Helgarpósturinn - 24.06.1987, Blaðsíða 2

Helgarpósturinn - 24.06.1987, Blaðsíða 2
UNDIR SÓLINNI Flóra á flótta! Eldsnemma að morgni keypti ég bensín á bílinn, mældi olíu og leit í vatnskassann. Svo setti ég upp sólgleraugun og ók á lögleyfðum hámarkshraða til fundar við Móður náttúru. Viðlegubúnaðurinn var tryggilega festur á toppgrindina og farþegarnir í sætin. Auðvit- að voru nauðsynlegustu varahlutir, eins og kerti, platínur, viftureim og hjöruliðskrossar, líka á vísum stað. Það er trú mín, eða hjátrú, að séu þessir varahlutir hafðir meðferðis geti ekkert bilað. Ef til þess kemur einhvern tím- ann að eitthvað bilar lendi ég hinsvegar í vandræðum, því þó ég viti hvað hjöruliðs- kross er og þekki hann frá öðrum krossum veit ég ekki hvar hann á að vera í bílnum. Ég segi ekki að ég hafi sungið við raust undir stýri við upphaf ferðarinnar, þvi börn- in mín hafa vanið mig af slíku tónleikahaldi með óvæginni gagnrýni. En mér er óhætt að segja að ég hafi verið glaður og reifur þegar ég lagði á Hellisheiðina á leiðinni austur á bóginn. Sól skein í heiði, bíllinn sveif eftir veginum, án þess að ég þyrfti að hafa af því mjög mikil afskipti, umferðin var lítil og allt í himnalagi með tilveruna. Um hádegi voru sólgleraugun komin í hanskahólfið og ég í fýlu þar sem ég hallaði mér fram yfir stýrið og rýndi út í sortann, bölvandi bændum. Sólin skein að vísu enn einhvers staðar uppi í háloftunum, en geislar hennar náðu ekki gegnum mökkinn. Við höfðum verið svo óheppin að verða á vegi Flóru íslands, sem var á flótta undan sauð- kindinni. Við nánari umhugsun sá ég að það var Ijótt af mér að bölva bændum og þeir ekki slíkra trakteringa maklegir, því nú bendir allt til þess að moldrok sé þjóðinni hagkvæmt. Það hefur nefnilega komið fram alveg ný kenn- ing um eðli þess fyrirbæris, sem áður var kallað ,,gróðureyðing“ eða „uppblástur". Samkvæmt þessari kenningu mun fyrirbæri þetta (sem af ábyrgðarlausum aðilum, fjand- samlegum bændastétt og sauðkindinni var kallað ,,gróðureyðing“ eða „uppblástur") sem sagt ekki vera til. Þessi nýja kenning var kynnt opinberlega í fyrsta sinn í sjónvarpinu fyrir skömmu. Þar birtist á skjánum háleitur bóndi sem stóð á grænni torfu í miðri auðninni og tók því víðs- fjarri að landið umhverfis hann hefði blásið upp eða að gróður þar hefði eyðst. Hitt væri sönnu nær að gróðurinn hefði flutt sig til undan ágangi. Komi þessi kenning illa heim og saman við þaö sem menn lærðu í grasa- fræði í barnaskóla verður bara að hafa það. Gróður getur samkvæmt kenningunni skot- ið rótum, en það er ekki þar með sagt að hann verði rótfastur. Kenningin er sem sagt sú, að þegar gróðr- inum þykir nóg komið af ágangi grasbíta færi hann sig um set. En þegar gróðurinn rennur svona af hólmi fyrir rollunum verður jarðvegurinn eftir og ef ekkert er til þess að halda honum niðri þegar hreyfir vind verður úr því moldrok. Það var einmitt þess konar moldrok, sem við lentum í, þar sem ég hall- aði mér fram yfir stýrið og rýndi út í sortann, eins og gömul sæugla, bölvandi bændum að ósekju. Og moldin sem byrgði okkur sýn var á leiðinni út á Atlantshaf. Greindir lesendur sjá eflaust nú þegar galla á kenningu bónda. Hann er sá að ef gróður- inn heldur undan og varnarlaus moldin sem undir honum var fýkur á haf út getur gróður- inn ekki átt þangað afturkvæmt, og þannig hlýtur smám saman að fjúka úr flestum skjól- um gróðursins. Þegar þar kemur sögu hlýtur Flóra íslands að flýja land líka. Hversu ólíklegt, sem mönnum kann að finnast það, opnar kenning bóndans góða engu að síður leið til þess að bæta ástandið. Og aðgerðir í þá átt eru þegar hafnar! Því samkvæmt kenningunni liggur vandinn ekki í eyðingu gróðurs, sem enn er til staðar, en skrapp bara frá. Vandinn liggur í moldar- skorti! Gott og