Morgunblaðið - 26.08.1978, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - 26.08.1978, Blaðsíða 13
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 26. ÁGÚST 1978 13 Agúst H. Bjarnason: Landgræðsla Fáein orð til Björns Sigurbjörnssonar Björn Sigurbjörnsson forstjóri Rannsóknastofnunar landbúnað- arins (Rala) skrifar grein í blaði yðar þann 19. ág. Greinina nefnir hann „Staðreyndir í landgræðslu- málum" og á að vera svar til mín vegna greinarkorns tveimur dög- um áður. Ekki kem ég þó auga á neina 'sahnreynd í máli BS gegn mér, því að hann talar í vestur þegar ég tala í austur (eða öfugt). Trúlegt þykir mér að það sé gert af ráðnum hug, því að ekki hvarflar að mér að brigzla BS um vitsmunaskort. Um vanþekkingu mína á náttúru íslands og land- græðslumálum kífa ég ekki. Úr því verður ekki skorið nema því aðeins að við göngumst báðir undir einhvers konar samkeppnispróf óvilhallra manna. Ég hef enga löngun til þess að snupra BS á einn eða annan hátt, hér er deilt um málefni en ekki menn. — Á þessu vil ég þó gera eina undantekningu. BS skrifar: „Það vekur strax grunsemdir að sænski sérfræð- ingurinn í áhrifum sauðfjárbeitar á gróður,... skuli ekki hafa haft samband við kollega sína á ís- landi." Hér fer BS með gróf meinyrði um mann, sem honum er ókunnur. Heldur BS, að hér hafi „huldumaður" verið á ferð? Ég spyr hann því. Það eitt, að Rala skuli ekki þekkja til beitarrann- sókna í Svíþjóð, segir miklu meira en mörg orð um Rala sem stofnun. Skal ég fúslega veita BS allar nánari upplýsingar um mann þennan og verkefni hans. En BS má hafa það í huga, að það telst ekki aðalsmerki heiðvirðs manns að fara með þvílíkar dylgjur. Nú skal vikið að því, sem er mergurinn í deilum okkar BS. Því má skipta í þrjá meginþætti, og er nauðsynlegt að halda þeim vel aðskildum og rugla ekki saman, svo að umræðan rati ekki í auðvirðilegt jag: 1) Ræktun örfoka lands, mela og sanda, með sáðgresi og tilbúnum áburði, ýmist til slægna eða beitar. Dæmi: Sand- græðslan í Gunnarsholti. 2) Uppgræðsla rofabarða og ógró- inna svæða í því augnamiði, að innlendur gróður festi þar ræt- ur.,Markmiðið er að hefta fok. Dæmi: Ketla á Rangárvöllum. 3) Verndun þeirra gróðurlenda og -leifa, sem enn tóra, þrátt fyrir geigvænlega eyðingu. Dæmin blasa hvarvetna við augum! Hvað varðar ræktun örfoka lands, erum við BS sammála um, að óverjandi er að nota til þess „danskan túnvingul" og ámóta* sáðgresi. Því spyr ég: Hvað er búið að verja til þess mikilli fjárupp- hæð á undanförnum árum? Er það ekki líkt og að mála hús sín með vatnslitum? Á þessi svæði er borinn tilbúinn áburður úr flugvél. Ég hef iðulega horft á stóru vélina bæði sunnan lands, og norðan og reynt að áætla nýtni áburðarins. Mér sýnist, að vart meira en 30% af áburðinum, komi niður á það svæði, sem sker sig úr sem græn rák síðar á sumrinu. Ef það er rétt, að það kosti 70—80 þús. krónur að dreifa hverju tonni, hvað kostar þá þessi túnrækt? Vænti ég þess, að BS og sérfræðingar hans leggi fram öll gögn í þessu máli. Síðar mega landbúnaðarhagfræðingar fá að spreyta sig á að reikna út arðsemina. Viðvíkjandi uppgræðslu rofa- barða og ógróinna svæða nefnir BS dæmi frá Geldingalæk og Keltu á Rangárvöllum. Um Geldingalæk er mér ókunnugt því miður, þó að ég hafi oft farið þar hjá garði. Að Ketlu hef ég aldrei komið, en ég hef heyrt frásögn kunnugs manns og rengi alls ekki frásögn BS. Hafi BS lesið grein mína reiðilaust þá segi ég þar, að áburðardreifing geti örvað vöxt og komið að haldi. En gleymir ekki BS að geta þess, að þetta landsvæði hefur á þessum tíma notið nær algjörrar friðunar? Sjálfgræðsla tekur langan tíma og án alls efa er unnt