Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Side 48
46 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1. tbl. 100. árg. 2024
Ritrýnd grein | Peer review
Hæfni hjúkrunarfæðinemenda á lokaári og ári
eftir útskrift, námsumhverfi og áhrif þess á
hæfnina: Lýsandi ferilrannsókn
ÚTDRÁTTUR
Tilgangur
Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna almenna hæfni, siðferðilega hæfni
og siðferðisstyrk í hjúkrun meðal íslenskra hjúkrunarfræðinemenda á
lokaári og ári eftir útskrift. Jafnframt að lýsa mati þeirra á námsumhverfi
sínu, meðal annars líðan í klínísku námi og hæfni hjúkrunarkennara auk
þess að skoða samband þessara þátta.
Aðferð
Rannsóknin var lýsandi ferilrannsókn og var gagna aflað rafrænt hjá
hjúkrunarfræðinemendum (N=117) á Íslandi sem útskrifuðust árið 2019.
Notað var matstækið Nurse Competence Scale (IS-NCS) sem inniheldur
73 atriði og skiptist í sjö hæfniþætti (umönnunarhlutverk, kennslu-
og leiðbeinendahlutverk, greiningarhlutverk, stjórnun í aðstæðum,
hjúkrunaríhlutanir, tryggingu gæða og starfshlutverk). Hæfni var
mæld á kvarða 0 (mjög lítil hæfni) til 100 (mjög mikil hæfni) fyrir hvert
atriði. Siðferðisstyrkur við hjúkrun var mældur á kvarða 0 (lítill) til 100
(mikill). Námsumhverfi var mælt með matstækjunum Clinical Learning
Environment Supervision and Nurse Teacher Scale og Tool for Evaluation
of Requirments of Nurse Educator, auk fleiri spurninga. Gögn voru greind
með lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði.
Niðurstöður
Svörun hjúkrunarfræðinemenda var 55% (n=64) og 59% (n=33) ári eftir
útskrift. Ekki var marktækur munur á sjálfmetinni hæfni milli mælinga. Í
námi var meðalhæfnin 69,1 (sf=11,5), mest í greiningarhlutverki (M=75,6)
og minnst í kennslu- og leiðbeinendahlutverki (M=66,3). Ári eftir útskrift
mældist meðalhæfni 68,5 (sf=12,3), mest í umönnunarhlutverki (M=78,2)
og minnst í tryggingu gæða (M=63,9). Meðaltal sjálfmetins siðferðisstyrks
við hjúkrun var ágætt (M frá 69,3 til 76,0). Almennt mátu nemendur
námsumhverfi gott og voru ánægðir með fræðilegt og klínískt nám.
Marktæk jákvæð fylgni var á milli heildarkvarða og flestra undirkvarða
IS-NCS við sjálfmetinn siðferðisstyrk við hjúkrun.
Ályktun
Niðurstöður sýna að námsumhverfi stuðlar að góðri hæfni að mati
hjúkrunarfræðinga og að nemendur meta námsumhverfi sitt og eigin
hæfni við útskrift og ári síðar góða. Einnig má álykta að námið ýti undir
siðferðilegan undirbúning meðan á námi stendur og eftir að því lýkur.
Lykilorð
Hjúkrunarfræðinemendur, hæfni, hjúkrunarnám, siðferðisstyrkur,
námsumhverfi.
HAGNÝTING
RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA
Nýjungar: Hæfni íslenskra hjúkrunarfræði-
nemenda á lokaári og ári eftir útskrift hefur
ekki verið könnuð áður.
Hagnýting: Mikilvægt er að þekkja mat
nemenda og nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga
á eigin hæfni til að geta þróað námið út frá
mati þeirra.
Þekking: Nemendur og nýútskrifaðir
hjúkrunarfræðingar meta hæfni sína minni en
hjúkrunarfræðingar með lengri starfsreynslu;
trygging gæða er sú hæfni sem allar íslenskar
rannsóknir hafa sýnt að hjúkrunarfræðingar
og nemendur meta minnsta hjá sér.
Áhrif á störf hjúkrunarfræðinga:
Skoða þarf vel hæfniþætti sem hjúkrunar-
fræðingar meta lélega hjá sér og skoða störf
og starfsþróun hjúkrunarfræðinga byggt á
því.
doi: 10.33112/th.100.1.7