SunnudagsMogginn - 20.11.2011, Blaðsíða 31

SunnudagsMogginn - 20.11.2011, Blaðsíða 31
20. nóvember 2011 31 Þ að er verkefni hverrar kynslóðar að finna leiðir til að miðla menningararfleifð íslenzku þjóðarinnar til nýrra kynslóða. Á sumum heimilum ólst fólk upp með þessum sögum. Einn af þeim er Halldór Blöndal, fyrrum forseti Alþingis og ráð- herra. Frá því að við kynntumst ellefu ára gamlir finnst mér Halldór hafa verið með sögurnar í blóðinu með einhverjum hætti. Ég leyfi mér að efast um að nokkur maður hafi verið betur að sér í þeim á Alþingi en Halldór þann tíma, sem hann átti sæti þar. Og ekkert hefur mótað málflutning hans á vettvangi stjórnmálanna jafn mikið og sú þekking. Ég þekkti líka afa, sem las Íslend- ingasögurnar fyrir barnabarn sitt og hefur áreiðanlega með því haft sterk áhrif á þann afkomanda sinn um alla framtíð. Listamenn á okkar tímum hafa leitað leiða til þess að koma þessari þekkingu á framfæri með þeim miðlum, sem henta samtímanum. Brynja heitin Benediktsdóttir, leikstjóri, ferðaðist víða um lönd með leikverk sitt Ferðir Guðríðar, auk sýninga hér á landi, en það verk fjallar um Guðríði Þorbjarnar- dóttur. Með því leikverki sýndi Brynja, hvernig hægt er að nýta leikhúsið til þess að koma hinum fornu sögum til skila, bæði til Íslendinga og útlendinga. Sonur hennar Benedikt Erlingsson hefur gert garðinn frægan í Landnámssetrinu í Borgarnesi með eins manns sýningu á sögu Egils Skallagrímssonar. Benedikt höfðaði til allra kynslóða með þeirri sýningu en ekki fór á milli mála, að hann náði til yngstu kynslóðanna með afgerandi hætti. Egill Skallagrímsson öðlaðist nýjan sess í hugum fjögurra ungra drengja sem ég fylgdist með á einni af sýningum Bene- dikts. Fyrir nokkrum dögum sá ég sýningu Sögusvuntunnar og Leikhússins 10 fingur á verkinu Kjartan eða Bolli?, sem byggist á Laxdælu. Þar eru á ferð þær mæðgur Hall- veig Thorlacius og Helga Arnalds undir leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar. Verkinu er lýst á þennan veg: „Ein af stóru perlunum í íslenzkum bók- menntum er Laxdæla. Við höfum þróað aðferð sem hentar vel til að leiða áhorf- endur inní söguna í gegnum myndmál án þess þó að missa út þá töfra, sem búa í texta sögunnar. Við fléttum saman brúðum, texta, tónlist, vídeó, myndlist og skuggaleikhúsi. Sýningin … er gerð fyrir elstu nemendur grunnskólans og full- orðna. Í sýningunni er sagan sögð frá sjón- arhorni Guðrúnar Ósvífursdóttur með áherslu á ástarþríhyrninginn fræga – Kjartan, Bolla og Guðrúnu.“ Þær mæðgur hefja sýninguna með til- vísun í líf þeirrar merku konu, Guðrúnar Laxdal, sem var amma Helgu og tengda- móðir Hallveigar og halda athygli áhorf- andans frá þeirri stundu. Þær hafa áður gert Íslendingasögum skil með sýningu, sem hét Egla í nýjum spegli og fjallaði um Egilssögu. Að lokinni þessari sýningu gerði ég mér skýrari grein fyrir því en áður hvað hægt er að koma mörgu á framfæri við bæði börn og fullorðna með brúðuleikhúsi. Brúðu- leikhússýning er frábær aðferð til þess að koma menningararfleifð okkar til skila. Hvort sem það er gert með aðferðum þeirra Hallveigar, Helgu og Þórhalls eða með einleikssýningum á borð við sýningar Benedikts Erlingssonar og móður hans Brynju Benediktsdóttur er ljóst að efnivið- ur sagnanna nær til fólks og ekki sízt barna og unglinga. Það hefur gífurlega þýðingu fyrir ís- lenzku þjóðina að hinar