að flýta henni með einhverri áburðargjöf. Þess- ari aðferð má m.a. beita miklu víðar og þá fyrst og fremst í rofabörðum á friðuðu landi. Ég get jafnframt upplýst BS um það, að í sumar gerði ég gróðurathuganir í svona rofabörðum ásamt einum sérfræðinganna á stofnun hans og e.t.v. birtum við þær niðurstöður, þegar unnið hefur verið úr þeim. (Til þess að firra misskilningi tek ég fram, að ég vann þetta verk á sjálfs mín kostnað eins og oftast. ) Þá kem ég að þriðja og síðasta atriði, verndun gróðurs, og þar hygg ég mestan ágreining á milli mín og BS. Vil ég reyna að skýra málstað minn og styðja rökum, en bið menn um að hafa það í huga, að því miður er erfitt að gera þessu efni tæmandi skil í stuttu máli. Ég deili á það, að tilbúnum áburði skuli dreift úr flugvél á gróið land. Það er gert í þeim tilgangi að örva vöxt beitar- plantna. í þessu er fólgin mikil hætta: Náttúrlegum gróðurlendum er breytt í tilbúin, sem eru hvort tveggja í senn hvorki jafn hæf til þess að nýta allan mögulegan vaxta tíma sumarsins né þola sveiflur í tíðarfari. Ég hef áður bent á, að það eru einkum grösin, sem verða ríkjandi en lyng- og hrístegundir lúta í lægra haldi. Til þess að viðhalda þessum tilbúnu gróðurlendum verður að bera á þau, og það hlýtur að kosta dágóðan skilding. Þá má aftur minnast á arðsemi búsmala, en ég læt öðrum það reikningsdæmi eftir. Þegar komið er út í þessa ræktun (eða hálfræktun eins og sumir kalla) hlýtur hætta á kali að ’aukast (sbr. kal í túnum). Vitað er, að snjóalög eru önnur á graslendi en í lyngmóum og einkum á mjög beittum graslendum. Snjórinn veitir ekki jafnmikla hlíf og áður. Þetta tel ég að rannsaka þurfi miklu nánar. Þá tel ég mig geta fært að því gild rök m.a. af eigin athugunum að mosflóran á ábornum og beittum grassvæðum breytist á þá lund, að þær mosategundir, sem geyma raka og vernda svörðinn hverfa, en aðrar „harðbala“-tegundir koma inn í staðinn. Þetta hlýtur að auka hættu á, að land byrji að blása. Á ábornu landi falla til önnur næringarsteinefni en í lyngmóum og öðrum náttúrulegum gróður- lendum. Hvort þessi steinefni eru auð- eða torleysanleg, er ekki nægilega vitað til þess að segja fyrir um á hvern hátt smáverulífi jarðvegs reiðir af. Víst má telja, a J sauðfé sæki svo mjög á þessi svæði, að þau leggist í örtröð. Verði áburðargjöf hætt koðnar grasið niður. Þegar svo er komið eiga vindar og vatn greiðan aðgang að moldinni á meðan, en vissulega munu innlendar tegund- ir reyna að festa þar rætur á ný en hæpið má telja að þær nái því, einkum ef sauðfé fær að rása þar um, traðka og stytta hvert strá, sem reynir að teygja úr sér. Ágúst H. Bjarnason Af þessum ástæðum, sem hér eru upp taldar, byggi ég þá skoðun mína, að meginstefnan í land- græðslumálum sé röng. Hún er of einhæf og hún tekur of mikið mið af haldlausum sauðfjárbúskap. Þjóðargjöfinni væri miklu betur varið, ef unnið væri kappsamlega að því, sem um getur í lið tvö hér að ofan og aukinni friðun gróður- leifa landsins í stað þess að bera á þau tilbúinn áburð. Þegar gróðurmoldin hefur endurheimt frjósemi sína og uppblástur úr rofum stöðvaður, er fyrst unnt að fara að tala um að nýta gróður til beitar undir ströngu eftirliti um ítölu. — Ég á bágt með að trúa því, að BS sé mér algjörlega ósammála í þessu efni, ef hann skoðar þessi mál af gjörhygli. Dæmi um þetta, sem ég hef hér nefnt má sjá á ýmsum stöðum á leiðinni yfir Kjöl og víða meðfram þjóðvegum lands- ins. Þessa dagana er ég staddur norður í Kelduhverfi, og hver veit nema ég bregði mér fram í Ásheiðina og skoði þar þessar „merku“ beitartilraunir, sem þar fara fram. Þar var áburðurinn einn ekki látinn nægja til þess