Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Blaðsíða 100
98 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1. tbl. 100. árg. 2024
(2020) í Brasilíu voru að það skorti þjónustu fyrir einstaklinga
með mikla offitu. Fram kom að helst vantaði úrræði og tilvísun
í úrræði, vilja til meðhöndlunar, þekkingu og styttri biðtíma.
Skjólstæðingarnir óskuðu eftir samfelldri meðferð með fræðslu og
góðri eftirfylgni, veittri af sérhæfðu heilbrigðisstarfsfólki sem sýndi
þeim virðingu. Bornhoeft (2018) og Holt og Hughes (2021) bentu
svo á að þekkingarskortur heilbrigðisstarfsfólks á sjúkdómnum
og úrræðum, fordómar heilbrigðisstarfsfólks, vöntun á fræðslu
skjólstæðinga og slæm reynsla af heilbrigðiskerfinu væru allt
þættir sem hindruðu árangursríka meðhöndlun einstaklinga með
offitu.
Rannsóknir sýna að einstaklingar með offitu hafi upplifað að heil-
brigðisstofnanir séu ekki tilbúnar að taka á móti þeim. Það vanti
m.a. sterkbyggð húsgögn og búnað auk fatnaðar í öllum stærðum.
Sérstaklega er talað um skort á blóðþrýstingsmansettum í réttum
stærðum og vigtum fyrir einstaklinga með offitu (Conz o.fl., 2020;
Woods o.fl., 2016). Skv. Woods o.fl. (2016) hafa framleiðendur
búnaðar verið að taka á þessum vanda á síðustu árum. Einnig hafa
rannsóknir sýnt að hluti heilbrigðisstarfsfólks sé hugsanlega með
þyngdarfordóma, telji einstaklinga með offitu vanta viljastyrk til
að lifa heilbrigðum lífsstíl og vilji síður sinna þeim (Goss o.fl., 2020;
Robstad o.fl., 2019).
Þrátt fyrir aukna þekkingu og vitundarvakningu meðal heil-
brigðisstarfsfólks á sjúkdómnum offitu virðast þyngdarfordómar
sem og ófullnægjandi þjónusta enn vera til staðar (Warr o.fl.,
2021). Fyrstu klínísku leiðbeiningarnar á Íslandi um meðferð
fullorðinna einstaklinga með offitu á vegum Embættis landlæknis
komu út 2020 (Erla Gerður Sveinsdóttir o.fl., 2020). Samtök fólks
með offitu á Íslandi voru stofnuð 2023 (SFO, e.d.). Markmið
þessara samtaka er að bæta þjónustu og auka fræðslu til fagfólks
og félagsmanna. Leit að íslenskum rannsóknum um efnið bar
ekki árangur. Tilgangur rannsóknarinnar var að bæta þekkingu
og fá dýpri skilning á því hver reynsla Íslendinga með offitu væri
af heilbrigðiskerfinu. Rannsóknarspurningin var: Hver er reynsla
einstaklinga með offitu af heilbrigðiskerfinu?
AÐFERÐ
Notuð var eigindleg rannsóknaraðferð. Gögnum var safnað með
því að taka rýnihópaviðtöl og gögnin greind með eigindlegri
aðleiðandi innihaldsgreiningu (EAI) (Graneheim og Lundman,
2004), sjá töflu 2. Í rýnihópum mætist fólk með sameiginleg
einkenni eða reynslu og er stýrt í markvissa umræðu. Kostir
rýnihópaviðtala umfram einstaklingsviðtöl eru að ná má til fleiri
einstaklinga með færri viðtölum og oft fæst meiri fjölbreytni í
svörum (Sóley Sesselja Bender, 2021).
Þátttakendur
Notað var tilgangsúrtak. Leitast var eftir að finna þátttakendur með
greinda offitu eða líkamsþyngdarstuðul >30 kg/m2. Auglýst var
eftir þátttakendum á samfélagsmiðlum. Önnur þátttökuskilyrði
voru reynsla af heilbrigðiskerfinu, að einstaklingarnir væru á
aldursbilinu 18-75 ára, gætu talað og skilið íslensku og væru
tilbúnir að tjá sig í rýnihópi.
