SunnudagsMogginn - 20.11.2011, Blaðsíða 23

SunnudagsMogginn - 20.11.2011, Blaðsíða 23
20. nóvember 2011 23 Ný bók er komin út eftir rithöfundinnAra Trausta Guðmundsson, sonlistamannsins frá Miðdal. Bókinheitir Sálumessa og gefa Uppheimar hana út. Í bókinni eru fimm tengdar frásagnir frá mismunandi umbrotatímum í sögu þjóð- arinnar. Fyrsta sagan á sér stað í lok goðaveld- isins, rétt áður en borgarastríð Sturlungaald- arinnar skellur á. Þá á önnur frásagan sér stað við endalok Þingeyraklausturs í siðaskiptunum á 16. öld en þrjár síðustu frásögurnar eru nær í tíma, gerast þegar síðasti ferjumaðurinn lætur af störfum á Íslandi, þegar þilskipaútgerð hefst og í nýliðnu efnahagshruninu. Aðspurður segir Ari Trausti að hann hafi fyrst ætlað að skrifa annars konar bók. „Upp- haflega ætlaði ég að skrifa örlagasögu síðasta ferjumannsins sem lendir milli steins og sleggju vegna þjóðfélagsbreytinga en á sér flóttaleið, bæði sem leiðsögumaður ferðamanna, ljóðskáld og verkalýðssinni um stund; maður sem fer vítt og breitt um landið með útlendingum og er boðið til Englands, áður en hann gerist ferju- maður," segir Ari Trausti. „Margt varð svo til þess að sumt úr hans skálduðu ævi varð að hluta að örlagasögu þjóðarinnar, einn þáttur af fimm í bókinni. Annað geymi ég. Sprungna bólan og vond vegferð í kringum hana ýtti vissulega undir efnisvalið og efnistökin. Mér finnst allt of margir ekki taka þrjú síðustu árin og rangar áherslur í pólitík, efnahagsmálum og menntun eða menningu nógu alvarlega. Í öllum tilvikum vildi ég nálgast fremur fáar persónur og þeirra sál í þáttunum fimm sem mynda þessa sálumessu fremur en reyna að greina at- burði eða búa til mikil átök milli þjóðfélags- hópa. Þetta átti að vera skáldskapur." Með tilliti til þess að umbrotatímarnir í sögu þjóðarinnar hafa verið margir er eðlilegt að spyrja hvers vegna hann hafi valið einmitt þessi tímabil, en ekki til dæmis þjóðernisbylgj- una á 19. öld, tímabil svarta dauða eða móðu- harðindanna eða jafnvel landnámið? „Sumir mikilvægir atburðir í sögunni eru af náttúr- unnar völdum, eins og sjúkdómsfaraldur eða eldgos. Aðrir eru stórvægilegir og ekki ýkja erfiðir en samt boðandi framþróun, eins og sjálfstæðisbylgjan eða landnámið. Ég vildi held- ur velja harða upptakta sem voru undanfari mikilla breytinga en margir greindu ekki eða gátu metið fyrr en löngu seinna. Í tveimur þáttum, þeim fyrsta og öðrum, bý ég reyndar til fléttu sem enginn veit hvort er sönn eða ósönn. Undanfari borgarastyrjaldar á Sturl- ungaöld, upphaf siðaskipta, endalok róðr- arbátaútgerðar og vegarof einangrunar í land- inu með tilheyrandi búsetukollsteypu og svo hrunið nýlega fundust mér allt heppileg tímabil til að spinna í." Þrjú þessara tímabila eru mjög nálæg í tíma en aðeins tvö þeirra eru forn; aðspurður hvort það sé tilviljun segir Ari svo ekki vera. „Stóru, manngerðu atburðirnir rekast sífellt þéttar á okkur eftir því sem mannkynið stækkar og vandkvæði hagkerfa og lítið heildræns hugs- unarháttar aukast," segir Ari Trausti. „Þannig má horfa til framtíðar og sjá margt mjög nálægt í uppsiglingu, svo sem breytingar í valda- hlutföllum milli þjóða, alvarlegri umhverfismál en áður, orkukreppu, erfiðleika við öflun matar og vatns. Nýjar greiningar, breytt samvinna og alvöru mannúð banka á. Nú lesa menn ekki þetta neins staðar í skáldsögunni en ef nýjar og ferskar hugmyndir kvikna hjá einhverjum les- endanna um samhengið í fortíð, nútíð og fram- tíð kinka ég kolli." Það er áhugavert í verkinu að sjá kaþólskuna vera lagða af á 16. öld en koma aftur með pólskum innflytjendum á 21. öld. Aðspurður hvort honum finnist sem endurtekningin sé óhjákvæmileg og allt fari í hringi svarar hann með spurningu: „Hvað fer í hringi og hvað í spíral upp á við?" spyr Ari Trausti á móti. „Sennilegast er það svo að margt sem ýtt er út af borðinu í öllum samfélagsátökunum og flóknu samvirkninni sem drífur þjóðfélögin áfram sýnir sig með tímanum að vera ann- aðhvort nothæft