að tyðja lyng- og hrístegundunum úr vegi, heldur var notað til þess sérstakt hormónalyf. Mér er sagt, og reyndar getur BS frætt lesend- ur nánar um það, að sauðfé hafi a.m.k. ekki enn þrifizt þar vel, þrátt fyrir „grængresið". Helzt kysi ég samfylgd BS um svæðið. BS getur þess réttilega, að það fyrsta, er menn læri í næringar- fræði plantna sé aðalþörf þeirra fyrir náertngarefnin köfnunarefni (nitur), kalí og fosfór. Jafnframt segir hann þetta aðalefni tilbúins áburðar (sem er rétt) og að ég „reyni að tortryggja sem einhvers konar mengunarvald“. (Leturbr. mín.) Hér finnst mér kasta tólfunum, að forstjóra Rala skuli ekki vera kunnugt um mengun af völdum áburðarefna. Hélt ég það svo þekkt að óþarfi væri að fjölyrða um það. Um nitrið er það m.a. að segja, að ýmis sambönd þess geta breytzt í efni (nitrosamina), sem eru sterkur krabbameinsvaldur. Hafa menn af þessu miklar áhyggjur og víða um heim hefur athyglin beinzt að ertublómum, sem lifa í sambýli við niturbindandi gerla. Og nú fyrst fæ ég skilið, hvers vegna einn af sérfræðingum Rala skuli sækja um fé út fyrir téða stofnun til þess að rannsaka beitargildi lúpínuteg- undar, sem þrífst vel hér á landi. — Geta má þess og, að mikið er reynt til þess, að koma á sambýli niturbindandi gerla og grasteg- unda til þess að draga úr áburðar- gjöf. Munu miklar líkur vera á því að þetta takist innan tíðar. Úm mengun í ám og vötnum af völdum fosfórs er einnig mikið til í riti og þekkir BS án alls efa til þess. BS verður að vonum tíðrætt um innlenda sérfræðinga og umfangs- miklar rannsóknir þeirra. Ég hef tvívegis reynt að verða mér úti um niðurstöður, sem þegar liggja fyrir en lítið orðið ágengt, nema tvö fjölrit, sem lítið koma inn á beitarrannsóknir. Mér þætti afar vænt um, ef BS vildi gjöra svo vel að taka saman það helzta og koma því til mín. A.m.k. sumt af því, sem birzt hefur frá Rala í tímaritum, hef ég lesið og kynnt mér. Margt af því er ágætt og alls góðs maklegt en ég dreg enga fjöður yfir það, að því efni, er viðkemur grasafræði, finnst mér ekki gerð næg skil. Nefni ég sem dæmi, að í gróðurgreiningum er alltaf aðeins getið um mosa almennt en þeir ekki greindir. Mosar og jafnvel fléttur veita þó oft miklu betri innsýn inn í gróðurlendi en æðri tegundir. Á þetta ekki hvað sízt við um áborin svæði og beitt. Og í lokin get ég greint BS frá því, að eitt sumar, þá er ég vann þar var farið með mig og annan sumarstrák upp að Litla Sauðafelli til þess að læra að þekkja plöntur. Kom þá í ljós, að sá, sem til þess var valinn þekkti ekki mun á óblómgaðri stör og klófífu. Vonandi hafa það bara verið einhverjir byrjunarörðug- leikar og að úr því hafi rætzt. Að þessum lestri loknum vona ég, að BS sé svolítið ljósara en áður við hvað ég átti í greinarstúf mínum þ. 17. s.l. Ég tel mig hafa ákveðin rök gegn ræktun sanda og fyrir að vara við áburðardreifingu á gróið land. Menn mega ekki falla í þá gryfju að mæla allt í fallþunga sauðfjár. Þessi mál verður að skoða i miklu víðara ljósi og gera sér grein fyrir hvað er raunhæft í þessum efnum. Ég tek heilshugar undir þessi orð i grein BS: „Við verðum að lifa í sátt við landið og haga nýtingu þess skynsamlega." Fóðurbætisskattur og kvótakerfi meðal tillagna sem lagðar verða fyrir aðalf. Stéttarsamb. bænda AÐALMÁL aðalfundar Stéttarsambands bænda, sem hefst á Akureyri næstkomandi þriðjudag, verður sá vandi, sem komið hefur upp f framleiðslu og markaðsmálum landbúnaðarins í kjölfar skorts á útflutningsbótum og aukinnar framleiðslu í vissum greinum landbúnaðar. í samtali við Morgunblaðið sagði Gunnar Guðbjartsson formaður Stéttarsambands bænda að meðal annars yrðu þarna á