fornu sögur séu og verði lifandi þáttur í lífi þjóðarinnar. Þess vegna er spurning, hvort slíkar sýningar eigi ekki að verða fastur þáttur í skólakerfi okkar á öllum stigum þess, hvort sem er í leikskólum, grunnskólum eða framhalds- skólum. Að skólakerfið taki þau brúðu- leikhús, sem hér eru starfandi í þjónustu sína á reglulegum grundvelli og að slíkar sýningar verði viðburðir í skólastarfinu á hverju ári. Raunar má líka íhuga að leik- starfsemi nemendanna sjálfra verði beint í þennan farveg með skipulegu átaki. Í fjöl- mörgum skólum hérlendis hefur orðið til leikhefð sem í sumum tilvikum á sér ára- tugasögu og jafnvel lengri eins og í Menntaskólanum í Reykjavík, þar sem Herranótt lifir góðu lífi. En jafnframt er það umhugsunarefni, hvort nýta á brúðuleikhús meira í þágu þjóðþrifaverka. Þau geta verið aðferð til þess að koma ákveðnum boðskap og upp- lýsingum á framfæri. Það blasir t.d. við að brúðuleikhússýningar geta verið mjög ár- angursrík aðferð til þess að fjalla um þjóð- félagsleg vandamál á borð við einelti í skól- um. Þau geta líka verið aðferð til þess að fjalla um þær hættur, sem að ungu fólki steðja vegna áfengisneyzlu og fíkniefna- neyzlu. Það er líka hugsanlegt að með brúðu- leikhússýningum sé hægt að upplýsa börn og unglinga betur um viðkvæm mál eins og t.d. málefni geðsjúkra, sem áreiðanlega er lítið og stundum ekkert fjallað um í skólum en ekki er vanþörf á. Það er mikilvægt að byggja góð hús yfir starfsemi skólanna. En það er líka mikil- vægt að finna nýjar leiðir til að koma upp- lýsingum á framfæri innan þeirra eins og t.d. í sambandi við menningararfinn. Og það er brýnt að takast á við þjóðfélagsböl eins og einelti er orðið og tabú samfélags- ins eins og bæði áfengissýki og geðsýki voru þar til fyrir tiltölulega fáum árum. Vissulega hefur þetta verið gert með ýsmum hætti hér og þar á undanförnum árum en augljóst að betur má ef duga skal. Í stað þess að aðrir séu að banka á dyr í menntamálaráðuneyti og annars staðar með slíkar hugmyndir er æskilegt að Al- þingi og önnur stjórnvöld taki forystu um verkefni sem þessi. Þau eru bæði mikilvæg og aðkallandi. Menningararfurinn og nýjar kynslóðir Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is Á þessum degi, 20. nóvember árið 1820, réðstum 80 tonna hvalur á hið stóra hvalveiðiskipEssex á miðju Kyrrahafinu og sökkti því. Þessiatburður varð bandaríska rithöfundinum Hermann Melville svo hugleikinn að hann skrifaði eitt af stórvirkjum bandarískrar bókmenntasögu, Moby Dick, undir áhrifum frá honum. Sjómennska hefur alltaf verið eitt hættulegasta starf sem hægt er að sinna í heiminum. Á 19. öld var hval- veiðimennska ein sú allra hættulegasta. Hvalveiðiskipin voru stór en sótt var að hvölunum á litlum róðrarbátum sem oft voru brotnir í spón af þessum stóru skepnum. En það var afar sjaldgæft að hvalirnir gætu sökkt stóru móð- urskipunum. En það gerðist af og til. Bandaríska hvalveiðiskipið Essex var farsælt hval- veiðiskip sem hafði hlotið viðurnefnið Lucky Essex eða Heppna Essex vegna þess hversu fengsælt það var. Þetta var 238 tonna skip sem var 27 metrar að lengd með fjóra tæplega tíu metra árabáta á hliðunum sem notaðir voru til að sækja að hvölunum. Árið 1820 stýrðu tuttugu stoltir skipverjar Heppnu Essex inn í suðurhluta Kyrrahafsins, óafvitandi að heppni þeirra var á enda. Aldrei þessu vant gekk þeim ekkert