Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Síða 78
Ritrýnd grein | Peer review
„Sykursýki tegund 2 er alvarlegur sjúkdómur
sem þarf að hugsa um daglega:“
Reynsla einstaklinga, 65 ára og eldri, af
sykursýkismóttöku heilsugæslunnar
ÚTDRÁTTUR
Tilgangur
Til að geta eflt og bætt sykursýkismóttöku fyrir einstaklinga ≥ 65 ára með
sykursýki tegund 2 á vegum heilsugæslunnar er mikilvægt að skilja og þekkja
reynslu og væntingar þeirra til þjónustunnar. Tilgangur rannsóknarinnar var
að fá fram reynslu og væntingar einstaklinga ≥ 65 ára á sykursýkismóttöku
á vegum heilsugæslunnar.
Aðferð
Eigindleg rannsóknaraðferð, gagnaöflun var með rýnihópaviðtölum
og eigindlegri aðleiðandi innihaldsgreiningu beitt við úrvinnslu gagna.
Skilyrði fyrir þátttöku var að vera ≥ 65 ára, með sjúkdómsgreininguna
sykursýki tegund 2. Þátttakendur voru 14 einstaklingar á aldrinum 66 til 82
ára, átta konur og sex karlar sem skipt var í fjóra rýnihópa. Viðtalsrammi
rýnihópaviðtala var saminn út frá fræðilegu lesefni og tilgangi
rannsóknarinnar.
Niðurstöður
Aðalþema rannsóknarinnar „Aukin meðvitund um að sykursýki tegund 2
er alvarlegur sjúkdómur sem þarf að hugsa um daglega“ var undirliggjandi
viðhorf þátttakenda til sjúkdómsins. Reynsla sem hefur áhrif á öryggis- og
vellíðunartilfinningu var rauði þráðurinn í rannsóknarniðurstöðunum.
Regluleg innköllun í sykursýkismóttöku, utanumhald og eftirlit var
þátttakendum mjög mikilvægt. Skortur á fagfólki og tíðar mannabreytingar
drógu úr öryggistilfinningu þátttakenda. Þátttakendur gerðu sér grein fyrir
eigin ábyrgð á heilsu sinni en fannst lítil áhersla vera lögð á andlega líðan
og heilsu í sykursýkismóttökunni. Einnig fannst þeim vera skortur á fræðslu
um fylgikvilla sykursýkinnar svo sem um sykurfall og aukaverkanir lyfja.
Almennt voru þátttakendur ánægðir með sykursýkismóttöku á vegum
heilsugæslunnar.
Ályktun
Öryggis- og vellíðunartilfinning er mjög mikilvægur þáttur fyrir einstaklinga
≥ 65 ára með sykursýki tegund 2, sem álitu sjúkdóminn alvarlegan. Það
að fagaðili hafði umsjón með innköllun í eftirlit og að hitta fagaðila
reglulega skiptir máli. Hjúkrunarfræðingar eru í lykilstöðu til að sinna
teymisstjórahlutverki í sykursýkismóttökum vegna heildrænnar nálgunar
þeirra á viðfangsefnið og faglegrar þekkingar. Niðurstöðurnar geta
nýst hjúkrunarfræðingum og öðrum fagstéttum við að efla og styrkja
sykursýkismóttöku á vegum heilsugæslunnar.
Lykilorð
Eldra fólk, sykursýki tegund 2, heilsugæsla, öryggistilfinning, rýnihópar,
eigindleg innihaldsgreining.
HAGNÝTING
RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA
Hvaða nýjungar koma fram í
niðurstöðum þessarar rannsóknar?
Öryggistilfinning einstaklinga 65 ára og eldri
með sykursýki tegund 2 og eru skjólstæðingar
sykursýkismóttöku heilsugæslunnar.
Hún er mjög mikilvægur þáttur sem
hjúkrunarfræðingar og annað fagfólk þarf
að hafa í huga við skipulagningu og þróun
sykursýkimóttöku á vegum heilsugæslunnar.
Hvernig má hagnýta niðurstöður
rannsóknarinnar í hjúkrun eða
íslenskri heilbrigðisþjónustu?
Rannsóknarniðurstöður dýpka og auka
skilning á þáttum sem eru mikilvægir fyrir
skjólstæðinga sykursýkismóttöku sem
hjúkrunarfræðingar vinna með, til dæmis
að fræða um andlega líðan, sykurfall og
aukaverkanir lyfja.
Hvaða þekkingu bæta niðurstöður
þessarar rannsóknar við
hjúkrunarfræði?
Það hefur ekki áður svo höfundar viti til
verið gerð eigindlega rannsókn á þessu efni
á Íslandi og því eru þessar niðurstöður ný
viðbót í faglega þekkingu á þessu sviði.
Hver geta áhrif rannsóknarinnar orðið
á störf hjúkrunarfræðinga?
Niðurstöðurnar geta verið gagnlegar fyrir
hjúkrunarfræðinga og aðrar fagstéttir
sem koma að sykursýkismóttöku á vegum
heilsugæslunnar við frekari eflingu og mótun
á sykursýkismóttöku í heilsugæslunni.
doi: 10.33112/th.100.1.4