SunnudagsMogginn - 20.11.2011, Blaðsíða 18

SunnudagsMogginn - 20.11.2011, Blaðsíða 18
18 20. nóvember 2011 issjúkdómarnir sneiddu hjá þeim en þó veiktist Fjóla illa af berklum snemma á sjöunda áratugnum. Þurfti hún þá að leggjast á sjúkrahús á Spáni til að ná heilsu. „Kafteinninn“, eins og Vladimir var iðulega kallaður í Síerra Leóne, fór sínar eigin leiðir og árið 1965 fór hann, án þess að spyrja nokkurn mann, til Spánar, þar sem hann festi kaup á „draumahúsi“ fjöl- skyldunnar í bænum La Línea. Fjóla fékk fyrirmæli um að koma þangað. Það gerði hún en festi ekki rætur. „Ég kunni ekki við mig í La Línea,“ segir hún. „Ég skildi ekki bofs í spænsku og eftir nokkra mánuði ákvað ég að snúa aftur til Afríku. Ætið dreymdi mig þó um að komast heim til Ís- lands aftur.“ Á þessum tíma var Vladimir orðinn um- svifamikill athafnamaður og næstu árin var hann með annan fótinn á Spáni, hinn í Síerra Leóne. Þrír eldri synirnir fetuðu í fótspor föður síns og gerðust veit- ingamenn í Freetown, hver í samkeppni við annan. Alltaf var þó hlýtt á milli þeirra. skipinu. Í ágúst 1947 var seglskútan Deerhound loksins ferðbúin. Áhöfnin samanstóð af um tuttugu körlum, þrem- ur konum og fáeinum börnum. Siglt var niður með ströndum Frakklands gegnum hvítfyssandi öldur Atlantshafsins. Velt- ingur var mikill og ástandið um borð ansi skrautlegt, að sögn Fjólu. Fljótlega bilaði skipsskrúfan og leki kom að skipinu og þurftu menn þá að skipta liði á vöktum til að fylgjast með honum. Um tíma óttaðist Fjóla að skipið myndi sökkva. Í Lissabon gafst tóm til að laga skipið áður en haldið var áfram suður á bóginn. Menn komust fyrir lekann en skrúfuna var ekki hægt að laga. Sigla þurfti ein- göngu fyrir seglum og treysta á vindork- una. Lengra varð ekki siglt Ferðin sóttist hægt, kvarnast hafði úr áhöfninni, menn einfaldlega gefist upp af ótta við að skútan myndi sökkva. Báðir meðeigendurnir og konur þeirra urðu eftir í Portúgal, kona eins þeirra varð svo sjóveik og hrædd um að skipið myndi sökkva. Fjóla varð því eina konan eftir á seglskútunni. Vladimir varð ekki haggað. Eftir stopp á Kanaríeyjum og í Gambíu komst Deerhound loks við illan leik til Freetown, sem þá var höfuðborg bresku nýlendunnar Síerra Leóne á vesturströnd Afríku. Þar dó skútan formlega drottni sínum. Lengra varð ekki siglt, fjárráðin þrotin og engin önnur úrræði en að setj- ast að í þessu framandi landi. „Freetown er ógurlega fallegur stað- ur,“ segir Fjóla og lætur hugann reika. „Mér datt þó aldrei í hug að við myndum enda þarna. Hvað þá að þetta yrði mitt heimili í 45 ár!“ Gríðarlegur hiti og raki er á þessum slóðum og þær gjarnan nefndar „gröf hvíta mannsins“, vegna þess hversu margir deyja úr malaríu. Af þessum sök- um staldra fáir Evrópumenn þar við lengur en nauðsyn krefur. Fjóla vandist þó loftslaginu fljótt. Fyrst um sinn bjó fjölskyldan í strand- aða skipinu en eftir að Vladimir gerðist hákarlaveiðimaður eignaðist hún heimili á föstum grunni. Svo vel kunni hann við Síerra Leóne að hann ákvað að það yrði þeirra framtíðarheimili. Fljótlega fóru hjónin út í veit- ingarekstur í Freetown. „Það var svolítið skondinn aðdragandi að því,“ upplýsir Fjóla. „Vladimir hitti þyrstan Þjóðverja á ströndinni sem spurði hvers vegna í ósköpunum hann opnaði ekki veit- ingastað. Hvers vegna ekki?