Morgunblaðið - 07.11.2007, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 07.11.2007, Blaðsíða 20
heilsa 20 MIÐVIKUDAGUR 7. NÓVEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ F yrir þá karlmenn, sem greinast með blöðru- hálskirtilskrabbamein á frumstigi, má segja að meðhöndlun krabba- meinsins með svokallaðri innri geislameðferð sé bylting í meðferð- arúrræðum. Þó ekki séu nema rúm fimmtán ár síðan farið var að beita meðferðinni af einhverri alvöru hef- ur verið sýnt fram á að árangur í læknisfræðilegu tilliti er sá sami með innri geislameðferð, hefðbund- inni ytri geislameðferð og skurð- aðgerð þegar um er að ræða sjúk- linga með krabbamein á frumstigi,“ segir Margrét Einarsdóttir, krabba- meinslæknir við Háskólasjúkrahúsið í Lundi í Svíþjóð. Margrét er ein þriggja lækna við sjúkrahúsið í Lundi sem gerir að- gerðirnar, sem nú eru orðnar tals- vert vinsælar sem fyrsti kostur karl- manna með sjúkdóminn á frumstigi. Meðferðin felst í því að geislavirk- um kornum í títanhulstri, sem eru 4,5 mm að lengd og 0,8 mm í þver- mál, er skotið inn í blöðruhálskirtil- inn með nálum. Langmesta virkni geislakornanna er fyrstu tvo mánuð- ina eftir aðgerð þar sem helmingun- artími joðsins eru sextíu dagar. Það þýðir að sjúklingurinn fær helming geislaskammtsins fyrstu tvo mánuð- ina, en í allt er áætlað að það taki geislakornin átta til níu mánuði að vinna á meininu. Þegar hlutverki þeirra lýkur í kirtlinum verða þau þar áfram til staðar þar sem ekki er unnt að taka þau út á ný. Tæknin orðin miklu betri Upphaf meðferðarinnar má rekja aftur til ársins 1980 þegar sérfræð- ingar við Herlev-sjúkrahúsið í Kaupmannahöfn hófu að stinga nál- um með geislavirkum kornum í karl- menn með blöðruhálskirtilskrabba- mein með fremur ófullkominni tækni miðað við það sem nú gerist. Meðferðin lognaðist þar brátt út af, en sérfræðingateymi frá Seattle í Bandaríkjunum tók þráðinn upp og þróaði meðferðina áfram eftir heim- sókn til Danaveldis. Um eða upp úr 1990 var svo farið að nota innri geislameðferð að einhverju ráði til að meðhöndla sjúklinga. Nú er þessi meðferð orðin útbreidd víða um heim og m.a. mikið notuð í Banda- ríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi, Belgíu og á Spáni. Svíar hófu að beita meðferðinni á Rydhov-sjúkra- húsinu í Jönköping árið 1999. Söder-sjúkrahúsið í Stokkhólmi og Háskólasjúkrahúsið í Lundi voru svo samstiga í að bjóða upp á með- ferðina árið 2004. „Síðan höfum við hér í Lundi gert 180 aðgerðir að þessu tagi, þar af hef ég sjálf framkvæmt rúmlega átta- tíu,“ segir Margrét. Ekki er boðið upp á þetta með- ferðarúrræði á Íslandi enn sem kom- ið er, en hingað til hefur Margrét meðhöndlað fjóra Íslendinga á Há- skólasjúkrahúsinu í Lundi með góð- um árangri. „Ég hef hinsvegar viðr- að þá hugmynd við íslenska kollega að ég gæti sinnt þessum aðgerðum heima á Íslandi með jöfnu millibili, ef áhugi er á því. Nauðsynlegur tækjabúnaður er fremur lítill, en ég myndi hinsvegar þurfa á aðstoðar- fólki að halda sem kann og veit hvað það á að gera því þetta er mikil handavinna. Auk mín þarf að koma að málum svæfingalæknir, hjúkrun- arfræðingur, aðstoðarmanneskja og eðlisfræðingur, sem reiknar út hæfi- legan geislaskammt í hverju tilviki fyrir sig.