Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Síða 74
72 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1. tbl. 100. árg. 2024
Í febrúar 2021 var úrvinnslu rúmlega 10% skráðra atvika enn
ólokið fyrir árin 2019 og 2020 en í um 4% tilfella var úrvinnslu ólokið
fyrir árið 2018. Samkvæmt gæðaskjali Landspítala á úrbótum að
vera lokið innan 30 daga í atvikum af flokki 1.
Á flestum deildunum var komið með tillögur til úrbóta, þ.e. í 60%
til rúmlega 80% tilfella. Ekki var um staðlaðar tillögur að ræða
heldur gat fagfólk komið með hugmyndir að úrbótum í frjálsum
texta.
Við greiningu á frjálsum texta kom í ljós að algengast var, eða í 76
tilfellum (7%), að fagfólk benti á að bætt samskipti gætu komið í
veg fyrir að atvik endurtækju sig. Einnig var minnst á í 57 tilfellum
(4%), að minna álag á fagfólk og betri mönnun gæti komið í veg
fyrir endurtekningu atvika og í 33 tilfellum (3%) var bent á að með
bættri skráningu væri hægt að koma í veg fyrir atvik af sama tagi.
Algengast var að skráð væri að bætt samskipti gætu stuðlað að
færri atvikum á skurðdeild kvenna 23A og næst á eftir komu skurð-/
svæfingadeild E5 og kvenlækningadeild 21A. Oftast var minnst á
að minna álag og/eða bætt mönnun gæti stuðlað að færri atvikum
á kvenlækningadeild 21A og vöknun E6. Þessar deildir skáru sig frá
öðrum deildum.
UMRÆÐA
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að talsvert af óvæntum
atvikum tengjast skurðaðgerðum á Landspítala. Atvikum á
deildum í úrtakinu fækkaði á milli ára á meðan heildarfjöldi
skráðra atvika á Landspítala var svipaður. Þannig voru atvik á
þessum deildum 11% af heildarfjölda atvika á Landspítala árið
2018, 8% árið 2019 og 5% árið 2020. Hins vegar fækkaði aðgerðum
einnig á milli áranna 2019 og 2020. Árið 2018 voru framkvæmdar
15.152 skurðaðgerðir, 15.354 árið 2019 en 13.455 árið 2020. Þrátt
fyrir að skráðum atvikum fækkaði á milli ára skal ítrekað að ekki
eru öll atvik skráð, þannig að ekki er hægt að draga ályktanir út
frá þessum tölum þó að þær gefi ákveðna vísbendingu (Fathi
o.fl., 2017; Halperin og Bronshtein, 2019; Rodziewicz og Hipskind,
2020; Soydemir o.fl., 2017). Aðgengileiki og gott notendaviðmót
atvikaskráningarkerfis eykur líkur á að fagfólk skrái atvik. Eins að
það sjái tilgang með skráningunni. Mikilvægt er að fagfólk sjái að
skráningin leiði til umbóta og dragi úr áhættu fyrir sjúklingana.
Það skiptir máli að stjórnendur gangi fram með fordæmi og að
virk umræða eigi sér stað um atvikin (Katz o.fl., 2020; Liukka o.fl.,
2018; Rodziewicz og Hipskind, 2020). Sömuleiðis er vitað að mikið
vinnuálag og tímaskortur er hindrun fyrir skráningu atvika (Fathi
o.fl., 2017; Halperin og Bronshtein, 2019; Hong og Li, 2017). Í frjálsa
textanum í atvikaskráningarkerfinu kom á nokkrum stöðum fram
að atvikið hefði ekki verið skráð strax eftir að það gerðist vegna
tímaskorts. Einnig kom fram að úrvinnslu um 10% skráðra atvika
frá árinu 2019 og 2020 var enn ólokið sem bendir mögulega til að
stjórnendur þurfi meiri tíma til að sinna þessum málaflokki.
Niðurstöðurnar sýna að fjöldi skráninga á óvæntum atvikum
er misjafn milli deilda en flest atvik eru skráð á skurð-/
svæfingadeild E5 og síðan á kvenlækningadeild 21A en fæst
atvik eru skráð á dagdeild 13D. Erfitt getur verið að bera saman
deildir vegna mismunandi starfsemi en hugsanlega getur þessi
munur endurspeglað mismunandi öryggismenningu og viðhorf
stjórnenda til gæðastjórnunar. Samkvæmt rannsóknum hefur
úrvinnsla atvika og endurgjöf til starfsfólks sem og jákvætt
viðhorf stjórnenda til öryggismála hvetjandi áhrif á að fagfólk
skrái atvik (Liukka o.fl., 2018; Farag o.fl., 2018). Einnig er munur
á fjölda skráðra atvika milli mánaða þar sem fæst atvik eru yfir
hásumarleyfistímann, júlí og ágúst, og einnig í desember. Skýring
á þessu getur að einhverju leyti verið vegna færri valaðgerða í
þessum mánuðum. Eins eru færri starfsmenn við störf á leyfistíma,
afleysingastarfsmenn, aukið vinnuálag og minni tími til að skrá.
