Morgunblaðið - 07.11.2007, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 07.11.2007, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 7. NÓVEMBER 2007 15 MENNING Á HÁSKÓLATÓNLEIKUM í Norræna húsinu kl. 12.30 í dag leikur Íslenski saxófónkvart- ettinn Saxófónkvartett í B-dúr eftir Alexander Glazunov og er þetta í fyrsta sinn sem verkið er flutt hér á landi. Íslenska saxófónkvartettinn skipa Vig- dís Klara Aradóttir, Sigurður Flosason, Peter Tompkins og Guido Bäumer. Í kvartettinum er eins og Glazunov líti til baka á tónlistarsöguna. Ýmislegt í fyrsta þætti minnir á Dvorak, Wagner og Brahms. Annar kaflinn, rúss- neskt sálmalag með tilbrigðum, vísar í Chopin og Schumann. Tónlist Saxófónkvartett í söguskoðun KÓMEDÍULEIKHÚSIÐ frumflytur ljóðaleikinn Ég bið að heilsa á veitingastaðnum Við pollinn á Ísafirði í kvöld kl. 20. Tilefnið er 200 ára fæðing- arafmæli listaskáldsins góða, Jónasar Hallgrímssonar. Flutt verða yfir 20 ljóð í tali og tón- um, allt frá Móðurást til Ég ætlaði mér að yrkja og allt þar á milli. Elfar Logi Hannesson flytur ljóðin og með honum verður Þröstur Jóhannesson sem flytur frum- samin lög við ljóð Jónasar. Þess má geta að Þröst- ur vakti mikla athygli fyrir sinn fyrsta geisladisk, Sálmar, sem kom út fyrir nokkru. Bókmenntir Ljóðaleikurinn Ég bið að heilsa Jónas Hallgrímsson KRISTJANA Stefánsdóttir söngkona, Kjartan Valdemars- son, píanóleikari, Gunnar Hrafnsson bassaleikari og Pét- ur Grétarsson trommuleikari koma fram á tónleikum Múlans á Domo í kvöld kl. 22. Þau leita í smiðju Richards Rodgers og leika valin lög í eigin útsetn- ingum af þeim rúmlega 900 sem hann samdi. Frá upphafi djassins hafa listamenn tekið vinsæl dægurlög og spunnið á þau nýja búninga. Lög Richards Rodgers hafa náð slíkri fótfestu meðal djassleikara að ekki verður framhjá þeim litið þegar djasssagan er skoðuð. Tónlist Spunnið í Richard Rodgers í Múlanum Kristjana Stefánsdóttir Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is NÝTT verk eftir Gunnlaug Eg- ilsson, dansara og danshöfund við Konunglega ballettinn í Stokk- hólmi, verður frumsýnt á stóra sviði Konunglega leikhússins þar í borg á föstudagskvöld. „Í fyrra samdi ég dansverkið Ossuarium fyrir minna svið leik- hússins. Síðan þá hef ég verið að vinna workshop-sýningar, til að prófa mig áfram með smærri verk. Þetta hefur undið upp á sig, þar til stjórnandi leikhússins bað mig að semja verk fyrir þessa sýningu,“ sagði Gunnlaugur í samtali við Morgunblaðið í gær. Hann er yngstur fjögurra danshöfunda sem eiga verk á sýningunni og segist vera „byrjandi“ í samanburði þá. „En það er gaman að fá tækifæri til að skapa þetta verk.“ Gunn- laugur byrjaði að skissa verkið í júní, en sjálf danssmíðin tók um mánuð. Gunnlaugur kveðst láta ballerínurnar sex sem dansa í verk- inu dansa í táskóm, og spurningin er hvað það þýði fyrir verkið. „Það er ákveðin fagurfræði í því að dansa á táskóm. Þeir tilheyra róm- antíska tímabilinu frá 18. öld. Klassískur ballett reynir að vinna á móti þyngdaraflinu og ballerínur eiga að vera eins og svífandi dísir. Ég vildi fara þá leið að hafa þær í táskóm, en líka rúlla sér á gólfinu. Ég er að reyna að finna leið til að blanda því klassíska og hefðbundna við nútímadans, án þess að það verði árekstrar, og að það renni saman.