gæsaveiðitímabilið átti sem fyrr segir að hefjast eftir skamman tíma og ljóst að ákvörðun um styttingu veiðitímabilsins og afurðabann gerist nokkuð bratt ef af verður. „Grágæs hefur fækkað um 40% frá því árið 2012, úr 100 þúsund í 60 þúsund,“ segir Sigurður. Grágæsastofninn sé þó ekki kominn inn á íslenskan válista enda hafi sá listi ekki verið endur- skoðaður nýlega. Sett var alþjóðlegt bann á grágæsaveiði um síðustu áramót en Bretland og Ísland undanþegin því banni með skilyrðum. „Á vegum AEWA-samningsins (Agreement on the Conservation of African- Eurasian Migratory Waterbirds) er búið að samþykkja að sett verði veiðibann á grágæsina,“ segir hann og heldur áfram: „Ísland og Skotland gerðu fyrirvara við þá ákvörðun þannig að hún gildir í sjálfu sér ekki hér á landi og ekki í Bretlandi. En það bætir ekki ástand stofnsins. Við hugsum þetta sem aðgerðir fram að því að búið verði að gera alþjóðlega stjórnunar- og verndaráætlun fyrir grágæsastofninn á Íslandi og í Bretlandi.“ Horft sé til þess að slík áætlun verði tilbúin og samþykkt haustið 2025. Þetta sé því tveggja ára ferli. „Halda þarf vel á spöðunum því þetta er vinna sem ætti að taka þrjú til fjögur ár. Áætlun okkar hljóðar upp á að hafa þetta tilbúið fyrir næsta aðildarfund AEWA-samningsins,“ segir Sigurður. /sá Fækkað hefur verulega í grágæsastofninum undanfarinn áratug. Verndaraðgerðir eru hafnar. Mynd / Óskar Andri Áki Ármann Jónsson. Sigurður Ármann Þráinsson. Smábátasjómenn höfðu ekki erindi sem erfiði þrátt fyrir mótmæli þeirra við stöðvun strandveiða 12. júlí. Trillukarlar söfnuðust saman á Austurvelli 15. júlí í tilraun til að fá ákvörðun um stöðvun strandveiða hnekkt. Krafðist fundurinn þess að ríkisstjórnin brygðist við „tilhæfulausu banni við strandveiðum“ og mótmælti harðlega „fullyrðingum matvælaráðherra að öllum veiðiheimildum hafi verið ráðstafað á sama tíma og miðin allt í kringum landið eru yfirfull af þorski“. Sagði í ályktun að gríðarlegir hagsmunir væru í húfi „þar sem bann við strandveiðum sviptir eitt þúsund manns atvinnu sinni og snertir því um þrjú þúsund fjölskyldur um land allt. Ákvörðun um bann hefur því að engu eitt af meginmarkmiðum laga um stjórn fiskveiða að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu.“ Krafist var 4.000 tonna aukningar á strandveiðikvótanum. Matvælaráðuneytið birti fyrr í mánuðinum reglugerð í Stjórnartíðindum um breytingu á reglugerð um strandveiðar. Þar er kveðið á um að Fiskistofa skuli fella úr gildi leyfi til strandveiða, frá sama tíma og strandveiðar eru stöðvaðar með auglýsingu í Stjórnartíðindum. Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða leysa smábátasjómenn út strandveiðileyfi sem gilda á til ágústloka, 48 róðrardaga, 12 daga í hverjum mánuði, á tímabilinu maí til ágúst. Fiskistofa ákvað að stöðva strandveiðar 12. júlí á grundvelli þess að sýnt þætti að leyfilegum heildarafla yrði náð að loknum veiðum þann dag. Þrátt fyrir mótmæli Landssambands smábátaeigenda, LS, mátu Fiskistofa og matvælaráðuneytið það svo að afli yrði það nálægt hámarkinu að ekki væri forsvaranlegt að bæta við degi. LS fór fram á að aflaviðmið yrði hækkað um 4.000 tonn en við því var ekki orðið. Í áskorun stjórnar LS til matvælaráðherra var vísað til mikilvægis strandveiða og áhuga á þeim. Eigi það jafnt við um sjómenn, fiskkaupendur, vinnsluaðila og eftirspurn frá mörkuðum. „Stjórn LS vekur athygli ráðherra á að veiðiheimildir til VS-afla [afli sem landaður er utan aflamarks þess skips sem veiðir aflann og rennur andvirði aflans í Verkefnasjóð sjávarútvegs./ Innsk.blm.] í þorski hafa ekki verið fullnýttar á undanförnum árum og verða það ekki á yfirstandandi fiskveiðiári. Strandveiðar til ágústloka leiða því ekki til þess að afli verði umfram það sem ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar kveður á um.“ ... „Stjórn LS minnir á að samkvæmt ákvæði laga um stjórn fiskveiða er hverju skipi heimilt að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar mánuðina maí, júní, júlí og ágúst. Jafnframt að „Á hverju fiskveiðiári er ráðherra heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski skv. 5. mgr. 8. gr. sem nýtt skal til veiða með handfærum á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst samkvæmt sérstökum leyfum Fiskistofu. Aflamagn sem tiltekið er í reglugerð sem ráðherra getur breytt. Með skírskotun til þessa er það óásættanlegt að strandveiðar standi einungis yfir í hluta tímabilsins.“ segir í áskorun LS til stjórnvalda. Gjörningur var framinn við Alþingishúsið aðfaranótt 12. júlí til að mótmæla stöðvun strandveiðanna. Sturtaði Guðlaugur Jónasson handfærasjómaður þá fiskhausum framan við aðaldyr þinghússins og stillti upp skilti, undirritað af „Handfærasjómönnum Íslands“, þar sem kostir strandveiða voru tíundaðir. Svo sem að veiðarnar séu umhverfisvænstu fiskveiðar sem Íslendingar stundi, 700 manns missi atvinnuna, um sé að ræða brot á úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og kolefnisspor strandveiða sé 500 sinnum minna en kolefnisspor veiða sem stundaðar eru með botntrollum. Minnt er á að smábátaveiðar og sauðkindin hafi gert Ísland byggilegt og spurt hvort stjórnvöldum standi á sama um umhverfismál og komandi kynslóðir. /sá – Sjá nánar á síðu 16. Strandveiðar: Ráðherra ekki haggað Sturtað var fiskhausum við dyr Alþingishússins til að mótmæla stöðvun strandveiða. Mynd / Skjáskot Sumarlokun Bændablaðsins Bændablaðið mun nú fara í stutt sumarfrí. Því kemur ekki út blað eftir tvær vikur. Næsta tölublað kemur út þann 24. ágúst næstkomandi. Á meðan minnum við á vef okkar, bbl.is, og samfélagsmiðla okkar þar sem allt efni Bændablaðsins er að finna. Gleðilegt sumar!

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.