að veiða og spenna byrjaði að myndast á milli manna í áhöfninni, sérstaklega milli skipstjórans George Pollards og fyrsta stýrimanns- ins Owens Chase. Chase stýrði einmitt einum árabátanna sem loksins náði að skutla einn hvalinn en báturinn lask- aðist svo í átökunum að þeir þurftu að skera á línuna og róa hratt aftur að Essex til að bjarga bátnum. Þeir voru einmitt að gera við árabátinn þegar einhver skipverjanna tekur eftir gríðarlega stórum hval framundan sem hegðar sér undarlega. Að mati þeirra sem lifðu af úr áhöfninni var hann um 27 metra langur. Hann lá hreyfingarlaus við yfirborð sjávar, framhlutanum beint að skipinu eins og hann væri að horfa á það. Svo tók hann allt í einu af stað og jók hraðann með dýfum á meðan hann stefndi beint á skipið. Það hefur verið tilkomumikil og óhugnanleg sjón fyrir skipverjana að sjá þetta 80 tonna og 27 metra langa dýr koma á miklum hraða beint framan á skipið þar sem það var hvað sterkast byggt. Skipið tókst á loft áður en það skall aftur í hafið og fór nánast á hliðina. En ekki var komið gat á það og mesta hættan liðin hjá. Hvalurinn lá hreyfingarlaus meðfram skipinu fyrst um sinn og ætluðu skipverjarnir að fara að skutla hann en hættu við þegar þeir sáu að afturhluti hans var upp við stýrið á bátnum sem hann hefði auðveldlega eyðilagt ef hann hefði farið að berjast um eftir að hafa verið skutlaður. Skipverjunum hraus hugur við því að verða stýrislausir en þeir voru þá í um 3700 kílómetra fjarlægð vestur frá strönd Suður- Ameríku. Þeim til léttis synti hvalurinn síðan á brott. En hann fór ekki langt. Þegar hann var kominn í um hundr- að metra fjarlægð sneri hann sér við þannig að hausinn vísaði aftur að skipinu. Svo tók hann aftur á rás og að sögn skipverja á enn meiri hraða en þegar hann gerði fyrstu árásina. Hann kom á fullri ferð á hliðina á skipinu og braut hana jafn auðveldlega og eggskurn. Síðan losaði hvalurinn höfuðið úr bátnum og synti rólega á brott og sást aldrei aftur. Skipið sökk á miklum hraða en flestir náðu að bjarga sér í árabátana. Að sögn Chase var skip- stjórinn Pollard ennþá forviða þegar þeir voru komnir í bátana og starði eins og í losti á skipið sökkva og sagði síðan: „Guð minn góður, herra Chase, hvað gerðist?“ „Okkur var sökkt í árás hvals,“ svaraði Chase. Í 3.700 kílómetra fjarlægð frá landi tók við hrikaleg ferð á hafinu þar sem þeir í vatns- og matarleysi drógu strá til að velja hver skyldi fórna sér. Sá sem fékk minnsta stráið var síðan skotinn og étinn af félögum sínum. Að- eins 8 af 20 manna áhöfn lifðu af. Þeir fundust á hafinu rúmum þremur mánuðum eftir árásina og þeir sem enn voru á lífi voru nánast meðvitundarlausir en komnir svo nálægt ströndinni að það sást orðið til lands. borkur@mbl.is Að éta eða vera étinn Hvalveiðar voru stórhættulegar á 19. öld eins og þessi at- burður sem átti sér stað sunnarlega í Kyrrahafinu sýnir. ’ Þetta var 238 tonna skip sem var 27 metrar að lengd með fjóra tæplega tíu metra árabáta á hliðunum sem notaðir voru til að sækja að hvölunum. Árið 1820 stýrðu tuttugu stoltir skipverjar Heppnu Es- sex inn í suðurhluta Kyrrahafsins, óafvitandi að heppni þeirra var á enda. Atvikið sem frá er sagt gerði Hermann Melville að efnivið í bók sinni Moby Dick en hér er forsíða af einni útgáfunni. Á þessum degi 20. nóvember 1820

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.