“ Afturför eða úrkynjun Nafn verksins er Degenerator, sem getur þýtt afturför, og jafnvel úrkynjun, og hefur vísun í hug- myndina að baki verkinu, sem Gunnlaugur segist vera að sýna form sem myndast og verða klass- ísk, þar til þau fara að hrörna og eyðast, meðan ný myndast. „Ég heyrði tónlist eftir jafnaldra minn Marcus Fjällström. Verkið er skrif- að fyrir sinfóníuhljómsveit og bygg- ist á klassískum formum þar til það fer að veikjast og detta í sundur. Hann notar hljóðheim sem maður þekkir úr klassískri tónlist en snýr upp á hann þar til allt bráðnar saman, trompetleikarar blása lofti og allt hrynur, – þar til það rís aft- ur og breytist aftur í rómantíska prógrammtónlist.“ Gunnlaugur seg- ir að þegar hann semji dans fyrir konunglega ballettinn í Stokkhólmi verði hann að nýta þá kunnáttu sem er til staðar. „Maður verður samt að þora að taka hana einu skrefinu lengra, þannig að dansinn höfði til dagsins í dag.“ Gunnlaugur dansar ekki sjálfur í verkinu og segir gott að prófa vængina sem danshöfundur. „Það á vel við mig. Í allri list er alltaf hægt að finna eitthvað að – og eng- inn fyrirmyndarstaður til. Það get- ur orðið listrænn ágreiningur um allt. En þegar ég er sjálfur að semja fæ ég sjálfur að skapa minn heim á sviðinu og líka þá stemn- ingu sem ég vil hafa í æfingastúd- íóinu sem mér finnst að eigi að vera þegar fólk iðkar listina.“ Gunnlaugur hannar einnig leik- mynd verksins. Gunnlaugur hefur bloggað á vef Konunglega leikhússins um verkið frá því að æfingar hófust. Nýtt verk eftir Gunnlaug Egilsson frumflutt hjá Konunglega leikhúsinu í Svíþjóð Með og á móti þyngdaraflinu Degenerator Frá æfingu á verki Gunnlaugs. „Ég vildi fara þá leið að hafa þær í táskóm, en líka rúlla sér á gólfinu,“ segir hann um ballerínurnar. TENGLAR ............................................. http://www.operan.se/ SKILABOÐASKJÓÐAN eftir Þor- vald Þorsteinsson verður barna- sýning leikársins á Stóra sviði Þjóðleikhússins og verður frum- sýning í kvöld. Verkið var fyrst flutt í Þjóðleik- húsinu árið 1993, en nú býðst nýrri kynslóð ungra áhorfenda að hverfa inn í ævintýraheim höfundarins. Sagan er bæði skelfileg en líka mjög yndisleg, því eins og í góðum ævintýrum endar allt vel. Putti litli býr í sjálfum Ævintýraskóginum, þar sem öll ævintýrin gerast, ásamt mömmu sinni, henni Möddu- mömmu saumakonu. Nátttröllið rænir Putta þegar hann laumast út í nóttina í leit að alvöru ævintýrum en Snigill njós- nadvergur heyrir orðalykilinn sem opnar hellinn. Nú þarf bara að safna öllum íbúum ævintýraskóg- arins saman til að kalla orðalyk- ilinn og bjarga Putta áður en sólin hverfur bak við Sólarlagsfjall. En þegar illþýðið í skóginum; úlfurinn, nornin og stjúpan, neita að leggja góðum málstað lið, versnar heldur en ekki í því. Það er þá sem Dreitill skógardvergur, eigandi Skilaboðaskjóðunnar, fær bestu hugmynd sem hann hefur fengið á allri sinni löngu en smá- vöxnu ævi. Hafi einhver ykkar, lesendur góðir, aldrei séð skilaboðaskjóðu, þá er það