Þátttakendur voru 18. Meirihlutinn var konur og voru 3-6 þátt-
takendur í hverjum hóp. Mælt er með að í rýnihópum séu 4-12
einstaklingar (Sóley Sesselja Bender, 2021). Helmingur þeirra
hafði farið í efnaskiptaaðgerð. Til að fá sem fjölbreyttasta
reynslu fólks með offitu af heilbrigðiskerfinu var ákveðið að allir
greindir með offitu, hvort sem þeir höfðu farið í efnaskiptaaðgerð
eða ekki, gætu tekið þátt í rannsókninni. Reynt var að hafa
jafnt hlutfall þeirra sem höfðu farið í efnaskiptaaðgerð og ekki í
hverjum hóp. Allir þátttakendurnir höfðu langa sögu um offitu
og því flestir með langa reynslu af heilbrigðiskerfinu. Margir voru
auk offitu með aðra sjúkdóma, bæði tengda og ótengda offitunni.
Í töflu 1 má sjá lýsingu á bakgrunni einstaklinga. Af þeim 31
þátttakanda sem bauð sig fram mættu 18 í viðtölin eða 58%.
Framkvæmd
Viðtalsrammi var saminn út frá fræðilegum heimildum (Conz
o.fl., 2020; Farrell o.fl., 2021; Phelan o.fl., 2015/2022), reynslu og
þekkingu höfunda og hafður til hliðsjónar við viðtölin. Gögnum
var safnað með fjórum rýnihópaviðtölum í febrúar og mars 2022.
Þrjú viðtalanna voru tekin í sal Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis-
ins og eitt var fjarviðtal í gegnum tölvu. Hvert viðtal tók tæpar tvær
klukkustundir. Báðir höfundar voru viðstaddir fyrri tvö viðtölin
en fyrri höfundur viðstaddur seinni tvö. Viðtölin voru tekin upp,
þau skráð og þeim svo eytt.
Gagnagreining
Viðtölin voru greind með EAI sem er kerfisbundin og hlutlæg
rannsóknaraðferð. Aðferðin dregur fram ákveðna fleti á viðfangs-
efninu og þykir bæta skilning á því (Elo og Kyngäs, 2008). Báðir
höfundar sáu um gagnagreiningu í viðtölum og að viðtölum
loknum með því að hlusta á gögnin og skoða afrit. Greiningin
hefst með því að skrá athugasemdir í viðtölunum sjálfum og
svo við hlið textans sem er skrifaður upp. Gögnin voru greind
í merkingareiningar sem voru svo þéttaðar þar sem textinn er
dreginn saman. Einingarnar voru svo kóðaðar og flokkaðar í þemu
sem eru niðurstöður greiningarinnar. Þemun lýstu endurtekinni
hegðun eða reynslu þátttakenda sem var gegnumgangandi.
Þemum og undirþemum voru gefin lýsandi nöfn (Graneheim
og Lundman, 2004). Dæmi um gagnagreiningu má sjá í töflu 2.
Mettun náðist út frá gögnunum. Mettun er þegar ný viðtöl bæta
ekki nýjum upplýsingum við gagnasöfnun. Almennt þarf 3-6
rýnihópa til að ná mettun (Sóley Sesselja Bender, 2021).
Tafla 1. Bakgrunnsupplýsingar
Breytur Fjöldi (N=18)
Kyn
Karlar
Konur
4 (22,2%)
14 (77,8%)
Aldur
26-69 ára,meðalaldur 52,6 ára
Búseta
Höfuðborgarsvæðið
Landsbyggðin
11 (61,1%)
7 (38,9%)
Efnaskiptaaðgerð
Já
Nei
9 (50%)
9 (50%)
Allir verið lengi með offitu
Alltaf
Frá unglingsaldri
>11 ár
23,3 (14)
23,3 (14)
53,3 (32)
Líkamsþyngdarstuðull (LÞS).
Ef einstaklingar höfðu farið í efnaskiptaaðgerð
þá fyrir aðgerð
LÞS 30-34,9 kg/m2
LÞS 35-39,9 kg/m2
LÞS 40-44,9 kg/m2
LÞS 45-49,9 kg/m2
LÞS >50 kg/m2
1 (5,6%)
6 (33,3%)
4 (22,2%)
4 (22,2%)
3 (16,7%)
Það er eðlilegt að tala um offitu en það er ekki sama hvernig það er gert