“ Hún hlær. Fyrsta klúbbinn opnaði Vladimir 1950 og hlaut hann nafnið Cape Club. Var það fyrsti barinn í landinu þar sem allir íbúar, óháð litarhætti og þjóðerni, gátu fengið sér saman í glas. „Englendingarnir á staðnum voru ekki par hrifnir af þessu og létu ekki sjá sig,“ segir Fjóla, „en Írunum og Skotunum var alveg saman. Örugglega fegnir að vera lausir við Englendingana!“ Þarna var fjórði sonurinn kominn til sögunnar, Andre Henry David. Fjólu féll strax vel við innfædda. „Þetta er indælisfólk. Duglegt og lífsglatt. Það var alltaf í góðu skapi, þrátt fyrir örbirgð og basl,“ segir hún. „Það er einkennandi fyrir fólk sem þarf að leggja mikið á sig til þess eins að draga fram lífið. Það er eng- inn tími fyrir þunglyndi þegar menn þurfa að stöðugt að hugsa fyrir næstu máltíð fyrir sig og fjölskylduna.“ Eflaust mikið til í því. Fjóla hafði lengi þjónustufólk úr röðum innfæddra og þótti sjálfsagt að bjóða því að borða með fjölskyldunni. „Ég man að þeim þótti þetta óþægilegt enda ekki til siðs að hvítir og svartir borðuðu saman,“ segir hún. Árin liðu við veitingahúsarekstur í Síerra Leóne. Hjónin unnu baki brotnu og drengirnir uxu úr grasi. Hitabelt- Einu samskipti Fjólu við gamla landið voru stöku sendibréf. Til Íslands kom hún ekki aftur fyrr en 22 árum eftir að hún flaug til Lundúna. Árið var 1967 og Reykjavík nær óþekkjanleg. Miklir fagn- aðarfundir urðu með Fjólu og fjölskyld- unni. Systkini hennar voru alls tólf tals- ins, öll látin nú. Föður sinn, Stein Ásmundsson, hitti hún í hinsta sinn í þessari heimsókn en hann lést í hárri elli ári síðar. Móður sína, Valgerði Jón- asdóttur, missti Fjóla aðeins fimm ára. Eftir þetta urðu samskiptin reglulegri, meðal annars heimsóttu nokkur systkina Fjólu hana til Síerra Leóne. Og hún kom oftar heim. Árið 1993 kom svo að því að hún flutti til Íslands – alkomin. Vladimir hafði þá misst heilsuna og Fjóla kveðst hreinlega hafa tekið af honum ráðin. „Hann var bú- inn að vera svo stjórnsamur alla tíð að það var mátulegt á hann að þurfa að flytja með mér til Íslands og eyða þar ævi- kvöldinu,“ segir hún hlæjandi. Það flýtti fyrir ákvörðuninni að brotist hafði út borgarastyrjöld í Síerra Leóne og landið alls ekki öruggt lengur. „Það gekk bara vel að aðlagast landi og þjóð aftur eftir þennan langa tíma,“ segir Fjóla, „enda átti ég góða að, systur mínar, Áslaugu og Herdísi, barnabörnin mín, Georg Davíð og Önu Maríu og fleiri. Þetta var eins og að byrja upp á nýtt en við skildum allar okkar eigur eftir úti. Stóri munurinn var hins vegar sá að nú sá ég um alla hluti. Kafteinninn hafði ekki lengur heilsu til þess enda þótt hugurinn væri síkvikur.“ Ógeðslega flott! Hún segir ómögulegt að bera Ísland 1945 saman við Ísland 1993, hvað þá 2011. „Ég yfirgaf einfalt fátækt samfélag en flutti heim í samfélag allsnægta. Það voru ekki einu sinni tré hérna þegar ég fór. Málfarið hefur líka breyst svolítið, eins og gengur. Ég man hvað ég varð hissa þegar ég heyrði manneskju fyrst segja: „Þetta er ógeðslega flott!“ Svona hefðum við ekki tekið til orða í gamla daga. Það var ekki móðins. Ég tala nú ekki um lýs- ingarorð eins og „geðveikt“. Nú til dags er allt „geðveikt“.“ Hún skellihlær, enn áhugasöm um lífið og tilveruna. Og með hugann við afkom- endur sína, þó þeir séu ekki margir og flestir búsettir erlendis. Fjóla lifir eins og blómi í eggi í litlu íbúðinni sinni í Gerðunum og hugsar um sig sjálf að verða níræð. Sátt við Guð og menn. Þar vill hún vera meðan báðir fæt- ur eru jafnlangir og bera hana. „Veðrið er pínulítið leiðinlegt stundum en annars er dásamlegt að vera aftur heima. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að eyða ævikvöldinu mínu á Íslandi. Hér vil ég deyja!“ Gamli Cape Club-staðurinn í Freetown. Íslensk Fjóla á veröndinni. Fjölskyldan um borð í skútunni Deerhound. Hún reyndist mikið örlagafley. Enda þótt Fjóla Steinsdóttir Mi- leris sé um margt gæfumann- eskja hefur hún ekki farið var- hluta af áföllum. Hún missti móður sína aðeins fimm ára og fann mikið fyrir móðurmissinum. Hún hefur þegar jarðað þrjá af fjórum sonum sínum. Mikið er á suma lagt í þessu lífi! Fyrst missti hún yngsta son sinn, Andre, aðeins 24 ára gaml- an. Það var í Síerra Leóne árið 1973. Það voru þrumur og eld- ingar og loftnet á þaki íbúðar- innar fyrir ofan veitingahúsið Cape Club losnaði. Vladimir var að heiman og Andre vildi ólmur fara upp á þakið enda þótt móð- ur hans fyndist það óráð, þar sem rafmagnssnúrurnar voru á staurum en ekki í jörð. Unga of- urhuganum skrikaði fótur í snarpri vindhviðu, missti takið á loftnetinu og móðir hans og bræður horfðu á hann falla tvær hæðir ofan á neistandi rafmagns- snúruna og deyja þar. Þvílíkt ógnaráfall. Árið 2001 reið annað áfall yfir. Fjóla var þá flutt til Íslands og orðin ekkja þegar síminn hringdi um miðja nótt og henni tilkynnt að næstelsti sonurinn, Alex, væri einnig fallinn fyrir ofurafli rafmagnsins í Freetown. Alex hafði farið út í skúr, þar sem raf- mótorinn var að finna, til að reyna að koma rafmagni á hús sitt í ausandi rigningu en fengið raflost og látist samstundis. Hann var 58 ára. Sex árum síðar var síðan kom- ið að elsta syninum, Oleg, að safnast til feðra sinna. Hann hafði um tíma átt við vanheilsu að stríða og fékk hjartaslag, 66 ára að aldri. „Ég var lengi búin að suða í Oleg að koma til Ís- lands, þar sem læknisþjónusta er mun betri hér en í Síerra Leóne og hann var alvarlega far- inn að íhuga það þegar hann dó,“ segir Fjóla. Eins og íslenska björkin Hún hafði farið utan til að fylgja Alex til grafar en nú gat hún ekki meira, sneri sér til veggjar og fylgdi sál sonarins eftir með tár- um og mildum móðurorðum, svo sem segir í bókinni. Langar urðu andvökunætur hennar þann vetur og langar samræðurnar við skaparann. Fátt um svör. Sáttin kom þó að lokum. Sé þetta ekki nóg, greindist eini eftirlifandi sonurinn, George, með krabbamein fyrir fáeinum miss- erum en hefur nú náð fullri heilsu á ný. Hann býr í Danmörku með danskri eiginkonu sinni og móðirin saknar hans mjög. Fjóla starir inn í tómið þegar þessi grimmu örlög berast í tal. „Þetta er allt saman alveg hræði- lega sorglegt. Engin móðir á að þurfa að jarða syni sína. Í hvert skipti spurði ég líka Guð minn: Hvers vegna tókstu mig ekki frek- ar?“ Hún þagnar. Georg tekur upp þráðinn. „Þrátt fyrir þessi miklu áföll er amma ekki bitur. Hún segir það til einskis að æðrast yfir fortíðinni, bara horfa með gleði fram á veginn og njóta lífsins, það sé ævintýri. Enginn má sköpum renna. Hún amma mín er eins og íslenska björkin, hún bogn- ar en brotnar ekki!“ Hefur misst þrjá syni af fjórum Fjóla ásamt yngsta syni sínum Andre, skömmu áður en hann lést af slysförum í Freetown.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.