eða í það minnsta lífseigt. For- tíðin á að kenna okkur fjölmargt, langt aftur og líka nálægt okkur, en gerir það of sjaldan vegna skammsýni og skorts á hógværð. Þannig finnst manni til dæmis að sturlungalegir flokkadrætt- ir, að vísu vopnlausir, ættu ekki að gilda þegar þjóðfélagið fer á hliðna, ekki fremur en þegar ný móðuharðindi verða vegna eldvirkni, fyrr eða síðar." Í Sálumessu Ara Trausta Guðmundssonar eru fimm tengdar frásagnir frá mismunandi umbrotatímum í sögu þjóðarinnar, en upphaflega ætlaði hann að skrifa örlagasögu ferjumanns. Morgunblaðið/Golli Fortíðin á að kenna okkur fjölmargt Ari Trausti Guðmundsson hefur skrifað fjölda bóka um náttúru Íslands, jarðfræði, eldfjallafræði, stjörnufræði og umhverfisvernd en á síðustu árum hefur hann hallað sér meira að ljóðagerð og skáldsögum. Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Jólabækurnar Glæsir Ármann Jakobsson JPV Frásögnin er annars knöpp og vel stíluð. Textinn er hæfilega forn, hugsanir nautsins nútímalegri í framsetningu en samtölin, sem eru engu að síður lipurleg og hefur höfundur býsna traust tök á efninu. Framan af er hann jafnvel óþarflega trúr Eyrbyggju, með upprifjun og tengingum sem lesendum sem hafa ekki mikinn áhuga á hinum fornu sögum kunna að þykja vera á kostnað flæðisins í frásögninni, en skriðþungi atburðarásarinnar eykst þegar á líður, með dramatískum endalokum sem hafa allan tímann verið óumflýjanleg. Einar Falur Ingólfsson Hálendið Steinar Bragi Mál og menning Í gegnum söguhetjurnar fjórar vinnur Steinar svo markmiðsbundið með gagnrýni á nútímasamfélagið, hrunið og þá siðferðislegu hnignun sem þar varð. Hér tekst honum hvað best upp. Eftir því sem sögunni vindur frammagnast svo upp torkennilegur óhugnaður sem liggur undir öllu, einhver ógn sem ýjað er að af meiri ágengni eftir því sem síðunum fjölgar ... Stíll Steinars er kaldhamraður nokk og myrkur og hann hefur það á valdi sínu að draga mann óskiptan inn í textann. Hér fara því oft og tíðum frammögnuð stíláhlaup og Steinar kann vel að skrifa, það er ekki vandamálið. Nei, vandi þessarar bókar liggur fyrst og síðast í erfiðleikummeð að binda saman þessa ólíku frásagnarhætti sem nefndir hafa verið, bókin er hreinlega of mikið í lausu lofti þegar lestri er lokið þrátt fyrir glæsitilþrif hér og hvar. Arnar Eggert Thoroddsen Jójó Steinunn Sigurðardóttir Bjartur Persónurnar eru áhugaverðar og lifandi. Textinn er meitlaður og stílhreinn, engu að síður hlýr og húmorískur. Steinunn nær góðum tökum á þessu vandmeðfarna efni, á köflum reynir nokkuð á lesandann, því hér er ekki mikið um berorðar lýsingar, heldur verður stundum að geta sér til. Og þegar vel tekst til, getur það verið miklu áhrifaríkara en að lýsa atburðum í smáatriðum. Jójó er áhrifamikil, skemmtileg og geysilega vel skrifuð bók sem skilur lesandann eftir með margar hugsanir löngu eftir að lestrinum er lokið. Til dæmis hvort allir eigi skilið að fá lækningu. Anna Lilja Þórisdóttir Konan við 1000° Hallgrímur Helgason JPV En hvernig á að skrifa um svona margbrotna bók? Fyrst og fremst er hún gargandi fyndin. Nánast hver einasta setning er þannig að mann langar til að leggja hana á minnið og slengja henni fram við vel valið tækifæri, sem væri hún manns eigin uppfinning. Það myndi því æra óstöðugan að tína til eitthvað sem upp úr stendur. Bókin er nefnilega svo jafngóð, að það er eiginlega lygilegt ... Vissulega var von á góðri bók frá Hallgrími. En satt best að segja átti gagnrýnandi ekki von á slíku verki og spyr sig: Hvernig er hægt að vera svona svakalega fyndinn í gegnum tæplega 500 síðna bók, án þess að missa nokkurn tímann dampinn og halda þræði? Hallgrími tekst það. Fyrir það fær hann fimm stjörnur. Anna Lilja Þórisdóttir Lýtalaus Þorbjörg Marinósdóttir JPV Lýtalaus er fljótlesin, oft á tíðum fyndin og þegar ég horfði framhjá holdafarshugsunum Lilju gat ég haft gaman af henni. Tobba ætlar sér augljóslega að skrifa bók nr. 3 og hlakka ég til að lesa hana. Vonandi