vel, segja bændur einbeittir á svip, ef gróðurinn skilur moldina eftir vind- inum að bráð er ekki um annað að ræða en að búa til nýja mold, því ekki viljum við missa allan gróður landsins til útlanda. Það er nú meira en bara að segja það að búa til mold, segja efasemdarmenn og hrista hausinn áhyggjufullir yfir þessari bannsettu vitleysu. Og það er alveg rétt að það er ekki auðvelt að búa til mold, nema úr réttum efn- um. En hold er mold eins og einhver benti réttilega á fyrir löngu og þó hann hafi átt við mannshold í guðfræðilegum skilningi vitum við að það sama á við um kindahold í líf- fræðilegum skilningi. Og nú vill einmitt svo skemmtilega til að það er nóg til af kinda- kjöti í frystigeymslum víða um land. Nú er unnið að því að koma þessu frosna holdi fyrir neðanjarðar í höfuðborgarlandinu og moka yfir það. Víst er það dýrt, en við megum hvergi spara í viðhaldi á okkar ástkæru fóst- urjörð og úr þessu frosna kindaholdi verður frjósamur jarðvegur þegar fram líða stundir. eftir Ólaf Bjarna Guðnason Sumum lesendum kann að sýnast þetta óhagkvæm aðferð við moldarflutninga og þeir segja eflaust: „Hvers vegna að leggja í svo dýra og seinlega aðferð við jarðvegs- flutninga? Hvers vegna ekki að senda gröfur og vörubíla upp í sveit eftir mold og aka henni beinleiðis í bæinn?" Hagspakir menn skildu það fyrir löngu, að í raun var seinlegri aðferðin á allan hátt hag- kvæmari en sú að nota gröfur og vörubíla. Staðreyndin er sem sagt sú, að það skapar fleiri mönnum atvinnu og tekjur að flytja mold til borgarinnar í formi frosinna kinda- skrokka. Það verður ljóst við einfaldan sam- anburð. Sumir bændur nýta tún sín i eitt skipti fyrir öll með því að sneiða ofan af þeim grasrótina og selja hana borgarbúum sem túnþökur á garða. Þegar þeir hafa þannig flegið land sitt geta þeir lítið annað gert en snúa sér að minkarækt eða ferðamanna- þjónustu. Bændur sem stunda jarðvegssölu í formi kindaskrokka eru þjóðarbúinu mun drýgri auðsuppspretta. Þeir kaupa dýran vélakost og áburð og fóðurbæti, byggja stöðugt ný- tískulegri fjárhús og hlöður og margt fleira. Þeir þurfa samgöngur, þjónustu, afþreyingu og annað sem til menningar heyrir, auk þess sem þarf heljarmikið apparat til þess að slátra kindunum þeirra, frysta þær og geyma skrokkana í nokkur ár áður en þeir eru grafnir. Það borgar sig nefnilega ekki grafa skrokkana strax, því fyrst má hafa dágóðar tekjur af því að geyma þá. Það verður þannig augljóst við nánari um- hugsun að það er miklu meira svigrúm til verðmætasköpunar við búskap, sem miðar að jarðvegsframleiðslu úr frosnum kinda- skrokkum, en með beinu aðferðinni. Samt eru menn að kvarta yfir því, að bændur spilli lífríki landsins og að gróður á hálend inu sé að hverfa undan ofbeit. Vegna þessa þyrla menn upp hinu mesta moldviðri og vilja bæta úr þessum svokallaða vanda með því að draga úr sauðfjárbúskap. Það væri glapræði! Ef jarðvegur er að fjúka upp er besta ráðið til úrbóta að auka sauðfjár- rækt! Þá yrðu til umframbirgðir af frosnu kindakjöti, sem mætti nýta til frekari mold- arframleiðslu. Þannig yrði til jarðvegur, sem komið gæti í staðinn fyrir moldina sem fýkur út á haf þegar gróðurinn flýr undan ágangi sauðfjár. Það kann að virðast þversagna- kennt, en besta ráðið gegn uppblæstri vegna ofbeitar er það að auka sauðfjárrækt. Annað mál er það og til athugunar fyrir stjórnmálamenn í framtíðinni, að það gæti valdið alvarlegri byggðarröskun ef allir kindaskrokkar landsbyggðarinnar yrðu nýtt- ir til þess að stækka kjördæmið Reykjavík enn frekar en orðið er. Það er auðvitað rétt- lætismál fyrir landsbyggðina að kinda- skrokkarnir séu grafnir á sínum heimaslóð- um. En þessu verður eflaust kippt í lag innan tíðar. AUGALEIÐ 2 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.