Skólavarðan - 2023, Page 8

Skólavarðan - 2023, Page 8
8 SKÓLAVARÐAN HAUST 2023 FRÉTTIR / Siðaráð Siðareglur kennara eru hugsaðar sem leiðarvísir í flóknu starfi kennara. Siðferðislegir snertifletir í starfi kennarans eru fjórir og snúa að nemendum, samstarfsfólki, samfélagi og fagmennsku. Þessir snertifletir skarast en fagmennskan tengir þá alla og þeir mynda þannig þríhyrning. Merki KÍ er þríhyrnt og táknar öll aðildarfélög KÍ. Þríhyrnt form siðareglna vísar þannig beint til tákns KÍ. Siðareglur KÍ ætti ekki að horfa á sem tvívíðar heldur eru víddirnar fleiri. Víddirnar tengjast en fagmennska kennarans, sem er fyrir miðjum þríhyrningi, er forsenda og hornsteinn allra hinna víddanna og styður við þær. Myndræn framsetning siðareglna er tilraun til að færa þær nær félagsfólki og vekja umræðu. Af hverju fagmennska? Fagmennska kennarans er þunga- miðja þríhyrningsins og bein vísun til almenns hluta aðalnámskráa leik-, grunn- og framhaldsskóla. Efst í þríhyrningnum eru nemend- ur og menntun þeirra með áherslu á áhuga, virðingu og umhyggju kennarans fyrir nemendum þar sem áhersluþættir kennsluhátta eru víðsýni og alhliða þroski. Kennari menntar og stuðlar að alhliða þroska nemenda, sem vísar einnig til aðalnámskrár. Neðst í þríhyrningnum eru siðareglur sem snúa að samfélagi og samstarfsfólki kennara. Þannig hverfast þessir þrír þættir siðareglna, nemendur, samstarfsfólk og samfélag, um fagmennsku kennara. Ásýnd kennara út á við skiptir máli í heimi þar sem samfélags- miðlar og veraldarvefur varpa ein- földu ljósi á tilveru fólks. Kennara sem stígur fram og inn í þetta ljós þarf að vera umhugað um heiður stéttar sinnar, hann þarf að huga að framkomu sinni á opinberum vettvangi og vera meðvitaður um samfélagsábyrgð sína. Samskipti kennara við samstarfsfólk sitt skipta einnig miklu máli þar sem hver og einn ber ábyrgð á eigin framkomu við samstarfsfólk og því faglega samstarfi sem fara þarf fram í öllum skólum. Ýmsir þættir siðareglna skarast, eins og sjá má á myndinni. Til dæmis birtist hugtakið virðing oftar en einu sinni og sömuleiðis trúnaður. Ef rýnt er í reglurnar má sjá að sumar þeirra hverfast um sama punkt en í annarri vídd. Þannig tengjast þær og mynda heild. Til hvers siðareglur án viðurlaga? Siðareglur eru hugsaðar sem rammi utan um öll störf kennar- ans, einnig þau sem ná út fyrir kennslustofuna. Siðareglur má nýta sem leiðarvísi en ekki regluverk. Kennarinn er fyrirmynd í hverju verki og verður að ganga fram með góðu fordæmi, bæði sem kennari og leikmaður, í samskiptum við samferðafólk í ræðu og riti, í starfi eða leik. Ekkert er því til fyrirstöðu að stjórnandi nýti siðareglur þegar fjallað er um einstök mál og vísi til þeirra, enda eru þær vörður á faglegri leið hvers félagsmanns KÍ. Samræður um siðareglur Siðareglum er ætlað að skapa spurningar og samræður. Þær eru hugsaðar sem leiðarvísir fyrir hvern kennara á vegi hans til þroska sem kennari og mann- eskja. Umræður um siðareglur eru nauðsynlegar þar sem finna þarf sameiginlega mælikvarða á samskipti og fagmennsku kennara. Verkefni siðaráðs þetta kjör- tímabil verður að útbúa bakgrunns- efni sem vekja á alla þá sem starfa í skólum, að nemendum meðtöldum, til umhugsunar, samtals og meðvit- undar. Efnið er hugsað sem sam- ræðugrundvöllur fyrir kennara sín á milli, fyrir kennara í samræðum við nemendur og fyrir nemendur sín á milli. Í bígerð er að fá kennara og nemendur tilraunaskóla til samvinnu við siðaráð um efnistök og hvernig vinna megi með einstök hugtök eða reglur í siðareglunum. Sú vinna verður kynnt síðar. Fagmennska Siðareglur eru rammi um öll störf kennarans Siðaráð nýtti meginhluta síðasta kjörtímabils til að endurskoða siðareglur kennara sem höfðu staðið óbreyttar um langt árabil. Endurskoðaðar reglur voru samþykktar á síðasta þingi KÍ. Siðaráð vinnur nú að kynningarefni um siðareglurnar og kynningaráætlun. Sigrún Birna Björnsdóttir Kaaber skrifar. Kennari menntar og stuðlar að alhliða þroska nemenda, sem vísar einnig til aðalnámskrár.

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.