Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Síða 85
eitt af aðalmarkmiðum með sykursýkismóttöku heilsugæslunnar
(Þíh, 2019). Norsk eigindleg rannsókn á hlutverkaskipan meðal
fagaðila sem koma að meðferð fólks með sykursýki sýndi að
hjúkrunarfræðingar og aðrar fagstéttir en læknar telji það til
sinnar ábyrgðar að halda utan um sjúklingafræðslu og stuðning. Í
sömu rannsókn kom fram að skjólstæðingar sem höfðu hitt sama
hjúkrunarfræðing yfir ákveðið tímabil sýndu batnandi árangur í
blóðsykurstjórnun (Sørensen o.fl., 2020).
Almennt voru þátttakendur ánægðir með þá heilbrigðisfræðslu
sem þeir höfðu fengið um sykursýki tegund 2 hjá heilsugæslunni,
þó vantaði að breikka fræðsluna og útvíkka hana meira. Allir
höfðu fengið fræðslu um hreyfingu og mataræði en fáir höfðu
fengið einhverja fræðslu um andlega líðan, aukaverkanir lyfja,
eða sykurfall, orsakir þess, einkenni og afleiðingar. Það er í takt
við niðurstöður Hermann o.fl. (2021) í yfirlitsgrein um sykurfall
meðal aldraðra sem bjuggu heima og fengu heimahjúkrun.
Þeirra niðurstöður bentu til að lítil áhersla var lögð á fræðslu um
fylgikvilla sykursýki svo sem sykurfall og afleiðingar þess en meiri
áhersla var lögð á tíðni og áhættuþætti sykurfalls.
Að bera ábyrgð á eigin heilsu og muna það
Þátttakendurnir gerðu sér grein fyrir ábyrgð sinni á eigin heilsu.
Eins og rannsóknarniðurstöður Guðrúnar Elínar Benónýsdóttur
o.fl. (2009) sýndu, vilja aldraðir taka aukinn þátt í ábyrgð á eigin
heilsu. Hér töluðu þátttakendur hins vegar um að þeir treystu ekki
alltaf á minni sitt og því væri mikilvægt að fagaðilar meðal annars
hefðu umsjón með að kalla þá inn í eftirlit. Því getur það verið
mikilvægt að fjölskylda eða nánustu ættingjar séu þátttakendur
í heilbrigðisfræðslu og að fræðslan sé einstaklingsmiðuð og
taki tillit til þarfa og getu einstaklinga til að skilja fræðsluna og
fylgja henni. Í klínískum leiðbeiningum frá ADA er fjallað um að
framkvæma reglulegt minnispróf til að skima fyrir heilabilun
og til að tryggja réttan skilning á meðferð og fræðslu (Draznin
o.fl., 2022). Minnispróf eru ekki hluti af reglulegu skipulagi í
sykursýkismóttöku í dag. Hins vegar gæti það orðið reglulegur
liður í sykursýkismóttöku hjá hjúkrunarfræðingi í heilsugæslu.
Reynsla höfunda af rannsóknum og vinnu með fólki með sykursýki
og eldra fólki er styrkleiki rannsóknarinnar. Einnig er það styrkleiki
rannsóknarinnar að rödd þátttakenda heyrist. Þess var gætt að
leyfa öllum þátttakendum að tala og séð til þess að enginn einn
talaði það mikið að aðrir kæmust ekki að. Fyrsti höfundur hefur ekki
áður notað rýnihópa sem rannsóknaraðferð og er þar af leiðandi
ekki með neina reynslu í því að stjórna umræðum í slíkum hópum.
En samkvæmt Muijeen o.fl. (2020) getur reynsla rannsakanda
haft áhrif á flæði í viðtölum innan rýnihópa. Takmarkaður fjöldi
þátttakenda og heilsugæslustöðva sem komu að rannsókninni er
veikleiki rannsóknar.
LOKAORÐ
Sykursýkismóttaka á vegum heilsugæslunnar er mikilvæg fyrir
einstaklinga ≥65 ára með sykursýki tegund 2. Utanumhald og
regluleg innköllun í sykursýkiseftirlit eykur öryggis- og vellíðunar-
tilfinningu þeirra. Hjúkrunarfræðingar geta eflt móttökur fyrir fólk
með sykursýki með því að gæta að því að kalla fólk inn til eftirlits
reglulega. Bæta þarf heilbrigðisfræðslu sérstaklega með áherslu
á aukaverkanir lyfja og fylgikvilla sykursýki svo sem um hættu
á blóðsykursfalli. Einnig er mikilvægt að hjúkrunarfræðingar
auki áherslu á andlega heilsu og líðan þessa skjólstæðingahóps.
Hjúkrunarfræðingar eru vel til þess fallnir að sinna starfi
teymisstjóra sem hefur yfirsýn og eftirlit með skjólstæðingum
heilsugæslunnar með sykursýki tegund 2, vegna sinnar heildrænu
nálgunar og faglegrar þekkingar.
Mikilvægt er að efla og styrkja heilsueflandi móttökur svo sem
sykursýkismóttökur á vegum heilsugæslunnar, sérstaklega ef
tekið er tillit til framtíðarspár þar sem spáð er auknum fjölda
eldri einstaklinga og aukinni tíðni sykursýki tegund 2 því hún er
alvarlegur sjúkdómur sem þarf að hugsa um daglega.
ÞAKKIR
Kærar þakkir fá þátttakendur í rannsókninni fyrir að gefa sér
tíma til að taka þátt í rýnihópaviðtölunum. Fagstjórar hjúkrunar
hjá heilsugæslustöðvum sem aðstoðuðu mig við að finna
þátttakendur í rannsóknina fá mínar bestu þakkir.
Ritrýnd grein | Peer review