SunnudagsMogginn - 20.11.2011, Blaðsíða 16

SunnudagsMogginn - 20.11.2011, Blaðsíða 16
16 20. nóvember 2011 Hann sá ljósin í bænum fjar-lægjast í takt við vélarsláttskipsins, vissi að sjórinn varískaldur en líka að hann sjálf- ur var vel syndur og stæltur eftir sundtök í köldum ám og vötnum á heimaslóðum. Hann skimaði í kringum sig í kvöldhúm- inu, enginn félaga hans var á ferli um skipsdekkið og í flýti klifraði hinn ungi brúnhærði Vladimir yfir skipsbyrðinginn og lét sig falla í ískaldan sjóinn. Hann saup hveljur eitt augnablik en tók síðan einbeitt og kröftug sundtök í átt að bryggjunni og ljósunum í Reykjavík. Með þessari skyndiákvörðun Vladimirs Knopf-Mileris, 23 ára gamals háseta á þýska flutningaskipinu S/S Hamm í byrj- un október 1939 hófst mikil örlagasaga. Stríðið var skollið á og Vladimir vissi ekki í hvorn fótinn hann átti að stíga. Hver yrðu örlög hans í stríðsólgandi Evrópu? Með hverjum myndi hann berjast, með Þjóð- verjum, móðurætt sinni, eða með löndum föðurfólksins, Rússum. Sjálfur heyrði hann til landi sem skömmu síðar átti eftir að glata sjálfstæði sínu, Litháen. Eftir klukkustund í sjónum náði Vla- dimir landi í Reykjavík, kaldur og hrak- inn. Hann þekkti þessa litlu borg lítillega enda hafði S/S Hamm fengið fyrirmæli um að halda þar kyrru fyrir um stund eftir að styrjöldin braust út 1. september. Skipið var nú mánuði seinna að sigla burt í óleyfi í skjóli nætur. Landi hans, Teodoras Bieli- ackinas, skaut skjólshúsi yfir Vladimir og undir eins varð ungi eldhuginn úr austri virkur þátttakandi í hinu fábrotna sam- félagi sem hér hafði myndast. Lét mig ekki í friði Mánuði síðar hóf hann að gera hosur sínar grænar fyrir saklausri og auðtrúa Reykjavíkurmey, Fjólu Steinsdóttur, sem fæddist í torfbæ að Spena í Miðfirði vorið 1923. Þau kynntust á Hótel Borg og „hann lét mig ekki í friði eftir að ég dansaði við hann,“ upplýsir Fjóla, þar sem við sitjum yfir kaffi og bakkelsi á heimili hennar í Reykjavík, 72 árum síðar. Vladimir lést, saddur lífdaga, árið 1999 en Fjóla er enn í fullu fjöri, 88 ára gömul. Heyrnin er farin að bila en að öðru leyti er þessi siglda kona í prýðilegu formi. „Hvað segirðu, 88 ára? Ég sem hélt að fara ætti að ferma þig,“ segir Ragnar Axelsson ljósmyndari, af sinni alkunnu kerskni, meðan hann smellir mynd af Fjólu og son- arsyni hennar, Georg Davíð Mileris, sem skráð hefur sögu ömmu sinnar, Skip mitt braut við Afríkuströnd. Fjóla hlær dátt að hinum ærslafulla ljósmyndara. Ekki í fyrsta sinn sem karlmaður slær henni gullhamra – og örugglega ekki síðasta. „Hann var öðruvísi en íslensku strák- arnir, spilaði á píanó og gítar og kyssti dömurnar á handarbakið,“ segir Fjóla, þegar hún er spurð hvað hún hafi séð við þennan hvatvísa Litháa. „Svo gat hann verið pínulítið rómantískur líka.“ Hún hlær sínum dillandi hlátri við að rifja upp fornar stundir. Vladimir var staðráðinn í að vinna ástir Fjólu. En kannski ekki á besta máta „Eina nóttina kom hann blindfullur heim til mín og vakti alla …“ Hún þagnar. Horfir síðan rannsakandi á blaðamann. „Ekki ertu að skrifa þetta nið- ur?“ Blaðamaður þurrkar blekið út með aug- unum – í ofboði. „Láttu ekki svona, amma,“ flýtir Georg sér þá að segja. „Það er allt í lagi að segja frá þessu. Íslendingar hafa nú heyrt annað eins.