Bændablaðið - 20.07.2023, Qupperneq 8
8 Bændablaðið | Fimmtudagur 20. júlí 2023
FRÉTTIR
Völuteig 4 - 270 Mosfellsbær
www.vinnuvelarehf.is - S: 496 4400
Vinnslubreidd: 2,0m
Dýpt á kubbi: 1,2m
Verð kr.
án vsk.
Kr. 2.399.400 m/vsk
1.935.000
Þýsk gæði og áreiðanleiki
STRAUTMANN
STÆÐUSKERAR
Fæðuöryggi:
Aðgengi að hollu
mataræði fer versnandi
Á ári hverju gefur Matvæla- og
landbúnaðarstofnun Sameinuðu
þjóðanna (FAO) út skýrslu um
stöðu fæðuöryggis og næringar á
heimsvísu sem hefur það markmið
að binda enda á hungursneyð og
vannæringu í heiminum.
Skýrslan greinir einnig frá þeim
áskorunum sem standa í vegi fyrir
því að markmiðin náist. Í skýrslunni
má lesa um markmið sjálfbærrar
þróunar heimsins sem gera ráð fyrir
að binda enda á hungursneyð og
vannæringu á heimsvísu árið 2030.
Í skýrslunni er greint frá því að um
735 milljónir manna á heimsvísu hafi
upplifað hungursneyð árið 2022, sem
er aukning um 122 milljónir manna
frá árinu 2019. Helstu orsakir eru
taldar vera Covid-heimsfaraldurinn,
veðurfarsbreytingar og hamfarir
ásamt stríðinu í Úkraínu. Þó ber
að geta þess að hungursneyð í
heiminum hefur ekki aukist milli
2021 og 2022. Ef fram heldur sem
horfir munu markmið Sameinuðu
þjóðanna um að enda hungursneyð
í heiminum fyrir árið 2030 ekki nást
og gerir skýrslan nú ráð fyrir að um
600 milljónir manna verði alvarlega
vannærðir árið 2030.
Fæðuöryggi ótryggt
Í skýrslunni er sjónum beint að
aukinni þéttbýlismyndun sem hefur
áhrif á hvernig og hvað fólk borðar.
Áætlanir gera ráð fyrir að 7 af
hverjum 10 muni búa í stórborgum
árið 2050. Þessar breytingar kalla
á bæði áskoranir og tækifæri til að
tryggja að allir hafi, fjárhagslega
og landfræðilega, aðgang að hollu
mataræði. Áskoranirnar felast
einnig í auknu aðgengi að ódýrum
og tilbúnum skyndibita sem er oftar
en ekki hitaeiningaríkur, hár í fitu,
sykri og/eða salti sem getur leitt til
vannæringar. Auk þess er talið að
aðgengi að grænmeti og ávöxtum
til að mæta daglegum viðmiðum af
hollu mataræði sé ekki nægjanlegt.
Með aukinni þéttbýlismyndun verður
einnig breyting á nýtingu lands sem
hefur þar með áhrif á landbúnað.
Fæðuöryggi er skilgreint sem
svo að fólk, á öllum tímum, hafi
raunverulegan og efnahagslegan
aðgang að nægum, heilnæmum og
næringarríkum mat sem fullnægir
þörfum þess til að lifa virku og
heilsusamlegu lífi.
Í skýrslunni er greint frá því
að tæplega 30% mannkyns, sem
jafngildir 2,4 milljörðum manna, hafi
ekki tryggt öryggi að fæðu. Þar af eru
um 900 milljón manna sem standa
frammi fyrir alvarlegu fæðuóöryggi.
Einnig er vakin athygli á því að
efnahagslegur aðgangur fólks að
hollu mataræði fer versnandi en árið
2021 hafði 42% mannkyns ekki efni
á hollu mataræði. Þetta er aukning
um 134 milljónir manna frá árinu
2019. /þag
Í skýrslunni er greint frá því að tæplega 30% mannkyns, 2,4 milljarðar manna, hafi ekki tryggt öryggi að fæðu.
Mynd / Alex Hudson
Vilja leyfa notkun
á glýfosati
Framkvæmdastjórn Evrópu-
sambandsins mun vera að
vinna að endurupptöku á
notkunarheimildum á efninu
glýfosat í aðildarríkjum sínum.
Umhverfisverndarsamtök for-
dæma ákvörðunina.
Glýfosat er virka efnið í algengum
illgresiseyðum á borð við Roundup.
Álitamál hefur verið um hvort notkun
þess geti verið hættuleg heilsu manna
og mögulega valdið krabbameini. Á
undanförnum árum hefur því verið
hávær umræða um takmörkun og
banna við notkun þess.
Nýlega birti Matvælaöryggis-
stofnun Evrópu (EFSA) samantekt
á niðurstöðum sínum um notkun
þess í landbúnaði. Segir í þeim að
áhrif notkunar glýfosats á heilsu
manna, dýra og umhverfis valdi ekki
áhyggjum. Umhverfisverndarsamtök
mótmæltu áliti EFTA og saka
stofnunina um að ganga erinda
stórfyrirtækja í matvælaiðnaði.