fundinum lögð fram drög að tillögum þeirrar sjö manna nefndar, sem landhúnaðarráðherra skipaði í framhaldi af síðasta Búnaðarþingi til að gera tillögur um ráð, sem rétt væri að grípa til vegna þess vanda, sem nú er uppi í framleiðslu - og markaðsmálum landbúnaðarins. Verða þessi drög lögð fram á fundinum til kynningar en nefndin hefur ekki lokið tillögugerð sinni. í þessum drögum nefndarinnar er gert ráð fyrir að lögfcst verð heimild til töku fóðurbætisskatts og kvótakerfis á framleiðslu bænda. — Ég mun eins og venja er til gera í upphafi fundarins grein fyrir störfum stjórnar Stéttar- sambandsins á sl. ári og þróun sölu og framleiðslu búvaranna en stjórnin hefur gert sínar tillögur um að mæta þeim vandamálum sem við er að fást og þær voru lagðar fram á aukafundi Stéttarsambandsins í vetur. Þá verða þarna á fundin- um lögð drög að tillögum þeirrar sjö manna nefndar, sem landbúnaðarráðherra skipaði til að gera tillögur í framleiðslu og markaðsmálunum sagði Gunnar. I samtalinu við Gunnar kom fram að í tiBögudrögunum er gert ráð fyrir að lögfest verði heimild til að setja á kvótakerfi í framleiðslu sauðfjár- og naut- gripaafurða og gjaldtöku af innfluttum fóðurbæti. Þá er í tillögunum gert ráð fyrir að greiðslur fyrir afurðir sauðfjár og nautgripa skerðist mismikið eftir bústærð. Gunnar sagði að hugmyndir væru uppi um að nota hluta af því fe, sem fengist inn af kjarnfóðurgjaldi og kvótakerfinu til að fá bændur til að minnka framleiðslu sína líkt og gert hefur verið í Noregi. Einnig er í tillögudrögunum fleira er lýtur að því að auka aðra atvinnustarfsemi en hinar hefðbundnu búgreinar í sveitum s.s. aukabúgreinár og léttan iðnað. — Þessi drög nefndarinnar verða lögð fyrir fundinn til kynningar og að honum loknum gengur nefndin frá tillögum sínum. Það er rétt að margir bændafundir hafa lýst andstöðu sinni bæði við fóðurbætisskatt og kvótakerfi en aðrir mæla líka með þessum aðgerðum. En ég held að það sé mikilvægt eins og reyndar hefur verið bent á af ákveðnum bændafundum, að aðalfundur Stéttarsambandsins taki forystu í þessum málum, því við megum alveg eiga von á því að stjórnvöld grípi að öðrum kosti til aðgerða, sem við fáum litlu um ráðið, sagði Gunnar. Fjölmörg önnur mál verða til Gunnar Guðbjartsson umfjöllunar á fundinum að sögn Gunnars og er vart gert ráð fyrir að honum ljúki fyrr en á fimmtudag. Meðal tillagna, sem fundinum hafa borist, er tillaga um að leita leiða til lækkunar á verði búvara s.s. með hækkun niðurgreiðslna en að sögn Gunnars horfa menn nú áhyggjufullir á að í haust verði smjörbirgðir meiri heldur en þær hafa nokkru sinni fyrr verið og það þrátt fyrir smjörútsöluna á dögunum. Framleiðslugeta mjólkurbúanna til ostagerðar er nú nýtt til hins ítrasta og verður ekki aukin nema fé fáist til breytinga á mjólkurbúunum. — Án efa verða lánamálin mikið til umræðu en í þeim hefur verið að verða hálfgert ófremdarástand, sagði Gunnar og benti á að í ár hefðu engin jarðakaupalán verið veitt, bú- stofnkaupalán hefðu minnkað hlutfallslega miðað við verðlag og Stofnlándeildin hefði synjað umsóknum um framkvæmdir upp á hátt í milljarð. Þá hafa einnig að sögn Gunnars komið fram háværar kröfur frá bænd- um um að afurða- og rekstrar- lán til landbúnaðarins verði hækkuð. — Á þessu þingi verða menn umfram allt að horfast í augu við ný viðhorf í sölumálunum og menn verða að taka afstöðu til þess hvort þeir vilja mæta þessum vanda með áframhald- andi töku verðjöfnunargjalds eða spyrna við fótum og draga úr framleiðslunni, sem vitan- lega verður ekki gert nema menn fórni einhverju sagði Gunnar að lokum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.