Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Síða 65
63
Ritrýnd grein | Peer review
Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1. tbl. 100. árg. 2024
UMRÆÐUR
Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða mat íslenskra unglinga á
gæðum þeirrar kennslu um kynheilbrigði sem þeir höfðu fengið í
gegnum skólagöngu sína út frá kennsluháttum, fræðsluþörfum og
kynferðislegri sjálfsvirðingu. Mat íslenskra unglinga er ekki mjög
jákvætt því aðeins um þriðjungur þeirra sem svöruðu spurningunni
voru sammála því að hafa fengið góða kennslu um kynheilbrigði.
Þegar viðhorf þátttakenda voru skoðuð til gæða kennslu um
kynheilbrigði út frá kennsluháttum mátti sjá töluverðan mun
milli hópa. Þeir sem töldu hana vera góða voru marktækt líklegri
til að nefna fleiri kennsluaðferðir heldur en þeir sem töldu hana
síðri. Þeir nemendur sem töldu kennslu vera góða voru einnig
mun líklegri til að finnast kennsluaðilinn hafa komið efninu
vel til skila heldur en þeir sem töldu hana síðri. Átti þetta bæði
við um nemendur í grunn- og framhaldsskóla og var munurinn
marktækur fyrir bæði skólastig. Fyrsta tilgáta rannsóknar um að
munur væri á milli þeirra sem telja kennslu um kynheilbrigði góða
samanborið við þá sem telja hana síður góða eftir kennsluháttum
var þar af leiðandi studd. Þessar niðurstöður eru í samræmi við
bæði erlendar og íslenskar rannsóknir sem hafa sýnt fram á að
unglingar telja fjölbreytta kennslu og menntaðan kennara, sem
er opinskár og fordómalaus, einkennandi þætti fyrir góða kennslu
um kynheilbrigði (Astle o.fl., 2021; Corcoran o.fl., 2020; Kolbrún
Hrund Sigurgeirsdóttir o.fl., 2019). Rannsóknir hafa einnig bent
á jákvæðan árangur fjölbreyttra kennsluaðferða á þekkingu og
viðhorf nemenda um kynheilbrigði og kynhegðun (Chi o.fl., 2015;
Sóley S. Bender og Álfheiður Freyja Friðbjarnardóttir, 2015).
Nemendur sem töldu kennslu um kynheilbrigði hafa verið góða
voru jafnframt líklegri til að telja að hún hefði komið til móts við
fræðsluþarfir þeirra, þeir fengið góð svör við sínum spurningum
og góðar upplýsingar um getnaðarvarnir og kynsjúkdóma
samanborið við þá sem töldu hana síðri. Þessar niðurstöður
styðja tilgátu tvö um að munur sé á viðhorfum nemenda sem telja
kennslu um kynheilbrigði góða samanborið við þá sem telja hana
síðri varðandi það hvort hún hafi uppfyllt fræðsluþarfir þeirra.
Rannsóknir hafa bent á að ef kennslan kemur ekki til móts við
fræðsluþarfir unglinga eru þeir líklegir til að sækja sér þekkingu
annars staðar, til dæmis á Internetinu (Nelson o.fl., 2019; Pingel
o.fl., 2013). Aftur á móti er erfitt að vera fullviss um að upplýsingar
þaðan séu áreiðanlegar, hlutlausar og fordómalausar (Pingel
o.fl., 2013). Þar af leiðandi er jákvætt að meirihluti telji kennslu
hafa komið til móts við þeirra fræðsluþarfir og þeir telji sig hafa
fengið góð svör við spurningum sínum. Þá hafa rannsóknir oft sýnt
fram á að kennsla um kynheilbrigði eykur notkun getnaðarvarna
og fækkar kynsjúkdómasmitum (Jaramillo o.fl., 2017; Reis o.fl.,
2011). Því er einnig jákvætt að sjá að meirihluti þeirra sem töldu
kennsluna hafa verið góða voru sammála því að hafa fengið góðar
upplýsingar um hvort tveggja.