“ Fylgikvillarnir nánast engir Meðferðin er bæði einföld og þægileg fyrir sjúklinginn í saman- burði við aðra meðferðarkosti, sem þessum sjúklingahópi býðst og fel- ast annars vegar í ytri geislameðferð og hinsvegar í brottnámi blöðruháls- kirtilsins með skurðaðgerð. Báðar þessar aðferðir geta haft í för með sér tímabundna eða viðvarandi fylgi- kvilla á borð við þvagleka, niðurgang og getuleysi auk þess sem meðferðir þessar kalla á nokkurra vikna veik- indafrí, aðallega þó skurðaðgerðin. Kjósi menn innri geislameðferð þurfa þeir ekki að vera frá vinnu nema þá tvo daga sem þeir eru inni- liggjandi á spítala. Aukaverkanir eru hverfandi í kjölfar meðferðar ef frá eru talin tíðari þvaglát fyrstu tvo til fjóra mánuðina og mun minni hætta er á að kyngetan skerðist við þessa meðferð en aðrar, að sögn Margrétar. „Innri geislameðferð gagnast karlmönnum með krabbamein í blöðruhálskirtli á frumstigi. Svokall- að PSA-gildi má ekki vera umfram tíu og svokallað Gleason-gildi, sem segir til um hversu illkynja krabba- meinið er, þarf að vera sex eða minna. Blöðruhálskirtillinn má ekki vera orðinn of stór til að hægt sé að beita meðferðinni því þá hverfur hann á bak við grindarbeinið og að sama skapi má sjálft æxlið ekki vera orðið of útbreitt í kirtlinum. Krabba- meini í blöðruhálskirtli er skipt upp í mismunandi stig eftir því hversu stórt og útbreitt það er og á fagmáli gagnast meðferð þessi aðeins mönn- um, sem eru með blöðruhálskirtils- krabbamein á stigi 1 og 2a,“ segir Margrét. Ferlið er mikil nákvæmnisvinna Þegar Margrét er beðin um að lýsa meðferðinni segir hún að sjúk- lingurinn leggist inn á sjúkrahúsið snemma morguns, sé síðan fluttur á skurðstofu þar sem hann fái svæf- ingu, þvaglegg og slöngu niður í háls sem hjálpi til við öndun til að minnka líkur á öndunarhreyfingum þar sem meðferðin krefjist mikillar ná- kvæmni. „Í þvaglegginn er sett hlaupkennt efni, sem hjálpar til við að greina þvagrásina, sem liggur beint í gegn- um blöðruhálskirtilinn, en í hana viljum við forðast að stinga. Óm- skoðunartæki er komið fyrir í enda- þarmi sem tekur myndir af kirtlin- um með 5 mm millibili. Myndir þessar eru síðan fluttar yfir í tölvu, sem teiknar upp blöðruhálskirtilinn, þvagrásina, endaþarminn og grind- arbeinið. Eðlisfræðingur tekur þá við og reiknar út hæfilegan geisla- skammt, fjölda geislakorna, fjölda nála og æskilega staðsetningu þeirra í kirtlinum. Eitt til fjögur geislakorn eru í hverri nál sem skotið er inn í kirtilinn með hjálp ómskoðunar og gegnumlýsingar. Sjúklingurinn er inniliggjandi nóttina eftir aðgerð og útskrifast venjulega á hádegi daginn eftir, gangi allt að óskum. Eftirmeðferðin felst svo í blóðprufum á þriggja mánaða fresti til að sjá hvort PSA- gildið sígur niður á við, eins og stefnt er að, en við viljum sjá það fara niður fyrir einn innan árs. Rétt er þó að geta þess að PSA-gildið getur hækk- að vegna annarra orsaka en krabba- meinsmyndunar, m.a. vegna erting- ar eða stækkunar kirtilsins, sem gerist með hækkandi aldri, og því er hækkun PSA-gildisins ekki endilega ávísun á krabbamein. Sýnataka úr kirtlinum er því óhjákvæmileg verði vart við hækkun PSA-gildis til að ganga úr skugga um hvort krabba- mein sé þar á ferðinni eða ekki.“ Meinið hefur ekki birst á ný „Okkar sjúklingar, sem fengið hafa innri geislameðferð, hafa verið mjög ánægðir og hafa getað lifað eðlilegu lífi að henni lokinni. Við höf- um ekki enn staðið frammi fyrir því til hvaða ráða skuli grípa taki krabbameinið sig upp á ný. Ég myndi halda að skurðaðgerð yrði erfið vegna örvefs, sem myndast í kjölfar allra geislameðferða, sem hefði það í för með sér að erfitt yrði að greina kirtilinn. Ég myndi öllu fremur halda að gripið yrði til hormónameðferðar ef sú yrði reyndin að meinið tæki sig upp á ný. Auk þess er verið að gera tilraunir með frystingu blöðruháls- kirtilsins í Malmö og hér í Lundi höf- um við í hálft annað ár