Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Qupperneq 72
70 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1. tbl. 100. árg. 2024
Atvikaskráning tengd skurðaðgerðum
úrvinnsluna og sjái að skráningin leiði til öruggara umhverfis fyrir
sjúklingana (Hong og Li, 2017; Liukka o.fl., 2018).
Af áðurnefndu er ljóst að öryggismenning endurspeglast meðal
annars í því hvernig unnið er með atvik og hvernig gögnin eru
nýtt til lærdóms og áhættugreiningar og þannig má efla öryggi
í heilbrigðiskerfinu. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar hér á
landi þar sem gögn úr atvikaskráningu eru skoðuð. Teljum við
mikilvægt að bæta úr því til að auka innsýn í það hvernig vinna
má að úrbótum því tengdu og stuðla þar með að bættu öryggi og
framþróun í þjónustunni.
Markmið þessarar rannsóknar var að varpa ljósi á skráningu
óvæntra atvika sem tengdust skurðaðgerðum á völdum
deildum á Landspítala á árunum 2018–2020. Frekara markmið
rannsóknarinnar var að flokka atvikin eftir deildum, mánuðum og
árum og kanna hvort fagfólk kom með tillögur að leiðum til úrbóta
sem gætu komið í veg fyrir að atvik endurtækju sig. Einnig að
greina helstu flokka skráðra atvika sem tengjast skurðaðgerðum
sérstaklega og hvort atvikin væru skráð í rétta flokka eftir
skilgreiningum í atvikaskráningarkerfi Landspítala.
AÐFERÐ
Í rannsókninni var notuð megindleg lýsandi aðferðafræði.
Úrtak rannsóknar
Úrtakið fól í sér öll skráð atvik á skurðstofum, vöknunardeildum
og dagdeildum skurðlækninga á árunum 2018–2020 en tilgreindar
deildir komu að undirbúningi sjúklings fyrir aðgerð, aðgerðinni sjálfri
og meðferðinni fyrst eftir aðgerð. Deildir í úrtaki voru kvenlækninga-
deild 21A, dagdeild 13D, dagdeild A5, skurð-/svæfingadeild 12CD,
skurð-/svæfingadeild E5, skurðstofur kvennadeildar 23A, vöknunar-
deild 12A og vöknunardeild E6. Ekki var talið unnt að nýta gögn frá
legudeildum eða gjörgæsludeildum, sem einnig undirbúa minnihluta
sjúklinga til aðgerðar, þar sem erfitt yrði að greina atvik tengd
skurðaðgerðum frá öðrum atvikum.
Mælitæki
Núverandi atvikaskráningarkerfi á Landspítala er einfalt
skráningarkerfi sem inniheldur tólf flokka (Landspítali, 2018a),
svo sem atvik tengd tækjabúnaði og atvik tengd lyfjameðferð,
sjá töflu 1. Til að fá betri mynd af algengustu flokkum atvika
voru þau flokkuð nánar í undirflokka í þrjá af tólf aðalflokkum.
Undirflokkarnir sem koma fyrir í þessari rannsókn eru sýndir
í töflu 2. Atvikaskráningarkerfið inniheldur einnig flokkun á
alvarleikastigum atvika (Landspítali, 2017), sjá töflu 3.
Framkvæmd
Hagdeild Landspítala sótti gögn úr atvikagagnagrunni sjúklinga
og sendi þau fyrsta höfundi í læstu excel-skjali. Göngin voru
öll ópersónugreinanleg. Í gögnunum kom fram lýsing á atviki,
staðsetning atviks (deild), dagsetning og tími sem atvikið átti sér
stað sem og atvikaflokkur. Þá voru atvikin flokkuð í þrjá flokka eftir
alvarleikastigi og skráð var hvort úrvinnslu atvikanna væri lokið
eða ekki. Atvikin voru bæði skráð á tölulegu formi en einnig var
frjáls texti við hvert atvik fyrir sig þar sem hægt var að koma með
tillögur að úrbótum.
Gögnin voru lesin yfir, gaumgæfð og búin til ný gagnasöfn. Þar
sem í ljós kom að skráning atvikanna var ekki nákvæm út frá
skilgreiningum í atvikaskráningarkerfi Landspítala, var atvikunum
raðað í rétta flokka eftir skilgreiningunum.
Gagnagreining
Gerð var lýsandi gagnagreining. Fjöldi atvika eftir atvikaflokkum
var talin. Talið hversu oft var komið fram með tillögur til úrbóta.
Rangskráning skráðra atvika í atvikaflokka sem og fjöldi atvika
í undirflokkum var talin. Farið var yfir alvarleikastig atvikanna
(tafla 3) og staða úrvinnslu var skráð. Niðurstöðurnar voru settar
fram í prósentum og var varpað í skífu- og súlurit til aukins
skýrleika.
Að lokum voru gögnin greind með hliðsjón af því hvort fagfólk
skrifaði nánari lýsingu á atviki, hvers vegna fagfólk taldi að það
hefði gerst, hver viðbrögð við atviki voru og hvort fagfólk kom með
tillögur til úrbóta.
Siðfræði
Siðanefnd Landspítala veitti heimild til vinnslu upplýsinga úr
atvikaskrá Landspítala (mál nr. 9/2021 hjá nefndinni).
NIÐURSTÖÐUR
Árið 2018 voru 463 atvik skráð á umræddum deildum en 332 bæði
árin 2019 og 2020. Skráð atvik voru fleiri 2018 en 2020 á öllum
deildum nema dagdeild 13D var með færri atvik 2018 en 2020.
Skráðum atvikum á dagdeild A5 fækkaði á milli ára en 2018 voru
skráð 82 atvik en 20 árið 2019 og 16 árið 2020 (mynd 1).
Mynd 2 sýnir að sveiflur voru í fjölda skráninga á milli mánaða og
ára. Fæst atvik voru skráð í júlí, ágúst og desember eða um 6%.
Flest atvik voru hins vegar skráð í janúar og febrúar um 12%.
Mynd 1. Heildarfjöldi skráðra atvika eir deildum á árunum 2018–2020.
Mynd 2. Heildarfjöldi skráðra atvika eir eir mánuðum og árum.