Fullyrðingar sem voru skoðaðar um kynferðislega sjálfsvirðingu
voru fimm. Tvær þeirra voru marktækar og sú þriðja nálægt
því að vera marktæk, en nemendur sem töldu kennslu um
kynheilbrigði hafa verið góða voru líklegri til að vera sammála
þeim fullyrðingum. Aðeins var marktækur munur milli þeirra
sem töldu kennsluna vera góða samanborið við þá sem töldu
hana síðri að því er varðar eftirfarandi atriði: „Ég á auðvelt með
að standa með sjálfri/u/um mér þegar setja þarf mörk í kynlífi“
og „Ég er óhrædd/tt/ur að standa á mínu ef kynlífsfélagi þrýstir
á mig“. Þar af leiðandi var þriðja tilgátan að takmörkuðu leyti
studd um að munur væri á viðhorfum nemenda sem telja kennslu
um kynheilbrigði hafa verið góða samanborið við þá sem telja
hana síður góða út frá kynferðislegri sjálfsvirðingu. Þessar
niðurstöður sýna að ekki hefur náðst nægilega góður árangur á
þáttum sem varða jákvæðar hliðar kynverundar sem skipta miklu
máli í sambandi við að takast á við ýmsar aðstæður og að taka
góðar ákvarðanir um kynlíf. Fræðileg samantekt frá árinu 2013
benti til þess að kynfræðsla þar sem áhersla var lögð á jákvæðar
hliðar kynverundar leiddi til jákvæðs árangurs, til dæmis aukna
smokkanotkun (Anderson, 2013). Þá skipta áherslur kennslunnar
máli en mikilvægi þess mátti sjá í rannsókn Nurgitz o.fl. (2021) sem
skoðaði kennslu um kynheilbrigði og áhrif hennar á kynferðislegt
sjálfstraust og sjálfstrú. Niðurstöður hennar sýndu að gæði
kennslu, sem voru meðal annars skilgreind út frá efnisþáttum
hennar, hæfni kennsluaðila, aukinni þekkingu og bættum
viðhorfum nemenda, hafði jákvæð áhrif á kynferðislegt sjálfstraust
og sjálfstrú nemenda sem hafði svo í kjölfarið jákvæð áhrif á
kynferðislega ánægju þeirra. Sterk sjálfsvirðing sem og hæfnin til
að standa með sjálfum sér og sínum ákvörðunum hefur mikil áhrif
á vellíðan einstaklings, ekki síst hvað viðkemur kynheilbrigði hans
(Anderson, 2013; Haider og Burfat, 2018). Miðað við niðurstöður
þessarar rannsóknar þarf í kennslu um kynheilbrigði hér á landi að
leggja meiri áherslu á þessa þætti.
Síðustu ár hefur þörfin fyrir alhliða kennslu um kynheilbrigði
aukist verulega og er umræðan mun opnari en áður um þætti
eins og kynferðislegt ofbeldi, kynvitund og fjölbreytileika. Lögð
hefur verið áhersla á að börn og unglingar hafi greiðan aðgang
að gagnreyndum upplýsingum um kynheilbrigði (WHO og
BZgA, 2010). Skoðanir og óskir barna og unglinga á því hvernig
kennslu skuli vera háttað eru ekki síður mikilvægar og bæði
Alþjóðaheilbrigðistofnunin og Miðstöð um kynfræðslu í Evrópu
hafa bent á að með því að virða óskir þeirra og þarfir væri hægt að
auka gæði hennar (WHO og BZgA, 2010). Ef kennsla uppfyllir ekki
þarfir unglinganna og þeir tengja ekki við efnistök hennar eru þeir
ólíklegri til að vera virkir þátttakendur og telja hana ekki hafa góð
áhrif á kynhegðun sína (Harris o.fl., 2021; Mckee o.fl., 2014). Þar af
leiðandi er nauðsynlegt að taka tillit til viðhorfa þeirra. Unglingar
víða í heiminum hafa í mörg ár kallað eftir betri og fjölbreyttari
kennslu um kynheilbrigði en þrátt fyrir mikinn áhuga þeirra
þá virðist lítið hlustað á þá (Bauer o.fl., 2020; Harris o.fl., 2021;
Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir o.fl., 2019; Lóa Guðrún Gísladóttir
o.fl., 2020). Mikilvægt er að bæta úr því.
p<0,05*
a=væntitíðni undir 5 er ekki til staðar í meira en 20% reita
Tafla 5. Framhald
Ekki góð
kynfræðsla
Góð kyn-
fræðsla
Kí-
kvaðratᵃ df p-
gildi
N n % n %
Óhrædd/tt/
ur að standa
á sínu ef
kynlífsfélagi
þrýstir á
218
Mjög
ósammála 7 5 5,0 2 1,7 10,713 4 0,030*
Frekar
ósammála 16 12 11,9 4 3,4
Hvorki né 38 21 20,8 17 14,5
Frekar
sammála 67 27 26,7 40 34,2
Mjög sammála 90 36 35,6 54 46,2