er að Lilja verði þá komin í þyngd sem hún er sátt við og geti beint sjónum að öðru og mikilvægara en fitunni á lærunum á sér. Ingveldur Geirsdóttir Mannorð Bjarni Bjarnason Uppheimar Plottið er vissulega hugvitssamlegt, býður upp á mikil ævintýri en fer stundum fram úr sér í fáránlegheitunum. Bókina einkennir sígandi lukka og á síðustu blaðsíðunum er Bjarni bestur; þar kveður við fallegan og áreynslulausan tón og hann nær að hleypa upp smá gæsahúð hjá lesandanum á lokasprettinum. Arnar Eggert Thoroddsen Málverkið Ólafur Jóhann Sigurðsson Vaka-Helgafell Fjölmargir aðdáendur Ólafs Jóhanns verða varla fyrir vonbrigðummeð nýjasta sköpunarverk hans. Málverkið er sérlega vel skrifuð bók, rétt eins og búast má við af Ólafi. En hún er fyrst og fremst skemmtileg. Því er ekki ólíklegt að aðdáendahópurinn stækki ennmeir þessi jólin. Anna Lilja Þórisdóttir Meistaraverkið og fleiri sögur Ólafur Gunnarsson JPV Höfundi tekst vel að draga persónurnar skýrum dráttum, gæða þær lífi þótt sögurnar séu stuttar; að vekja samkennd lesandans með þeim. Stíllinn er tær og knappur, og samtöl lipur. Hversdagslegt andrúmloftið sem er splundrað með afgerandi atburði, stundum slysi eða óviljaverki, minnir á stundum á einkenni sagna bandaríska smásagnameistarans Raymonds Carvers og er það ekki leiðum að líkjast. Oft er talað um að smásagan eigi erfitt uppdráttar, í samkeppni við hina löngu og hefð- bundu skáldsögu. Í vel lukkuðum smásögum er þó alls ekki síður hægt að kveikja áhugavert líf og varpa upp heillandi heimum. Það tekst Ólafi svo sannarlega í bestu sögum þessa vandaða sagnaúrvals. Einar Falur Ingólfsson Myrkfælni Þorsteinn Mar Gunnlaugssonm Rúnatýr Myrkfælni, hrollvekjusafn Þorsteins Mars Gunnlaugssonar, er skemmtileg nýbreytni og höfundur fer vel af stað með sinni fyrstu bók en vissulega eru sögurnar misgóðar og auðvelt að benda á ýmsa vankanta. Í tilkynningu segir að þessar ellefu smásögur fái allar hárin til að rísa. Það er að vísu orðum aukið en hins vegar eru flestar sögurnar vel skrifaðar, vel upp byggðar og spennuþrungnar ... Í stuttu máli er Myrkfælni góð tilraun og það er ekki slæmt að lesa draugasögur í björtu, ekki síst fyrir myrkfælna. Steinþór Guðbjartsson Nóvember 1976 Haukur Ingvarsson Mál og menning Þrátt fyrir að það vanti sterkari persónusköpun og söguþráð í bókina fer því fjarri að hún sé leiðinleg. Þarna eru mjög góðir sprettir, t.d ferð Batta og Þórodds í herstöðina og atvikið í stofunni í lokin. Samtölin ná líka oft skemmtilegu flugi, verða frábær á köflum. Textinn er lipurlega skrifaður ... Þetta er fyrsta skáldsaga Hauks og það er ljóst að það býr mikill rithöfundur í honum sem við eigum eflaust eftir að fá að kynnast nánar í framtíðinni. Ingveldur Geirsdóttir Sálumessa Ari Trausti Guðmundsson Uppheimar Fjórða skáldverk Ara Trausta Guðmundssonar er lipurlega rituð röð fimm sagna sem eru á mörkum þess að vera smásögur og nóvellur að lengd, hver um sig. Fljótt á litið virðist ekki margt tengja þær saman enda fleyta sögurnar kerlingar á árhundruðunum frá tólftu öld til dagsins í dag. Þó eiga þær það sameiginlegt að fjalla hver um sig um ákveðna umbrotatíma í sögu Íslands og þjóðarinnar sem það byggir; nútíminn er í þann mund að víkja fyrir nýjum tíma, með því sem fylgir. Sögulegar persónur koma við sögu í bland við skáldaðar, raunverulegum atburðum fléttað saman við skáldskap svo úr verður býsna forvitnilegur aldaspegill sem varpar ljósleiftri á liðinn tíma. Jón Agnar Ólason Sláttur Hildur Knútsdóttir JPV Skrif Hildar eru áreynslulaus en alls ekki án tilþrifa. Lýsingin á því þegar Edda verður ástfangin er t.d. mjög myndræn og Hildi tekst að koma barnslegri einlægni hugsana og orða Eysteins litla í orð á sannfærandi hátt. Sláttur er frambærilegt fyrsta verk höfundar. Sagan um Eddu hitti mig beint í hjartastað. Það er því ástæða til að fylgjast vel með Hildi Knútsdóttur í framtíðinni. Sunna Ósk Logadóttir

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.