Skólavarðan - 2023, Qupperneq 31
HAUST 2023 SKÓLAVARÐAN 31
Hringferð / KENNARASAMBANDIÐ
„Þetta er spennandi verkefni
en upphafið má rekja til þess að
síðasta vor fengu ellefu leikskól-
ar hér í Reykjanesbæ, ásamt
bókasafni bæjarins, styrk úr
Sprotasjóði til að vinna að verkinu
í sameiningu. Markmið verkefnis-
ins er að styrkja hugtakaskilning,
orðaforða, hlustunarskilning og
frásagnarhæfni leikskólabarna.
Hugmyndina að verkefninu
átti Ólöf Kristín Guðmundsdóttir,
kennsluráðgjafi á Menntasviði
Reykjanesbæjar, og gegnir hún
verkefnastjórn. Þá er Birte
Harksen leikskólakennari titluð
sérfræðingur í verkefninu, en hún
er vel þekkt fyrir ötult starf er
kemur að málörvun ungra barna.
Í verkefninu eru einmitt
notaðar málörvandi aðferðir sem
byggja á leik, söng og virkni.
„Það góða við þessar aðferðir
er að þær eru til þess fallnar
að auka samkennd og styrkja
félagstengsl. Þannig getum við
stuðlað að auknu öryggi hjá
börnum; sjálfstraust þeirra eflist
og auk þess hæfnin til að tjá sig.
Það gefur augaleið að barn sem á
auðvelt með að skilja aðra, getur
og þorir að tjá sig er líklegra til að
líða betur en barn sem hefur þessi
atriði ekki á takteinum,“ segir
María og bætir við að verkefnið
sé ekki síður mikilvægt í ljósi þess
að í Reykjanesbæ er um þriðj-
ungur leikskólabarna með annað
móðurmál en íslensku.
Tilfinningaleg farsæld barna
„Þess vegna er svo mikilvægt að
leggja áherslu á málörvun til að
koma í veg fyrir skerta möguleika
í framtíðinni eða jafnvel félagslega
jaðarsetningu,“ segir María og
bendir í framhaldinu á að niður-
stöður nýlegra rannsókna bendi
til þess að leikskólabörn hafi oft
lítinn og einhæfan orðaforða.
„Við þessu þarf að bregðast
sem fyrst á skólagöngunni þar
sem það verður erfiðara um vik
eftir því sem á líður. Aðferðirnar
sem beitt er í Leikgleði í gegnum
söng og sögur gagnast mjög vel.
Þeim er ætlað að stuðla að aukinni
málfærni og tilfinningalegri
farsæld allra barna – óháð því
hvort þau séu fjöltyngd eða ekki,“
segir María.
Viltu kynna þér verkefnið
betur? Það er hægt að gera með
því að heimsækja vefsíðu KÍ og
fara inn á Skólamálaþing. Þar
er upptaka af síðasta þingi og
hægt að hlusta á fróðlegt erindi
Sigurbjartar Kristjánsdóttur um
Leikgleði í gegnum söng og sögur.
Mikill áhugi á félagsmálum
María Petrína er vel kunnug
innan Kennarasambandsins enda
hefur hún gegnt fjölmörgum
ábyrgðarstöðum fyrir sambandið.
Má þar nefna formennsku fyrir
hönd FSL í skólamálanefnd og
í samninganefnd Félags stjórn-
enda leikskóla, setu í fram-
kvæmdastjórn Skólamálaráðs KÍ
og stjórn Rannsóknasjóðs og er þá
ekki allt upptalið.
„Ég hef lengi haft mikinn
áhuga á að taka þátt í starfi KÍ og
þeirri göfugu vinnu sem þar fer
fram. Innan Kennarasambandsins
vinnur hópur fólks af miklum
metnaði fyrir hönd stéttarfélags-
ins. Ég er stolt af því að tilheyra
hópi þar sem sterk liðsheild,
vönduð vinnubrögð, gagnsæi og
heiðarleiki eru einkennandi hvert
sem litið er.“
María á að baki nærfellt
þrjátíu ára feril innan leikskólans;
allt frá því að vinna við ræstingar,
í eldhúsinu, við kennslu og
undanfarin sextán ár við stjórnun.
„Ég bý yfir dýrmætri reynslu sem
ég reyni að miðla KÍ til heilla. Þau
sem þekkja til mín vita að ég hef
bæði kjark og faglegan metnað til
að standa vörð um gildi leiksins
og réttindi barna,“ segir María
Petrína Berg skólastjóri og bætir
við að hún hlakki til framtíðarinn-
ar sem muni bera ný verkefni og
tækifæri í skauti sér.
Lengri útgáfa viðtalsins
verður birt á vef KÍ undir merkj-
um Skólavörðunnar.
Holt í hnotskurn
Leikskólinn Holt tók til starfa 1985. Byggt var við skólann og hann stækk-
aður um tvær deildir 2003.
Lengst af voru fjórar deildir en í haustið 2022 urðu eru þær sex. Börnin
í skólanum eru 107.
Grunnur skólastarfsins er byggður á hugmyndafræði Reggio Emilia
sem felur í sér að virðing er borin fyrir barninu og hugmyndum þess.
Könnunaraðferðin er einnig nýtt til þekkingarleitar. Einnig erum við
með tónmenntakennara sem kemur til okkar einn dag í viku.
Þróunarverkefnið Leikgleði í gegnum sögur og söng hefur vakið verð-
skuldaða athygli en alls taka 11 leikskólar og bókasafn Reykjanesbæjar
þátt.
Fengu tilnefningu til foreldraverðlauna Heimilis og skóla 2022.
„Við viljum sjá börnin með gott sjálfstraust og prúðmannlega framkomu, en líka að þau finni fyrir gleði og kærleika
gagnvart náunganum og beri virðingu fyrir umhverfi sínu. Þetta er gott veganesti út í lífið,“ segir María Petrína
Berg.