verið að gera tilraunir með að eyða krabbameins- frumum í blöðruhálskirtli með laser- tækninni. Þó laserlækningar gegn krabbameini séu enn á rannsóknar- stigi, má fastlega gera ráð fyrir því að laserljósið verði í vaxandi mæli notað sem lækning gegn krabba- meini í framtíðinni,“ segir Margrét, sem unir hag sínum vel í Lundi þar sem hún hefur verið búsett síðan 1984 ásamt eiginmanninum Boga Ásgeirssyni, sem starfar sem svæf- ingalæknir á heilaskurðdeild sama sjúkrahúss og tveimur börnum þeirra, sem nú eru uppkomin. Áskorun í erfiðum verkefnum Margrét fór þó ekki alveg þráð- beina leið í átt að krabbameinslækn- ingum heldur öllu fremur miklar krókaleiðir enda segist hún aldrei hafa svo sem ákveðið það í reynd hvað hún vildi verða þegar hún yrði stór. Hún ólst upp á Skólavörðustígn- um í Reykjavík til tíu ára aldurs og flutti þá inn í Sólheima og gekk í Vogaskóla. Fór síðan í Kvennaskól- ann og tók landspróf, síðan í gamla Kennaraskólann til að taka þar kennarapróf og síðar stúdentspróf. „Eftir að hafa kennt í eitt ár í Grundarfirði gerði ég mér grein fyr- ir því að ég vildi ekki verða kennari alla ævi svo ég settist í læknadeild HÍ eftir að pabbi minn kom með þá ágætu hugmynd hvort læknisfræðin gæti ekki verið verðugt viðfangsefni. Það hafði aldrei hvarflað að sjálfri mér, en þar sem mér finnst mikil áskorun felast í erfiðum verkefnum þótti mér þetta þjóðráð,“ segir Mar- grét, sem lauk síðan sérnámi í fæð- ingarhjálp og kvensjúkdómum áður en hún gerðist svo krabbameins- læknir. „Ég átti íslenska kunningja, sem voru að vinna hér á krabba- meinsdeildinni í Lundi og það má segja að ég þau hafi smitað mig af þessum áhuga. Ég byrjaði þar sjálf árið 1989 og var mest að vinna með konur með krabbamein í legi, leg- hálsi og eggjastokkum fram til 2004 þegar ég sneri mér alfarið að körl- unum mínum þegar ákveðið var að bjóða þeim upp á innri geisla- meðferð gegn blöðruhálskirtils- krabbameini.“ join@mbl.is Geislakornin í kirtilinn Morgunblaðið/Kristinn Krabbameinslæknirinn Margrét Einarsdóttir hefur verið búsett í Lundi í Svíþjóð undanfarin 23 ár þar sem hún hefur verið frumkvöðull í svokölluðum innri geislameðferðum gegn blöðruhálskirtilskrabbameini. Reuter Meðferðin Aukaverkanir eru hverfandi í kjölfar innri geislameðferðar á meðan viðvarandi þvagleki, hægðavandamál og getuleysi samfara þunglyndi geta verið fylgikvillar annnarra úrræða s.s. ytri geisla og skurðaðgerð. Árangur af innri geisla- meðferð gegn blöðru- hálskirtilskrabbameini á frumstigi er talinn vera sá sami og af ytri geislameðferð og skurðaðgerð. Margrét Einarsdóttir, krabba- meinslækir við Há- skólasjúkrahúsið í Lundi, sagði Jóhönnu Ingvarsdóttur fylgi- kvilla vera hverfandi og menn almennt ánægða með meðferðina. Í HNOTSKURN » Ekki er boðið upp á innrigeislameðferð á Íslandi við blöðruhálskirtilskrabbameini, en íslenski krabbmeinslækn- irinn Margrét Einarsdóttir hef- ur meðhöndlað fjóra íslenska karlmenn á Háskólasjúkrahús- inu í Lundi. Tryggingastofnun kostar meðferðina. » Árlega greinast um 185 ís-lenskir karlmenn með krabbamein í blöðruhálskirtli sem þýðir fjórföldun frá árinu 1956. » Ástæður fyrir myndunkrabbameins í blöðruháls- kirtli eru að mestu óþekktar. Erfðaþátturinn virðist þó skipta sköpum því talið er að líkur á að einstaklingur fái ein- kenni aukist um helming hafi faðirinn haft sjúkdóminn. » Blöðruhálskirtillinn liggurfyrir neðan þvagblöðruna og umlykur þvagrásina og blöðruhálsinn. Hann er á stærð við valhnetu og hlutverk hans er framleiðsla á sæðisvökva.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.