Algengustu atvikin sem skráð voru í þessu úrtaki voru atvik tengd
meðferð/rannsókn, tækjabúnaði og lyfjameðferð. Af atvikum
tengdum meðferð/rannsókn voru mörg atvik skráð vegna aðgerða
sem var frestað árið 2018 en færri árin 2019 og 2020. Munur var á
milli starfsstöðva á því hvort það var skráð sem atvik að aðgerð væri
frestað eða ekki. Nánast öll atvik sem skráð voru vegna aðgerða
sem var frestað voru í Fossvogi. Meiri bráðaþjónusta er í Fossvogi
sem getur skýrt mismuninn að einhverju leyti en hugsanlega getur
menningarmunur milli starfsstöðva verið skýring. Eins er hægt að
skrá frestun aðgerða sem frávik í Orbit-kerfinu og í lok árs 2018
var gefið út gæðaskjal um að allar frestanir á aðgerð skuli vera
skráðar þar (Landspítali, 2018) en greinilegt er að fagfólk skráir
frestun aðgerða ekki á sama stað. Áhugavert væri að vita hvers
vegna aðgerðum er frestað en í núverandi atvikaskráningarkerfi
er ekki boðið upp á þá skýringu. Mikilvægt er að samræma
skráningu atvika og skilgreina vel hvaða atvik á að skrá. Leggja
þarf áherslu á að vanda vel skráningarnar (Hammoudi o.fl., 2017).
Talið er að ef fagfólk er ekki öruggt um hvaða atvik eigi að skrá
geti það leitt til vanskráningar (Fagerström o.fl., 2018; Rodziewicz
og Hipskind, 2020). Rannsóknir hafa einnig sýnt að tímaleysi og
flókið skráningarkerfi geti hamlað skráningu (Hammoudi o.fl.,
2017; Soydemir o.fl., 2017). Samkvæmt íslenskri rannsókn sem
gerð var á öryggi sjúklinga á skurðstofu á Landspítalanum árið
2009 kom í ljós að skurðhjúkrunarfræðingar voru bæði tortryggnir
gagnvart atvikaskráningu í miðlægan gagnagrunn og vissu lítið
um form og tilgang atvikaskráningar (Herdís Alfreðsdóttir og
Kristín Björnsdóttir, 2009). Hins vegar getur þessi afstaða verið
breytt í dag.
Algengt er að atvik gerist þrátt fyrir að til séu verklagsreglur og
gátlistar, t.d. voru mörg atvik skráð um að undirbúningur sjúklings
fyrir aðgerð væri ekki samkvæmt verklagi. Góðar verklagsreglur
eru til um undirbúning sjúklinga fyrir aðgerð á Landspítala en samt
verða mörg atvik vegna frávika frá þeim. Af því má draga þá ályktun
að ekki sé nógu mikil áhersla lögð á að fylgja verklagsreglum, þær
of flóknar, tafsamar eða ekki nógu aðgengilegar.
Rannsóknir hafa sýnt að í starfsumhverfi þar sem áreiti er mikið
aukast líkur á mistökum (Huang o.fl., 2018). Ólafur Guðbjörn
Skúlason (2018) gerði kerfisbundna fræðilega samantekt á
truflunum á skurðstofum og þar kemur fram að þær eru allt of
algengar. Truflanirnar hafa neikvæð áhrif á einbeitingu og athygli
fagfólks og geta mögulega valdið því að mistök séu gerð í meðferð
sjúklinga og jafnframt lengt aðgerðartíma.
Menntun og starfsþjálfun fagfólks er mikilvæg til þess að fyrirbyggja
atvik (Clapper og Ching, 2019; Teunissen o.fl., 2019). Hermiþjálfun
fagfólks þar sem þjálfuð er samvinna, samskipti og teymisþættir í
óvæntum aðstæðum, getur verið mikilvæg til að efla frammistöðu
fagfólks í krefjandi aðstæðum (Teunissen o.fl., 2019).
Á Landspítala eru byltur algengustu atvikin hjá sjúklingum sem
liggja inni (Landspítali, 2020) en fá atvik tengd byltum eru í þessu
úrtaki eins og vænta má. Algengustu skráðu atvikin voru tengd
meðferð/rannsókn, tækjabúnaði og lyfjameðferð. Af því sést að
Atvikaskráning tengd skurðaðgerðum