Samkvæmt fregn miðilsins Politico
mun framkvæmdastjórnin á næstu
vikum kynna álit sitt og hefja
viðræður um leyfisveitingu efnisins.
Talsmenn hagsmunasamtakanna
Pesticide Action Network
Europe hafa fordæmt framferði
framkvæmdastjórnarinnar og kalla
eftir að EFSA birti allar niðurstöður
sínar og öll gögn sem liggja þeim til
grundvallar áður en farið er að ræða
leyfisveitingar. Þau segja niðurstöður
framkvæmdastjórnarinnar „vandræða-
legar“ og grafi undan rótgrónum
skilningi á áhættu tengdum notkun
á glýfosati. Talsmaður fram-
kvæmdastjórnarinnar segir hana
starfa gagnsætt og hafi fylgt
hefðbundinni málsmeðferð.
Búist er við að endanleg ákvörðun
verði tekin í október.
/ghp
Glýfosat er virka efnið í algengum
illgresiseyðum á borð við Roundup.
Mynd / James Baltz
Kúasæðingar
hækka í verði
Stjórn Búnaðarsamtaka Vestur-
lands ákvað á fundi í lok júní
að hækka gjaldskrá sína vegna
kúasæðinga frá 1. júlí um 5%, þó
ekki kvígusæðingar.
„Ástæðan er fyrst og fremst
hækkun á kostnaðarliðum eins og
launahækkun og hækkun á sæði.
Með þessu erum við að reyna að
halda rekstrinum á sæðingum
í jafnvægi,“ segir Guðmundur
Davíðsson, formaður stjórnar
samtakanna, spurður út í skýringu
á hækkuninni.
Tveir fastir starfsmenn vinna
við sæðingar, auk afleysingafólks
á Vesturlandi, og þrír verktakar sjá
um sæðingar á Vestfjörðum. Eftir
hækkunina 1. júlí kostar kúasæðing
4.470 kr. og kvígusæðing 2.322 kr.
Heimsóknargjald er 3.270 kr. /mhh
Þorsteinn Ólafsson, dýralæknir að
sæða kú. Mynd / MHH
Bjarni Guðmundsson, fyrrverandi
prófessor á Hvanneyri, fagnar 80
ára afmæli í sumar.
Af því tilefni munu Land-
búnaðarsafn Íslands og Land-
búnaðarháskólinn heiðra hann
með málþingi á Hvanneyri þann
31. ágúst.
Bjarni varði stórum hluta
síns starfsferils við varðveislu
landbúnaðarsögu Íslands. Hann á
stóran þátt í því að Landbúnaðarsafn
Íslands er til í þeirri mynd sem það
er í dag. Bjarni hefur enn fremur
gefið út fjölda bóka, þar sem þróun
íslenskra búhátta eru gerð skil.
Bjarni segir að Ragnhildur
Helga Jónsdóttir og Anna Heiða
Baldursdóttir, starfsmenn safnsins,
eigi allan heiðurinn að skipulagningu
viðburðarins. „Mín viðbrögð eru
fyrst og fremst þakklæti.“
Tengsl safns og skóla
„Þær stöllur fengu þessa hugmynd og
voru svo vinsamlegar að spyrja mig
hvort ég kærði mig um þetta. Mér
fannst málefnið sem þær ætluðu að
fjalla um vera áhugavert, þannig að
ég sagði já,“ segir Bjarni. Á þinginu
verður fjallað um hvernig hægt er að
miðla landbúnaðartengdum fróðleik
í gegnum safn og skóla og hvernig
þessar tvær stofnanir tengjast.
Bjarni segist túlka viðfangsefnið
þannig að skólastofnanir horfi ekki
bara fram, heldur minnast þær líka
þess sem hefur gengið á undan.
Bjarni segir söfn geta gefið þarflegt
innlegg til framtíðarinnar, sama
hvers eðlis söfnin eru.
Sagan mikilvæg
„Á þessum breytingatímum sem við
lifum núna, þá verður maður var við
að tengslin við það sem er liðið eru
losaralegri en þau hafa verið oft
áður. Ekki það að við eigum alltaf
að vera að horfa í baksýnisspegilinn,
en það getur verið gagnlegt að
horfa á þróunina svo maður átti
sig betur hvað bíður í framtíðinni,“
segir Bjarni.
Hann telur að fáar atvinnugreinar
hafi breyst jafn mikið og land'
búnaðurinn. Bændur voru mjög
snemma að byrja að nýta sér það
sem í dag er kallað tölvutækni.
„Þetta hefur létt feikilega mikið og
við njótum þess núna, hvort sem
það er sjálfstýring í traktor, mjöltun,
fóðrun eða gagnaöflun.
Ef þú heyrir tikkið í mjaltaþjóni
og sérð kusuna labba þarna inn,
lausa við mislyndan fjósamann,
og allar upplýsingar eru færðar
nákvæmlega inn, þá er ekki annað
hægt en að dást að þessari tækni,
sem á rætur í handvirkri skráningu
í byrjun síðustu aldar. Þessi þróun
er í raun alveg stórkostleg,“ segir
Bjarni Guðmundsson.
Viðburðurinn er ókeypis og
öllum opinn. /ÁL
Munu heiðra Bjarna
Bjarni Guðmundsson verður
áttræður í sumar.