“ Allir hlæja. Á fleka í hafinu Vladimir var fljótur að aðlagast íslensku sam- félagi, kappsamur sem hann var. Tók alla þá vinnu sem bauðst, varð meira að segja kokkur á síldarvertíð á Siglufirði, þó að ekkert kynni hann að elda. Sá tækifæri í að selja hermönnum bæði hamborgara og framleiða eigin minjagripi. Þau Fjóla hófu búskap og Vla- dimir fór í Stýrimannaskólann. Sumarið 1941 réð hann sig í sumarvinnu sem háseti á kaupskipinu Heklu og sigldi sem leið lá til Ameríku. Þangað komst Hekla aldrei því þýskur kafbátur skaut hana niður suð- ur af Grænlandi 29. júní. Þrettán skipverj- ar létust nær samstundis en sjö komust á fleka, þeirra á meðal Vladimir sem komst lífs af á ótrúlegan hátt þegar tund- urskeytið hæfði skipið. Í tíu daga hírðust skipverjar á flekanum, með afar takmarkaðar vatnsbirgðir, þar til kanadíska korvettan Candytuft bjargaði þeim um borð. Varla mátti tæpara standa. Svo kalinn var Vladimir á fótum að um tíma var útlit fyrir að taka þyrfti þá af honum. Eftir tvo mánuði á spítala reis hann hins vegar upp – jafngóður. Einn sjömenninganna, sem komst á flekann, var ekki eins heppinn, hann lést rétt eftir að þeim var bjargað. Miklir fagnaðarfundir urðu með þeim Fjólu í Reykjavík en í nokkrar vikur var Vladimir talinn af. Eftir honum beið líka frumburðurinn, Oleg Ninni. Ári síðar gengu Fjóla og Vladimir í heilagt hjóna- band. Fyrir tryggingabætur, sem Vladimir fékk eftir slysið, gátu þau Fjóla stækkað við sig og keyptu sér sumarhús í Blesugróf. Þar stækkaði hann húsið, stofnaði kjúk- lingabú, útbjó veitingaaðstöðu fyrir hesta- menn og opnaði litla matvörubúð. Hann lagði jafnvel rennandi heitt vatn inn í hús- ið frá heitri lind rétt hjá. Ekki veitti af, annar sonur leit fyrst dagsins ljós 1943. Var hann skírður Alexander í höfuðið á afa sínum, lækni við hirð Rússlandskeisara, sem meðal annars hafði komið að krufn- ingu munksins alræmda, Gregorýs Ras- pútíns. Stefnan tekin á Ástralíu Lífið í Reykjavík var enginn dans á rósum en ungu fjölskyldunni leið samt vel, all- tént hélt Fjóla það. „Skyndilega fór Vla- dimir að ókyrrast,“ rifjar hún upp. „Hann var orðinn eitthvað leiður og vildi endilega komast til Ástralíu þó svo að ég vildi búa áfram á Íslandi, þar sem okkur vegnaði ágætlega miðað við marga, en Ísland var orðið alltof lítið fyrir hann. Allt frá því við kynntumst hafði Ástralía verið fyrirheitna landið. Hann hélt því til Bretlands og sendi eftir mér og drengjunum nokkrum mán- uðum síðar.“ Hún hélt utan með börnin tvö í breskri herflugvél, sitjandi á hörðum bekk í köldu flutningarými vélarinnar. Það voru gríðarleg viðbrigði fyrir ís- lensku bóndadótturina að koma til Lund- úna skömmu eftir stríðslok. Fyrir það fyrsta talaði hún mjög litla ensku og í ann- an stað var allt á tjá og tundri í borginni eftir loftárásir Þjóðverja. „Ég grét bara þegar ég kom út. Saknaði svo Íslands og fólksins míns,“ segir Fjóla. „En hvað átti ég að gera? Karlmenn réðu ferðinni á þessum tíma og Vladimir vildi fara. Ég var ekki spurð.“ Fjóla plumaði sig þó ágætlega í heims- borginni og eignaðist vinkonur. Spurð um tjáskiptin brosir hún og segir: „Blessaður vertu, ræki mig í vörðurnar bætti ég bara Fjólan sem skolaði upp á Hún yfirgaf heimahagana í stríðslok liðlega tví- tug með landlausum eiginmanni sínum, Vladim- ir Knopf-Mileris, og tveimur ungum sonum þeirra. Lokaáfanginn á ferðalaginu átti að vera Ástralía en þangað komst fjölskyldan aldrei því skip hennar braut við strönd Síerra Leóne. Þar bjó Fjóla Steinsdóttir Mileris í 45 ár en er snúin heim aftur. Saga hennar er nú komin út á bók, skráð af sonarsyni hennar, Georg Davíð Mileris. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Fjóla Steinsdóttir Mileris ásamt sonarsyni sínum, Georg Davíð Mi- leris, sem skráð hefur sögu hennar. Fjóla hélt allskonar gæludýr í Síerra Leóne, meðal annars þennan ágæta apa.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.