skjóða sem gleymið fólk getur sett skilaboð í, en Dreitill, sem er afspyrnugleyminn, notar hana undir skilaboð og saumapant- anir sem eiga að fara til Möddu- mömmu. Morgunblaðið náði tali af Putta litla í gær til að forvitnast um af- drif hans í þessum hremmingum. Ertu nokkuð hræddur við ljótu verurnar í ævintýraskóginum? „Já, ég er hræddur. Þetta eru vondar verur eins og Nátttröll. Ekkert sérstaklega huggulegar verur. Nátttröllið fer með mig í hellinn sinn og lokar mig þar inni.“ Hvernig kanntu við þig í hell- inum hjá Nátttröllinu? „Það er ekkert sérlega skemmti- legt. Ég reyni að sleppa út og kalla á hjálp til vina minna, en þeir heyra bara ekkert í mér.“ Hverjir eru bestu vinir þínir? „Dreitill er besti vinur minn, en Snigill njósnadvergur er næstbesti vinur minn.“ Hvers vegna í ósköpunum geng- ur þeim svona illa að finna þig í í helli Nátttröllsins? „Sko, þau þurfa að kalla orða- lykilinn, en geta ekki kallað hann nógu hátt. Þau verða að finna alla, alla í skóginum nema Nátttröllið, til að geta opnað hellinn.“ Hvernig fara vinir þínir að því að fá Nornina og úlfinn til að hjálpa til að leita að þér, þegar þau vilja það ekki? „Þeir reyna og reyna, og Dreitill fær þá bestu hugmyndina sína, að plata úlfinn og nornina til að segja orðalykilinn, og setur hann svo í skilaboðaskjóðuna.“ Putti, ég held að ég viti orðalyk- ilinn. Er það ekki: Harka parka inn skal arka? Getum við í salnum notað hann til að hjálpa vinum þín- um að finna þig? „Já, með því að öskra orðalyk- ilinn með okkur eins hátt og allir geta.“ Af hverju eru allir svona góðir við þig? „Ég er bara krakki, og það eru allir bara svona góðir vinir mínir.“ Leikstjóri Skilaboðaskjóðunnar er Gunnar Helgason, Hrafn Bogdan Haraldsson er í hlutverki Putta, Ólafía Hrönn Jónsdóttir er Maddamamma, Friðrik Frið- riksson er Dreitill og fjölmargir aðrir leikarar koma fram í sýning- unni. Helena Jónsdóttir sér um dansa; Frosti Friðriksson gerir leikmynd; Garðar Borgþórsson og Lárus Björnsson sjá um lýsingu; Þórunn María Jónsdóttur er búningahönn- uður sýningarinnar og Jóhann G. Jóhannsson er höfundur tónlistar- innar og stjórnar flutningi hennar í sýningunni. Skilaboðaskjóðan frumsýnd í Þjóðleikhúsinu í kvöld Putti litli „Ég er bara krakki og það eru allir bara svona góðir vinir mín- ir,“ segir góði strákurinn Putti sem býr í Ævintýraskóginum. Harka parka inn skal arka Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is TRESCA Weinstein, dansgagnrýn- andi bandaríska dagblaðsins Albany Times Union, fer lofsorðum um sýn- ingu Íslenska dansflokksins í Egg listamiðstöðinni í borginni Albany. Umfjöllunin hefst á orðunum: „Ís- lenski dansflokkurinn, hvar hefur þú verið allt mitt líf?“. Sýning flokksins á verkunum Maðurinn er alltaf einn, Critićs Choice og Practice Paradise, hafi verið fersk og alþýðleg, klikkuð en þó hárbeitt. ÍD sé gullmoli. Á heildina litið sé sýningin sæt og súr og veiti mikla ánægju „líkt og íslensk pönnukaka með kardimommudrop- um og sykri.“ Dansferð ÍD um Bandaríkin endar á laugardaginn með sýningu í Brooklyn í New York. Eins og pönnukaka

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.