Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Síða 12
Viðtal
10 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1. tbl. 100. árg. 2024
Hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands í 50 ár
Það er að hluta til Marianne Klinke að þakka en hún hefur í nokkur
ár verið að hvetja mig til að fara í meistaranám. Í þessu námi mun
ég gera rannsókn sem tengist hjúkrun sjúklinga eftir heilablóðfall.
Hvaða eiginleika þarf góður leiðtogi í hjúkrun að
hafa?
Hann þarf að geta hlustað, vera þolinmóður og skynsamur í
ákvarðanatöku þegar kemur að mannlegum samskiptum. Það
skiptir líka miklu máli að geta lesið í allar aðstæður og að vanda
sig í samskiptum. Á deildinni minni starfa um 60 manns og því er
færni í mannlegum samskiptum gríðarlega mikilvægur eiginleiki
til að vera góður leiðtogi.
Hverjar eru helstu áskoranir í starfi?
Að manna deildina er mín helsta áskorun, það er gríðarlega erfitt
að fá hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða til starfa. Þeir vaxa víst ekki
á trjánum.
Bjargráð í starfi?
Mér finnst nauðsynlegt að hafa einhvern sem ég get leitað til
þegar á þarf að halda og fá aðra sýn á hlutina. Lausnamiðað
starfsfólk með góða aðlögunarhæfni, jákvætt hugarfar og góða
samskiptafærni. Eins finnst mér mikilvægt að eiga samtal við
samstarfsfólk á jafningjagrunni.
Ertu meðvitað að vinna í því að efla leiðtogahæfileika
þína til þess að verða betri yfirmaður?
Já, Landspítalinn býður upp á námskeið fyrir stjórnendur sem
ég hef verið að sækja og finnst mjög hjálpleg varðandi stjórnun
og samskipti. Þetta var flókið til að byrja með, ég hélt ég vissi nú
eitthvað en þetta er algjör frumskógur en að sama skapi mikið
ævintýri að læra að starfa í þessu umhverfi. Ég er alltaf að læra
eitthvað nýtt í mínu starfi, engir tveir dagar eru eins sem mér finnst
vera gefandi.
Hvernig sérðu að hjúkrun hér á landi muni þróast á
næstu tíu árum?
Á minni deild er mikið af erlendu starfsfólki, það er í meirihluta og ég
sé fyrir mér að það komi fleiri erlendir til starfa í heilbrigðiskerfinu
í framtíðinni.
Hvernig leysum við mönnunarvandann?
Með því að hækka grunnlaunin. Störf hjúkrunarfræðinga eru oft
mjög krefjandi og vinnutíminn óreglulegur. Það væri líka til bóta
að bæta vinnuaðstæður hjúkrunarfræðinga.
Draumastarfið þitt?
Í dag er þetta draumastarfið mitt en ég veit ekkert hvað mig langar
að gera eftir til dæmis fimm ár. Núna vil ég einbeita mér að því að
byggja upp þessa deild og sinna mínu starfi sem deildarstjóri vel.
Hvað finnst þér vera það besta við þitt starf sem
deildarstjóri á taugalækningadeild?
Vinnutíminn er kostur, ég hef alltaf verið í vaktavinnu þar til núna
en ég verð að segja að samstarfsfólkið mitt á deildinni sé það
besta við starfið.
Þarft þú sem yfirmaður að eyða miklum tíma
skriffinsku og skipulag?
Það er alltaf nóg að gera í því en ég reyni að vera eins mikið frammi
á deildinni og ég get, ég vil vera sýnileg og til staðar, mér finnst það
mjög mikilvægt.
„Ég var að byrja í meistaranámi
í taugahjúkrun með áherslu á
heilablóðfall.“